18.06.1985
Sameinað þing: 98. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6734 í B-deild Alþingistíðinda. (6025)

Umræður utan dagskrár

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það er ófögur lýsing á ástandinu í sjávarútveginum sem við fáum hér að heyra. Því veldur taprekstur, greinin á hausnum. eignirnar eru uppétnar á fáeinum árum, það eru léleg laun, sums staðar er vinnuaflsflótti, annars staðar hrynja fyrirtækin t. d. á Suðvesturlandi, og meira að segja eru sum sem starfað hafa í félagslegu rekstrarformi næstum því gefin, sbr. dæmið úr Hafnarfirði. En því miður er þessi ástandslýsing rétt. Og vinnuaflsflóttinn hefur það m. a. í för með sér að afkoman í greininni mun enn fara versnandi, vegna þess að menn hafa ekki vinnuafl til þess að vinna gæðavöru, sem gefi hátt verð, og búa sér þannig til enn lélegri afkomu.

Það hefur líka legið ljóst fyrir á undanförnum árum að sá taprekstur sem hefur verið í greininni gæti ekki getið af sér neitt annað en enn frekari taprekstur og erfiðleika. Því miður er svona komið. En þegar kemur að því að leita að orsökunum nefna menn ýmislegt til. Ég verð var við það að talsmenn ríkisstj. tala um spennuna í landinu. Þeir hefðu gjarnan mátt uppgötva það fyrr. Og mér er spurn: Hver bjó til þessa spennu? Hver ber ábyrgð á henni? Hvers vegna hefur hún orðið til? Hún hefur orðið til fyrir stjórnarstefnuna. Þeir menn sem undan henni kvarta hafa framfylgt þessari stefnu á undanförnum árum. Og það sem meira er, þeir eru enn að framfylgja sömu stefnu.

Talsmenn ríkisstj. tala líka um erlendu skuldirnar. Þær hafa tvöfaldast sem hlutfall af þjóðartekjum á fáeinum árum. Það er næstum því eins og menn séu að gera því skóna, þessir talsmenn stjórnarflokkanna, að þessi skuldasöfnun sé fólkinu í landinu að kenna. En það er hér á þessum stað sem ákvarðanirnar hafa verið teknar um það. Það eruð þið, ágætu þm., það eruð þið, stuðningsmenn núv. og fyrrv. ríkisstj., sem hafið safnað upp þessum skuldum, hafið haft forgöngu um það og alveg fram á þennan dag með þeirri lánsfjáráætlun og þeim lánsfjárlögum sem nú er verið að samþykkja, með 10 milljarða viðbót í nýjum lánum, sem eykur spennuna, sem eykur skuldasöfnunina, sem eykur afborgunarbyrðina og þýðir það að hér verður ekki hægt að halda uppi þeim lífskjörum sem annars væri mögulegt. Mér finnst til vansæmdar þegar menn láta í það skina að það sem er þeim sjálfum að kenna sé fólkinu í landinu að kenna sem ekkert hefur haft með þetta að gera. Og menn tala gáleysislega um það að halda uppi lífskjörum með erlendum lánum á sama tíma og menn eru í raun og sannleika að rýra lífskjörin með erlendum lánum, ekki bara í bráð heldur í lengd, því að afborgunarbyrðin fer sívaxandi á komandi árum og bara vextirnir eru orðnir hærri prósentutala af þjóðartekjum heldur en hagvöxturinn er líklegur til að verða næstu fimm árin. Það hefði verið nær fyrir þá sem tala um erlendu skuldasöfnunina að gera nú eitthvað í málinu og taka til hendinni. Og það hefði líka orðið að gagni fyrir sjávarútveginn vegna þess að það hefði dregið úr spennunni.

Hæstv. forsrh. las hér upp úr skýrslu áðan, ættaðri af Vestfjörðum með samanburði við Danmörku og hann kom af fjöllum um það að við stæðum ekki fremstir tæknilega að því er fiskvinnsluna varðar. Hann kom af fjöllum um það, hann var alveg gáttaður á því að svo skyldi vera. Þetta mátti hann þó vita. Sannleikurinn er sá að við hröktumst af réttri leið um leið og núv. forsrh. varð sjútvrh. því að þá var búið að marka þá stefnu að þeir fjármunir, sem við hefðum á milli handanna í sjávarútveginum, skyldu fara í tæknilega uppbyggingu í fiskvinnslunni og til þess að bæta aðbúnað sjómanna á fiskiskipunum. En hvað fengum við í hans tíð? Við fengum áframhaldandi innflutning á skipum, viðbót við fiskiskipastólinn, sem dró þróttinn úr þeirri tæknilegu uppbyggingu sem þá þegar, 1979, var ljóst að þyrfti að eiga sér stað í fiskvinnslunni. Það sem hæstv. forsrh. kemur nú af fjöllum með eru afleiðingar hans eigin stefnu í sjávarútvegsmálum meðan hann var sjútvrh. Sannleikurinn er sá að við munum ekki ná góðum árangri í því að laða hæft fólk að fiskvinnslunni og ná góðri afkomu í greininni, í sjávarútvegsgreininni, nema við tileinkum okkur nýjustu tækni og séum ævinlega í fararbroddi. Þess vegna er sorglegt til þess að vita hvernig við hröktumst af leið í sjávarútvegsráðherratíð núv. forsrh.

En ég skal bæta því við að sem betur fer virðist núv. sjútvrh. hafa meiri og betri skilning á þessu. En það eru okkar eigin verk fyrst og fremst, þeirra verk sem ábyrgð hafa borið á landsstjórninni. hvernig komið er. Spennan sem menn eru að kvarta undan, skuldasöfnunin, afkoman í sjávarútveginum, vantæknivæðingin, aðbúnaðurinn á vinnustöðunum og um borð í fiskiskipunum, það er allt fyrir ranga stefnu og hún er þeim mun sorglegri af því að við einmitt hröktumst af braut. Í stað þess að ræða þetta lengur eða skemur held ég að sómi Alþingis væri fólginn í því að taka til hendinni í þessum efnum, bæði að því er varðar stefnumörkun í sjávarútvegsmálum og einkum og sér í lagi að því er fjárfestinguna varðar og afkomuna í greininni og hins vegar að því er skuldasöfnunina varðar og þá spennu sem af því leiðir. Þá mundum við sjá raunverulegan og góðan árangur.