18.06.1985
Neðri deild: 101. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6745 í B-deild Alþingistíðinda. (6036)

457. mál, Framkvæmdasjóður Íslands

Hjörleifur Guttormsson (frh.):

Herra forseti. Ég varð við tilmælum forseta hér um hádegi á laugardag að gera hlé á ræðu minni og hafði þá látið þess getið að ég ætti ekki langt mál eftir óflutt í þennan umgang a. m. k., en varð að sjálfsögðu við beiðni virðulegs forseta að hætta, þar sem ósk kom fram um það. Ég hafði áhuga á því að heyra í hæstv. forsrh. um vissa þætti málsins og þar sem hann er nú við umr., þá vænti ég að það geti orðið áður en gert er kvöldmatarhlé á þessum fundi virðulegrar deildar, en vegna samhengis málsins þætti mér vænt um að starfandi iðnrh. væri hér viðstaddur eins og við umr. fyrir hádegi á laugardag, þar sem málið sem ég er að ræða snertir hann að nokkru leyti og hans starfssvið. (Forseti: Forseti verður víst að segja sem er að það horfir ekki vel með starfandi iðnrh. því að hann kom að máli við forseta rétt í þessu og sagðist þurfa að gegna sérstökum ráðherraskyldum nú einmitt á þessum tíma.) Já, það þykir mér lakara, virðulegur forseti, ef svo er. Þetta er enn svo, að hæstv. iðnrh. er ekki viðstaddur þrátt fyrir mjög ítrekuð tilmæli mín um að hann sé við umr. En ég ætla ekki að láta það hafa áhrif hér á mitt mál í bili, á meðan kannað er hvort hann gæti ekki verið hér á fundi, og þó að það væri innan ekki langs tíma. sem sagt áður en ég lyki máli mínu og þætti mér það betra, en virðulegur forsrh. gæti e. t. v. einnig leyst úr einhverjum þáttum sem ég ætlaði að hnykkja á hér í mínu máli.

Ég vil í framhaldi af því sem ég ræddi síðast þegar umr. var frestað víkja hér að misskilningi. sem uppi hefur verið í sambandi við tilkostnað vegna álmálsins, sem dróst hér inn í umræður um Framkvæmdasjóð Íslands og er ástæðan fyrir því að ég kvaddi mér hér hljóðs. Ég vil þó segja það fyrst af öllu að ég er afar ánægður yfir því, eins og kom áður fram í mínu máli. að þessi mál hafa komið hér til umræðu og að fram hafa komið upplýsingar bæði varðandi tilkostnað á fyrri stigum og einnig nú upp á síðkastið í sambandi við þetta mál. Hins vegar hef ég þegar gert athugasemdir við þann talnalega samanburð, þó svo hann út af fyrir sig skipti ekki öllu máli í þessu máli, heldur sú málsmeðferð sem orðið hefur í tíð núv. ríkisstj. í sambandi við þetta mál.

Með eitthvað undarlegum hætti hefur verið dregið inn í þetta mál bréf sem ég undirritaði ásamt ráðuneytisstjóra iðnrn. 17. maí 1983. Frá því er greint í frétt Morgunblaðsins, án nokkurra skýrra tenginga samt við upplýsingar þar, s. l. laugardag, sem hafðar eru eftir gögnum sem hæstv. forsrh. afhenti, en sama bréf verður tilefni sérstakrar forsíðufyrirsagnar í NT þar sem segir, með leyfi forseta, í fyrirsögn: „Þóknanir vegna álsamninga skv. töxtum Hjörleifs“ og síðan segir feitletrað: „Greiðslur til Guðmundur G. Þórarinssonar og lögfræðilegra ráðunauta vegna álsamninganna voru gerðar skv. ákvörðunum um launagreiðslur sem teknar voru af Hjörleifi Guttormssyni níu dögum áður en hann lét af embætti iðnrh. árið 1983. Eftir þessum töxtum Hjörleifs hefur verið farið við greiðslur til ráðunauta við samningsgerðina.“

Hér er verið að setja mál fram með þeim hætti sem ég tel nú ekki sæmandi vera, síst af öllu ef viðkomandi fréttamenn hafa haft það bréf undir höndum sem hér er verið að vitna til og bæði þessi blöð virðast byggja á. Nú tel ég það ekki vera skynsamlegt endilega að vera að lesa upp embættisbréf, sem varða einstaklinga, hér á Alþingi nema sérstakt tilefni sé til, en vegna þess að þessu bréfi hefur verið dreift til fréttamanna tel ég ástæðu til að það komi hér fram. Þar mun vera um að ræða bréf, sem ég rita 17. maí 1983 Ragnari Aðalsteinssyni hrl., og þann sama dag var gengið frá ýmsum bréfum sem vörðuðu sama efni, þ. e. að ganga frá því að deilan um skattsvik álversins í Straumsvík mörg undanfarin ár skyldi skv. ósk Alusuisse ganga fyrir Alþjóðastofnunina til lausnar fjárfestingardeilum (ICSID). En Alusuisse hafði gert um það kröfu, sem það átti rétt til skv. aðalsamningi, að svo skyldi gert og ráðuneytinu var skylt að svara til um það og síðan að ganga frá því með hvaða hætti þetta mál skyldi ganga til þessa gerðardóms.

Og ég bið menn að hafa í huga að í þennan gerðardóm fór málið aldrei fyrir tilverknað núv. ríkisstj. Núv. ríkisstj. hélt einmitt þannig á málinu að það var að kröfu Alusuisse tekið út úr þessum gerðardómi, út úr þessum skýrt afmarkaða farvegi sem álsamningurinn gerði ráð fyrir, og sett inn í flókinn þriggja nefnda farveg. Og það var þriggja mánaða umþóttunartími frá því að málið fór eða ósk um það eða viðurkenning kom frá íslenskum stjórnvöldum að þau höfðu ekkert við það að athuga að þetta færi í dóm. Bráðabirgðasamkomulagið fræga var gert í september 1983 til þess að málið festist ekki í þessum gerðardómi, en færi í þann farveg þriggja nefnda sem Alusuisse hafði gert tillögu um og sem endaði með sáttargerðinni frægu um greiðslu á 3 millj. dollara upp í ótilteknar kröfur íslenskra stjórnvalda í staðinn fyrir 10 millj. dollara kröfu um viðbótargreiðslu á framleiðslugjaldi sem var ákvörðuð af fjmrn. í aprílmánuði 1983.

En bréfið sem ég vitna til og varðaði sem sagt þá lögfræðinga sem skyldu fara með málið, Ragnar Aðalsteinsson sem aðalmálafærslumann og ráðgjafa til aðstoðar, er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Ráðuneytið vísar til starfs yðar sem lögfræðilegs ráðunauts iðnrn. í málefnum er varða Swiss Aluminium Ltd., allt frá árinu 1980 og starfa yðar sem lögfræðilegur ráðunautur viðræðunefndar íslensku ríkisstjórnarinnar við Swiss Aluminium Ltd. frá júlí 1981 til desember 1982.

Ráðuneytið vísar enn fremur til lögfræðilegrar ráðgjafar yðar við rannsókn og endurskoðun á skattamálum Íslenska álfélagsins hf., sem fram fór á þessu tímabili, m. a. í samstarfi við breska endurskoðunarfyrirtækið Coopers & Lybrandt.

Ráðuneytið skipar yður hér með til að vera lögmaður ríkisstjórnar Íslands í máli því sem Swiss Aluminium Ltd. hefur höfðað fyrir gerðardómi skv. 47. gr. aðalsamnings milli ríkisstjórnar Íslands og Swiss Aluminium Ltd., dags. 28. mars 1966, með síðari breytingum og á grundvelli alþjóðasamnings um lausn fjárfestingardeilna milli ríkja og þegna annarra ríkja.

Hjálagt fylgja í afriti telexskeyti Swiss Aluminium Ltd., dags. 29. apríl 1983, og svarbréf iðnrh. dags. 9. maí 1983, þar sem fallist er á að deila um yfirverð á aðföngum og um endurálagningu framleiðslugjalds á Íslenska álfélagið hf. verði lögð fyrir gerðardóm sem starfi á vegum Afþjóðastofnunar til lausnar fjárfestingardeilum (ICSID) á grundvelli ofangreinds alþjóðasamnings.

Málflutningsumboð yðar nær til að koma fram fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands með fullt umboð í málinu og gefa þar nauðsynlegar málflutningsyfirlýsingar.

Yður er jafnframt heimilað að stofna til þess kostnaðar sem telja verður eðlilegan vegna reksturs málsins. þar á meðal til að kaupa nauðsynlega sérfræðiaðstoð.

Eftirtaldir aðilar hafa verið tilnefndir til að vera yður til aðstoðar við málareksturinn: Halldór J. Kristjánsson deildarstjóri, iðnrn., Árni Kolbeinsson deildarstjóri, fjmrn. og Charles J. Lipton lögmaður, New York.

Ráðuneytið hefur með bréfum dags. í dag með vísun í 18. gr. reglugerðar gerðardómsins (ICSlD Arbitration rules) tilkynnt Alþjóðastofnuninni til lausnar fjárfestingardeilum og Swiss Aluminium Ltd. skipun yðar og tilnefningu aðstoðarmanna yðar og fylgja ljósrit af greindum bréfum rn. bréfi þessu.

Með hliðsjón af umfangi og eðli málarekstursins hefur rn. ákveðið að þóknun fyrir málflutninginn verði sem hér segir:

1) Fyrir unninn dag utan Íslands sama gjald og greitt er gerðardómsmönnum skv. reglum Alþjóðastofnunarinnar til lausnar fjárfestingardeilum.

2) Fyrir unninn dag í Reykjavík 2/3 af þóknun í lið 1.

3) Útlagður kostnaður verði greiddur eftir framlögðum reikningum.

4) Dagpeningar á ferðalögum utan Íslands eins og tíðkast vegna ferða opinberra embættismanna.“

Ég vænti, herra forseti, að menn átti sig á því að skv. bréfi þessu er hvorki verið að ákvarða eitthvað um greiðslu eða þóknanir til baka aftur í tímann né verið að ákvarða eitt eða annað um þóknanir til annarra en þess sem ákveðinn hefur verið sem lögmaður ríkisstjórnar Íslands í þessu gerðardómsmáli fyrir tiltekinni umræddri stofnun í New York. Það er því gersamlega úr lausu lofti gripið að vera að tengja ákvörðun um þetta atriði þóknunum sem eftirfarandi ríkisstj. hefur ákvarðað og hæstv. núv. iðnrh. ákvarðað til sinna manna, þ. e. þeirra manna sem hann dró inn í málið eftir að það var tekið út úr gerðardómi og stofnaðar þar nefndir sem störfuðu um skeið, en sléttað var yfir allar saman og alla þeirra vinnu, um það gerð sátt gegn 3 millj. dollara greiðslum og samningur gerður sem hv. alþm. þekkja frá nóv. s. l., þar sem Alusuisse tókst það ætlunarverk sitt að kljúfa þetta mál, átökin um leiðréttingu á álsamningnum og greiðslur vegna brota á samningi á fyrra skeiði, kljúfa það mál upp þannig að ríkisstjórn Íslands stendur nú ekki með hálfkarað verk heldur réttara að segja hálfunnið verk, fyrri hlutann með þeim hætti sem alþm. þekkja, raforkuverð langt, langt undir framleiðslukostnaði til álversins, eftirgjöf frá gildandi skattareglum og ólokið endurskoðun á breyttu skattkerfi við álverið og svo hið mikla áhugamál ríkisstj., samninga um stækkun álversins, sem eru einhvers staðar úti í buskanum, nema hæstv. starfandi iðnrh. geti sannfært okkur hér um annað. Væntanlega heyrir hann mál mitt og getur þá greint frá því hvort þar sé að finna einhverjar nýjar upplýsingar um þann þátt mála að því er varðar samning um stækkun álversins, sem hæstv. iðnrh. gerði ráð fyrir að yrði lokið fyrir mitt þetta ár skv. frásögnum í blöðum ekki alls fyrir löngu, en þær hafa reyndar gengið mjög á misvíxl.

Ég ætla svo alls ekki að fara út í neinn meting um þann tilkostnað sem varð á tíma fyrri ríkisstj. í sambandi við þetta mál, þá miklu vinnu sem í það var lögð að draga fram í dagsljósið þær yfirtroðslur sem átt höfðu sér stað um árabil af hálfu þessa samningsaðila, Alusuisse, við íslensku ríkisstj., og hins vegar þann tilkostnað sem þegar hefur orðið vegna málsmeðferðar núv. ríkisstj. Þær tölur geta menn virt fyrir sér og menn greinir eflaust á um hvers virði þau störf hafi verið sem unnin hafa verið á fyrri tíð og aftur í tíð núv. stjórnar. Ég ætla ekki að gerast neinn salómonsdómari í því máli, það verða menn að meta að athuguðu máli hver fyrir sig, hvers virði þau störf og verk voru og hvernig menn meta þá stöðu sem málið nú er í. En ég vakti athygli á því í máli mínu á laugardag að sá sérkennilegi eða athyglisverði háttur er á hafður við framreikning á kostnaði, launagreiðslum og þóknunum, af hálfu ráðh. í núv. ríkisstj. að nota lánskjaravísitölu til framreiknings. Og ég spyr hæstv. forsrh.: Telur hann þetta eðlilega viðmiðun í þeim gögnum sem hann afhenti og vill hann hlutast til um að slík viðmiðun verði tekin upp um kaup og kjör fyrr en seinna í samningum við launafólk á Íslandi?

Ég vil líka taka það fram, vegna þess að þessi samanburður er fram reiddur og verið er að búa til tölur og fyrirsagnir um þessi efni, að ef sömu aðferð yrði beitt á svar sem hæstv. iðnrh. reiddi hér fram vegna fsp. frá Geir Gunnarssyni, í síðasta mánuði að ég hygg, ég hef það reyndar hér, það er lagt fram 24. maí, ef beitt er þannig framreikningsaðferðum, þá er tilkostnaður vegna þeirra nefnda sem þar var verið að svara til um ekki innan við 30 millj. kr., 29–30 millj. kr. heldur vel yfir 40 millj. kr., ef menn vilja viðhafa slíkan samanburð, sem ég vísa á bug, með framreikningi skv. lánskjaravísitölu nema hún verði upp tekin í sambandi við greiðslur á launum og þóknunum í landinu af núv. stjórnvöldum. Ég fæ það út með yfirferð skv. lánskjaravísitöluformúlunni að til samninganefndar um stóriðju hafi verið greiddar 38 millj. kr. af núv. ríkisstj. frá 1. júní 1983 til ársloka 1984, ég held að ekkert sé tiltekið um tilkostnað á árinu 1985, en hann er hér hvergi inni í myndinni, og vegna stóriðjunefndar að auki 2.5 millj. kr. eða samtals 40.5 millj. Þá er ekkert meðtalið af þeim tilkostnaði sem orðið hefur vegna leitar að útlendum samstarfsaðilum í Kísilmálmvinnslunni hf. sem svör komu um við fsp. frá hv. þm. Guðmundi Einarssyni hér fyrr á þinginu. þar sem hann innti eftir kostnaði vegna þeirra mála, og þar er sérstaklega færður undir eignaraðildarviðræður tilkostnaður sem svarar skv. sömu vísitöluviðmiðunum 2.4 millj. kr. Þetta eru því tæplega 43 millj. vegna þessarar erlendu stjóriðjustefnu ríkisstj. og viðræðnanna við Alusuisse skv. þeirra eigin viðmiðunum, tæpar 43 millj. kr. En eins og ég segi, þetta er ekki meginatriði málsins.

Meginatriðið í sambandi við álmálið er hvernig farið var með þau gögn og upplýsingar og þá stöðu sem byggð var upp í tíð fyrri ríkisstj., hvernig á því máli hefur verið haldið af núv. ríkisstj. Þar hefur ekki verið haldið til haga þeirri stöðu Íslands sem fyrir lá að mínu mati og allrar stjórnarandstöðunnar, nema kannske Bandalags jafnaðarmanna, eins og atkvæði féllu hér um álsamningana endurskoðaða í nóvember síðla á liðnum vetri.

Þetta, virðulegur forseti, ætla ég að láta nægja í sambandi við þetta efni þó að mörgu mætti þar við bæta. Ég sé ekki ástæðu til þess hér að etja kappi við hæstv. forsrh. eða hæstv. starfandi iðnrh. um aðra þætti málsins þó að full ástæða væri vissulega til þess. En ég vil vekja athygli á því að hæstv. forsrh., sem gaf tilefni til umr. um þessi efni undir þessum dagskrárlið hér, svaraði ekki ýmsum spurningum sem ég beindi til hans í umr. um þróunarfélag. Ég vil leyfa mér að rifja það upp og ég vænti að hæstv. forsrh. hafi gefið þeim spurningum gaum ekki síður en öðrum, spurningum eins og þessari um skiptingu á rannsóknar- og þróunarfjármagni upp á 50 millj. kr. sem ríkisstj. gerði ráð fyrir og hét til rannsóknar- og þróunarstarfsemi á þessu ári. Ég tók eftir því að hæstv. ráðh. skrifaði niður þá fsp. hér í umr. um fyrra dagskrármál um þróunarfélag. en svör hef ég engin fengið.

Ég innti hæstv. ráðh. einnig þar eftir hvenær hefði verið skipuð nefnd varðandi fiskeldismálin sem sjútvrn. og landbrn. hafa verið að togast á um í tvö ár. Hæstv. sjútvrh. greindi frá því hér í umr. í apríl að forsrh. væri að skipa nefnd í þau mál. Ég bað hæstv. ráðh. um að upplýsa hverjir sætu í þeirri nefnd og hvenær hún hefði verið skipuð.

Ég spurði hæstv. ráðh. líka um það í þessari umr. hver væri afstaða Framsfl. til hinnar erlendu stóriðjustefnu núv. hæstv. iðnrh., hver væri afstaða hans til þeirra óska Sjálfstfl.. ef marka má hæstv. iðnrh. sem talsmann flokksins, að koma helst kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði alfarið í hendur útlendinga. Ætlar Framsfl. að taka undir það? Ætlar hann að taka undir það að þetta fyrirtæki verði að meirihlutaeign í höndum útlendinga, ef það einhvern tíma kemst á laggirnar. sem litlar horfur hafa verið á til þessa undir forustu núv. hæstv. ríkisstj.

Ég vil svo bæta hér við að lokum máli sem snertir það sem hér er verið að ræða og fyrri dagskrármál, þar sem lagt er til í frv. til l. um Framkvæmdasjóð Íslands að mál þetta heyri undir forsrh. eins og þríburafrv. öll sömul. Ég hef þegar gert það að umtalsefni að ég telji það ekki skynsamlega ráðið, en væntanlega telur núv. hæstv. ríkisstj. það óhjákvæmilegt og rétt. að halda þannig á máli. En inn í stjórnarsáttmála og endurskoðaðan stjórnarsáttmála var, ef ég man rétt, tekið ákvæði um það að endurskoða lög um Stjórnarráð Íslands. Ég tók þátt í því fyrir hönd míns þingflokks að fara yfir drög að frv. til l. um Stjórnarráð Íslands. skýrslu þar að lútandi frá sérstakri nefnd á vegum hæstv. ríkisstj.. sem enginn stjórnarandstæðingur var skipaður í, en til kvaddir fulltrúar frá stjórnarandstöðuflokkunum á síðasta sumri til að fara yfir tillögur þar að lútandi, upphaflega skilað til hæstv. forsrh. frá svonefndri stjórnkerfisnefnd 15. nóvember 1983, og síðan ýmsar tillögur og hugmyndir í framhaldi af því. Ég vil spyrja hæstv. forsrh.: Hvar er þetta mál statt? Hefur ríkisstj. gefist upp við þetta verk? Ég tel að þetta mál sé mjög mikilsvert. að reyna að koma betri skipan á málefni stjórnarráðsins, þar sé verulega mikil þörf uppstokkunar. breytingar á verkaskiptingu ráðuneyta og samstarfi ráðuneyta og samsetningu málaflokka í höndum einstakra ráðh. Ég gat tekið undir ákveðnar hugmyndir, þó engan veginn allar, í þeim drögum sem kynnt voru stjórnarandstöðunni í ágúst á s. l. sumri. Hvar er þetta mál statt? Hefur því ekkert miðað, hæstv. forsrh.?

Ég ætla ekki hér að taka tímann til að ræða æskilegar breytingar, sem ég gæti haft um talsvert mál, varðandi Stjórnarráð Íslands. En ég tek það líka fram að fyrir utan breytingar á Stjórnarráði Íslands til eflingar stjórnarráðsins í margri grein, sem ég tel nauðsynlegar. er hitt þó ekki síður nauðsynlegt, að efla aðstöðu Alþingis til starfa, efla möguleika alþm. til verka hér á Alþingi og í tengslum við löggjafarstörfin. Það væri mál út af fyrir sig, en það geri ég ekki hér að umræðuefni. Ég spyr svo að lokum undir lok míns máls, virðulegur forseti, hæstv. starfandi iðnrh.:

1. Hvað getur hann hér upplýst um samninga vegna kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði, sem mjög hefur verið til umræðu um langt skeið, og hugsanlegar framkvæmdir við það fyrirtæki? Fyrst hæstv. iðnrh. sjálfur er nú floginn út í heim og er hér ekki til svara, þá getur sá sem á málum heldur e. t. v. eitthvað um þetta upplýst.

2. Hvað getur hæstv. starfandi iðnrh. upplýst um samninga varðandi skattareglur, en þeim átti að ljúka 1. júní s. l. skv. samkomulaginu við Alusuisse sem knúið var upp á Alþingi og alþm. létu sig hafa að samþykkja hér í nóvember s. l.?

3. Hvað líður samningaumleitunum um stækkun álversins í Straumsvík, sem ekki er mitt áhugamál en hefur verið draumsýn núv. hæstv. ríkisstj. um langan tíma? Þann 14. maí s. l. sagði hæstv. iðnrh. um það efni að hann gerði ráð fyrir sérstökum formlegum samningafundi um það mál fyrir lok maímánaðar s. l. Hefur sá fundur átt sér stað? Hver er staðan í því máli?

Herra forseti. Það gæti verið ástæða af minni hálfu til mun ítarlegri umræðu um þessi efni, en ég hef fyrir mér dagskrá þessa fundar upp á 16 mál, upp á 16 mál í höndum Nd. en Ed. með 5 mál. Stjórnarandstaðan hefur ekki beitt sér fyrir því sumarþingi sem hér stendur fyrir. Það er annarra verk að við sitjum hér 18. júní frammi fyrir löngum málalista um stórmál sem enn eru óafgreidd af hálfu Alþingis. Ég vænti þess að vinnubrögðin af hálfu hæstv. ríkisstj. geti farið eitthvað batnandi því að þótt ég sé reiðubúinn til þess að sitja hér sumarið allt á þingi, ef ríkisstj. telur það nauðsynlegt, þá tel ég það ekki til fyrirmyndar fyrir Alþingi að lengja starfstíma þess með þeim hætti sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur beitt sér fyrir. Ég vek nefnilega athygli á því að verkefni alþm. liggja víðar en í fundarsetu hér innan löggjafarsamkomunnar þó hún sé líka mikilsverð. Verkefni alþm. eru líka að þreifa stöku sinnum á slagæðum þjóðlífsins utan veggja Alþingis og þar er um nokkuð langan veg að fara fyrir suma okkar sem erum þm. fyrir þau kjördæmi sem fjærst liggja Reykjavík.