18.06.1985
Sameinað þing: 98. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6730 í B-deild Alþingistíðinda. (6023)

Umræður utan dagskrár

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Þessar umræður hafa farið út um víðan völl, en grunntónninn er þó það vandamál að fiskverkunarfólk hefur ekki almenn mannréttindi í landinu, að fiskverkunarfólk er sú stétt ein sem ekki nýtur eðlilegs uppsagnarfrests og hefur ekki þau kjör sem eðlilegt væri að það hefði.

Ástandið er vissulega misjafnt eftir landshlutum. Sums staðar fæst ekki fólk, annars staðar skortir atvinnu. Vissulega er það tímabundið. Uppsagnarfrestinn er fólkið að biðja um þar sem atvinnu skortir. Það þarf að una við það viku eftir viku, jafnvel mánuðum saman, að hafa ekki atvinnu og það sem verra er, því er kastað út í kuldann án nokkurs fyrirvara, kastað út í myrkrið til geymslu eins og einhver sagði hér áðan. Ég hygg að hver einasti skyni borinn maður sjái að íslenskt þjóðfélag verður ekki rekið á þennan hátt, á þann hátt að þeir sem vinna að undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar búi við þau kjör sem fiskvinnslufólk þarf að búa við.

Verkakonan og verkamaðurinn hrópa nú með vaxandi þunga: úrbætur. Í þeim kjarasamningum sem nú eru nýgerðir, heyrðust þær kröfur vissulega. Verkalýðshreyfingin krafðist úrbóta en eins og hv. síðasti ræðumaður gat um var samningaviðræðum slitið vegna þess. En það var ákveðið að vinna að þessum málum á samningstímabilinu, sem vissulega er ekki langt, og gert var samkomulag þess efnis að nefnd, sem skipuð verði fimm mönnum frá hvorum aðila, skuli leita leiða til að gera störf í fiskvinnslu eftirsóknarverð og bæta kjör fiskvinnslufólks. Skal hún vinna að því m. a. með eftirgreindum hætti:

1. Semja tillögur sem hafi það að markmiði að auka atvinnuöryggi fiskvinnslufólks og stuðla að samfelldri og jafnari vinnslu sjávarafla.

2. Vinna tillögur um verkþjálfun og fræðslu fiskvinnslufólks, svo og framgang þessa.

3. Skilgreina starfsheitið sérþjálfað fiskvinnslufólk.

4. Meta gildi verkþjálfunar og fræðslu til launa.

Ætlunin er að tillögunum verði skilað fyrir 1. des. n. k.

Þar á ofan hefur forsrh. heitið því að beita sér fyrir því á vettvangi ríkisstj. að þeim markmiðum sem lýst er í þessu samkomulagi Verkamannasambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands um málefni fiskvinnslufólks verði náð m. a. með tilstyrk Atvinnuleysistryggingasjóðs.

Og ef ríkisstj. stendur ekki að því að þessi markmið verði að veruleika, í samstarfi við Vinnuveitendasambandið og Verkamannasambandið, þá segi ég: Guð hjálpi þeim. Þá er friðurinn úti. Það verður ekki þolað lengur að farið sé með fiskvinnslufólk eins og gert hefur verið. Hægt væri að halda langar ræður um það hvernig viðhorf almennings hefur breyst á síðustu árum gagnvart fiskvinnu, hversu gert er í því að fara niðurlægjandi orðum um það fólk sem þar vinnur, hversu sú reisn sem var áður yfir þessari starfsgrein hefur gersamlega horfið. Ég ætla þó ekki að hafa mörg orð um þetta nú vegna tilmæla forseta. En ég segi enn á ný: Taki þeir aðilar sem við þurfum að sækja til ekki til hendi og geri sitt til að bæta úr þeim erfiðu málum sem hér liggja fyrir er friðurinn úti. Það verður ekki staðið upp fyrr en þessi fyrirheit eru orðin að veruleika.