18.06.1985
Efri deild: 102. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6743 í B-deild Alþingistíðinda. (6030)

245. mál, lánsfjárlög 1985

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Þetta mál er komið hér til okkar að nýju eftir breytingar í Nd. Ég talaði alllangt mál við umr. málsins hér á sínum tíma og skal ekki lengja þessa umr. neitt sérstaklega. Af hálfu Alþfl. voru í Nd. lagðar fram og rökstuddar ítarlega sundurliðaðar tillögur til lækkunar á lánsfjáráætluninni og breytingar til lækkunar á lánsfjárlögum. Við teljum að það verði að spyrna á móti sívaxandi erlendri lántöku. Við,höfum raunar gengið allt of langt í þeim efnum því að nú á að auka löng erlend lán úr 62% af þjóðarframleiðslu í 63.6%.

Það hefði verið æskilegt, virðulegi forseti, að geta rætt þessi mál í góðu tómi við hæstv. fjmrh. En ég veit að hann er að gegna mikilvægum störfum annars staðar og gat þess vegna ekki setið þennan fund núna. Því mun ég ekki gera þetta að umtalsefni í löngu máli. En við leggjum til að lántökurnar verði verulega lækkaðar og það kemur auðvitað einhvers staðar við. Það er nú það sem fylgir því að draga saman seglin á þessu sviði að það kemur kannske býsna hart við ýmsa.

En ég vildi gera hér grein fyrir þeim breytingum sem ég legg til á þskj. 1300. Þskj. á þessu þingi eru komin upp í hærri tölu en á nokkru þingi áður. Breytingarnar eru í sex liðum, við 1., 3., 4., 6., 8. og 10. gr. og eru breytingar á upphæðum til samræmis við þá lækkun sem við leggjum til. Ég hirði ekki um að ræða hvern einstakan lið í smáatriðum. Ég held að það hafi enga praktíska þýðingu á þessari stundu. En þessar till. eru fluttar hér til að láta á það reyna hvort unnt er að ná fram einhverjum breytingum á þessu.

Í öðru lagi mæli ég fyrir brtt. á þskj. 1297 um að á eftir 27. gr. komi ný gr. sem orðist svo, með leyfi forseta:

„Fjmrh. er heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að ábyrgjast með einfaldri ábyrgð skuldbindingar fiskeldisstöðva gagnvart Framkvæmdasjóði Íslands vegna lántöku hjá Norræna fjárfestingalánasjóðnum, allt að 150 millj. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt.“

Þetta er bara fyrirkomulagsatriði þannig að það sé einn aðili sem er ábyrgur gagnvart Norræna fjárfestingalánasjóðnum. Það er heldur til einföldunar en mjög lítið mál í rauninni. En þetta hlaut nú ekki náð fyrir augum stjórnarliða í Nd.

I þriðja lagi er á þskj. 1298 brtt. sem ég flyt ásamt hv. þm. Skúla Alexanderssyni um að á eftir 27. gr. komi ný gr. sem orðist svo:

„Fjmrh. er heimilt á árunum 1985 og 1986 að gefa út ríkisskuldabréf, er séu verðtryggð en án vaxta, og nýta andvirði bréfanna til að flýta verkáföngum frá gildandi vegáætlun, að fengnum tillögum Vegagerðar ríkisins og samþykki fjvn.

Gjalddagi bréfanna er á því ári sem verk það, sem fyrir var greitt, skyldi unnið skv. vegáætlun og greiðir ríkissjóður þá nafnverð bréfanna að viðbættum verðbótum.

Ríkissjóði er heimil lántaka skv. þessari grein allt að 150 millj. kr. miðað við lánskjaravísitölu 1144 stig. Nánari ákvæði um lántöku þessa og gjalddaga skulu sett með reglugerð.“

Þessi till. skýrir sig raunar sjálf. Ef slaki myndast í framkvæmdum geti Vegagerðin með þessum hætti flýtt framkvæmdum og fjármagnað þær með þeim hætti sem hér greinir. Þetta eru í rauninni verktaka- og vinnuvélalán sem hafa verið tíðkuð alllengi en ekki gilt um þau neinar fastar reglur. Till. er sett fram til að greiða fyrir því að Vegagerðin geti notfært sér slík lán til að flýta framkvæmdum þar sem slíkt þykir hagkvæmt og er áskilið samþykki fjvn.

Ég tel ástæðulaust, virðulegi forseti, að hafa um þetta fleiri orð. Þessar till. munu ganga hér til atkvæða. Ég held að það sé góður vilji og skilningur á því í þessari hv. deild að það er nauðsynlegt að afgreiða frv. til lánsfjárlaga sem allra fyrst. Ekki mun ég standa gegn því.