18.06.1985
Sameinað þing: 98. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6736 í B-deild Alþingistíðinda. (6026)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir þau svör sem hann hér gaf. Ég heyri það á þeim svörum að hann ætlar sér að halda óbreyttri stefnu að því er varðar þann þátt sem ég ræddi um. (Sjútvrh.: Rétt.) Það er rétt skilið, já. Og hann telur það vera réttláta skiptingu á gæðunum, ef ég hef skilið rétt, að Austurland t. d. hækki úr 9.8% í 19.1 af þeim afla sem um er að ræða. Það er hin réttláta stefna að mati hæstv. sjútvrh. Ég hefði gjarnan viljað spyrja hæstv. forsrh., ef hann væri við, hvort hann sé sammála þessari réttlátu stefnu gagnvart þeim aðilum sem líka eiga fullan rétt á því að lifa og eru í skapandi atvinnugrein. Það er fólk svo hundruðum skiptir sem lifir bókstaflega á þessari atvinnugrein, heldur uppi atvinnulífi, þannig að það eru ekki neinir smámunir sem hér er um að ræða.

En vegna þess sem hæstv. ráðh. sagði, að ég hefði meiri áhuga á málum míns eigin kjördæmis en þessu máli í heild bið ég hæstv. sjútvrh. um frekari skýringu. Að vísu verður að virða honum það til vorkunnar að undangenginn tíma hefur hann ekki verið hér til staðar, en um þessi mál hefur einmitt verið rætt hér í heild í nokkurn tíma, m. a. af mér. Menn geta auðvitað ekki fylgst með því sem hér er að gerast víðs fjarri leikvelli og vettvangi, en menn eiga heldur ekki að dæma og fullyrða án þess þá að þeir viti hvað þeir eru um að tala. Ég vísa því þess vegna heim til föðurhúsa að ég hafi hér sérstaklega í umræðum um fiskveiðar og fiskvinnslu verið að tala um mitt kjördæmi. Það hefur verið almennt um þá stefnu sem núv. ríkisstj., undir handleiðslu hæstv. sjútvrh., hefur fylgt og er að leiða til glötunar. Það liggur fyrir að fiskvinnslufyrirtækin, útgerðin, muni stöðvast á næstu dögum eða vikum verði ekkert að gert. Og það er undir handarjaðri hæstv. ráðh. sem þetta gerist. Það er stjórnarstefnan sem er að ganga af þessari atvinnugrein dauðri og allir vita hvað það kemur til með að þýða.

Það er líka rangt hjá hæstv. ráðh. sem hann sagði hér áðan að ég væri á móti allri stjórnun á fiskveiðum. Það er alrangt líka. Ég hygg að hæstv. ráðh. ætti að muna það að þær tillögur sem ég stóð að að flytja ásamt fleirum hér voru um það að undanskilja handfæraveiðar t. d. og línuveiðar undan kvótanum. Og ég hygg að flestum sem til þekkja sé það ljóst að þessar atvinnugreinar tvær, þ. e. handfæri, og línuveiði, verða ekki til þess að ógna fiskistofnunum við landið þó að þær væru ekki settar undir kvóta eða alræðisvald eins ráðh. eins og nú er um allar fiskveiðar og fiskvinnslu nánast í landinu.

Nei, þetta er auðvitað miklu alvarlegra og stærra mál en svo að það snúi bara að einu kjördæmi. Og það snýr ekki bara að fiskvinnslufólkinu né heldur bara að sjómönnunum. Það snýr ekki heldur bara að þeim sem reka umrædd fyrirtæki. Þetta snýr að þjóðinni allri. Verði haldið áfram á þeirri braut sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur markað og virðist ætla að halda sér á, þá verður ekki langt þangað til við stöndum á rústum þessarar atvinnugreinar. Og kannske er það það sem menn ætla sér. Það er engu líkara en augu þessara hæstv. ráðamanna hafi ekki opnast og muni ekki opnast fyrr en þá að menn sjá allt hrunið undan sér, þegar þeir standa á þeim rústum sem fyrst og fremst koma til með að verða til þess að við búum ekki lengur í sjálfstæðu þjóðfélagi. Ég held að þeir sem ráða ferðinni ættu að gera sér grein fyrir því að þetta er kannske nær en margur hyggur ef fram heldur sem horfir.