18.06.1985
Neðri deild: 101. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6755 í B-deild Alþingistíðinda. (6041)

423. mál, viðskiptabankar

Frsm. meiri hl. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir áliti meiri hl. fjh.- og viðskn. á þskj. 1288, um frv. til l. um viðskiptabanka. Nefndin hefur fjallað um þetta mál á fundum sínum og fengið til fundar við sig fulltrúa viðskrn., bankaeftirlits Seðlabankans og fulltrúa viðskiptabanka, bæði ríkisbanka og hlutafélagabanka, svo og fulltrúa frá Sambandi íslenskra bankamanna.

Nefndin klofnaði í afstöðu sinni til málsins. Meiri hl. mælir með samþykkt frv. að samþykktum breytingum sem hann flytur á sérstöku þingskjali. Að meirihlutaálitinu standa Páll Pétursson, Þorsteinn 1'álsson, Friðrik Sophusson, Halldór Blöndal og Kjartan Jóhannsson með fyrirvara, en hann flytur brtt. á sérstöku þingskjali. Minni hl. skilar séráliti og flytur einnig brtt.

Með þessu frv. er verið að steypa í einn lagabálk lagaákvæðum um viðskiptabanka og samræma reglur sem um viðskiptabankastarfsemi gilda, og hverfa frá þeirri skipan að einstakir bankar starfi fyrst og fremst í þágu ákveðinnar atvinnugreinar. Það er álit meiri hl. nefndarinnar að með þessu móti verði bankarnir hæfari til þess að sinna þörfum atvinnulífs og einstaklinga. Helstu breytingar sem hér er um að ræða eru þær sem ég hef hér getið um, að bankarnir eru ekki lengur bundnir við ákveðna atvinnugrein og viðskiptabankar starfa nú eftir almennum reglum. Það þarf ekki lengur sérstaka löggjöf til þess að stofnsetja banka, en þeim eru sett ný skilyrði t. a. m. varðandi greiðslu hlutafjár sem skv. lögunum á að vera 100 millj. kr.

Bankarnir sem nú eru starfandi fá fimm ára aðlögunartíma til að fullnægja þessum skilyrðum. Ljóst er að hlutafélagabankar þurfa að auka hlutafé sitt til þess að þessum skilyrðum verði fullnægt. Að því er varðar bankaútibú þá eru þau ekki lengur háð leyfum ráðh. eins og verið hefur, en á hinn bóginn er kveðið svo á að bókfært verð þeirra fasteigna sem viðskiptabankinn notar undir starfsemi sína megi ekki nema hærri fjárhæð en sem svarar 65% af eigin fé bankans. Eins og aðstæður eru í dag hefur þetta í för með sér, þrátt fyrir ákvæði um frelsi til stofnunar útibúa, að aðeins einn viðskiptabanki hefur svigrúm til þess að stofna útibú. Aðrir bankar hafa hærra hlutfall af eigin fé bundið í fastafjármunum til starfsemi sinnar og þurfa því að þessum lögum samþykktum að losa um eignir eða auka eigið fé til þess að fullnægja þessum ákvæðum. Aðeins einn banki hefur svigrúm, og það mjög takmarkað, til stofnunar nýrra útibúa.

Heimildir bankastjóra viðskiptabanka til að sitja í stjórnum annarra stofnana eða atvinnufyrirtækja eru verulega takmarkaðar. Með þessu frv. er einnig staðfest sú skipan sem nú gildir varðandi nokkurn sjálfsákvörðunarrétt viðskiptabanka við ákvarðanir vaxta og þjónustugjalda. Viðskiptabankar hafa rétt til þess að versla með erlendan gjaldeyri. Í reynd hefur sú skipan orðið á að bankarnir hafa fengið leyfi til að versla með gjaldeyri og það er ekki lengur bundið við ákveðnar bankastofnanir eins og áður var.

Þá er það merka nýmæli hér að finna að viðskiptabönkum er heimilt að kaupa hlut í almenningshlutafélögum. Hér er um nýja heimild að ræða sem auðveldar bönkunum þjónustu við atvinnulífið og þátttöku í uppbyggingu þess. Þess er krafist með lögunum að eigið fé viðskiptabanka nemi 5% af niðurstöðutölu efnahagsreiknings skv. nánari reglum sem um getur í lagafrv. Hér er um nýmæli að ræða sem á að stuðla að því að almennar reglur gildi um bankana og auknar kröfur eru gerðar um styrkleika þeirra. Þetta frv. miðar því að því að tryggja að hér starfi einungis bankar sem hafa raunverulegan grundvöll til þess. Með þessu er einnig verið að auka öryggi innistæðueigenda. Eins og mál standa í dag munu allir starfandi viðskiptabankar fullnægja þessu skilyrði.

Í frv. er einnig gert ráð fyrir því að styrkja endurskoðun bankanna, bæði innri endurskoðun og enn fremur er gerð sú krafa að ráðh. skipi sérstakan löggiltan endurskoðanda sem skoðunarmann fyrir hvern ríkisbanka.

Þetta eru helstu breytingar sem um getur í frv. Í meðförum nefndarinnar komu ýmsir fleiri þættir til umfjöllunar m. a. sá sem lýtur að hagsmunum innistæðueigenda. Það varð niðurstaða meiri hl. nefndarinnar að þrátt fyrir ákvæði um nýjar eiginfjárkröfur væri rétt að tryggja hagsmuni innistæðueigenda enn frekar með stofnun sérstaks tryggingarsjóðs viðskiptabanka, og eru fluttar um það brtt. á sérstöku þingskjali.

Þá komu í nefndinni einnig til umræðu heimildir banka til erlendrar lántöku og skilgreining á 2. málsgr. 2. gr. frv. þar sem segir: „Ríkissjóður ber ábyrgð á öllum skuldbindingum ríkisviðskiptabanka. Til þess að taka lán erlendis án tryggingar í sjálfs sín eigum þarf ríkisviðskiptabanki sérstaka lagaheimild hverju sinni.“ Í álitsgerð sem dr. Ármann Snævarr fyrrverandi hæstaréttardómari ritaði um lagaheimildir ríkisbanka til lántöku erlendis skýrir hann þetta ákvæði sem verið hefur í lögum. Niðurstaða hans er sú að ákvæðið feli í sér takmörkun á ábyrgð ríkissjóðs að því er varðar lántökur ríkisviðskiptabanka erlendis þegar lagaheimild til lántöku liggur ekki fyrir og lán eru tekin án þess að hlutaðeigandi banki veiti tryggingu í sjálfs sín eigu. Nefndin tekur undir þessa skýringu og telur jafnframt að erlendar lántökur ríkisviðskiptabanka séu háðar ákvæðum 12. gr. laga nr. 63/1979, um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála, sbr. þó 10. gr. sömu laga. Rétt er að taka það fram að bæði minni hl. og meiri hl. nefndarinnar voru á einu máli um þessa skýringu á 2. málsgr. 2. gr. laganna. Það kemur fram í nál. meiri hl.

Einnig var fjallað sérstaklega um starfsmannaráð. Meiri hl. telur að stofnsetning ráða af því tagi eigi ekki að ráðast af lagafyrirmælum heldur í samningum við bankastarfsmenn. Um þetta atriði hefur þó Kjartan Jóhannsson sérstakan fyrirvara.

Þá ræddi nefndin það álitaefni að starfsemi viðskiptabanka kæmi til umræðu á Alþingi árlega með sérstakri skýrslugjöf. Meiri hl. n. telur að við meðferð Alþingis á frv. til l. um Seðlabanka Íslands komi til álita með hvaða hætti skuli setja ákvæði sem kveði svo á að ársskýrsla Seðlabankans, er hafi m. a. að geyma upplýsingar um starfsemi viðskiptabanka, sé lögð fyrir hvert reglulegt Alþingi. Hér er m. ö. o. lagt til að þessu álitaefni verði vísað til meðferðar seðlabankalaga þegar þau verða lögð fyrir Alþingi og afgreidd, en ekki talið rétt af meiri hl. hálfu að taka ákvæði um þetta inn í lög um viðskiptabankana.

Ég ætla þá að gera grein fyrir þeim brtt. sem meiri hl. flytur á þskj. 1289. Þar er í fyrsta lagi um að ræða viðbót við 5. gr. frv., að aftan við 3. málsgr. bætist:

„Ráðh. skal breyta lágmarksfjárhæð hlutafjár skv. þessari grein í hátt við almennar verðlagsbreytingar. Fjárhæðinni skal þó ekki breytt nema efni sé orðið til breytingar sem nemur a. m. k. 20% frá því breyting var síðast gerð. Lágmarksfjárhæðin skal jafnan standa á heilu hundraði þúsunda kr. og taka gildi við upphaf árs.“ Hér er m. ö. o. verið að tryggja að sú lágmarkskrafa sem gerð er til hlutafjár breytist í hátt við almennar verðlagsbreytingar þó að ráðh. ákveði þær breytingar. Ekki var talið rétt að láta breytingar af þessu tagi taka gildi eftir fyrir fram ákveðnum vísitölureglum.

Í öðru lagi er um að ræða breytingu við 8. gr., að 1. málsl. 2. málsgr. orðist svo: „Ákvæði XVII. kafla laga um hlutafélög gilda um þær umboðsskrifstofur sem settar eru á stofn skv. 1. mgr. en að öðru leyti setur ráðh. nánari reglur um starfsemi þeirra að fengnum tillögum bankaeftirlitsins, þ. á m. sem skilyrði fyrir leyfisveitingu og afturköllun leyfisins ef starfrækslan brýtur í bága við settar reglur.“ Hér er fyrst og fremst um það efnisatriði að ræða að möguleiki er ótvíræður til þess að afturkalla starfsleyfi umboðsskrifstofu ef aðstæður eru þær að ástæða sé til skv. þeim lagareglum sem umboðsskrifstofurnar starfa eftir.

Í þriðja lagi er brtt. við 21. gr. 4. málsgr. Lagt er til að málsgreinin orðist svo: „Bankaráð mótar stefnu bankans í vaxtamálum og setur að fenginni umsögn bankastjórnar og bankaeftirlits almennar reglur um lánveitingar bankans.“ Hér er um það efnisatriði að ræða að bankaráð mótar skv. þessu stefnu bankans, en ekki almenna stefnu eins og kveðið er á um í frv. Enn fremur er hér um þá viðbót að ræða, sem frv. gerði ekki ráð fyrir, að setja eigi ákveðnar reglur um lánveitingar bankans. Í nefndinni urðu allmiklar umræður um það efni. Uppi voru hugmyndir um að setja ákveðnar og fastmótaðar reglur um lánveitingar þannig að einstakir bankar mættu ekki lána einstökum viðskiptamönnum umfram ákveðið mark með einhverri viðmiðun, annaðhvort við eiginfjárstöðu eða aðra viðmiðun. Þegar nánar var að gætt kom í ljós að mjög erfitt er um vik að setja í lög fastmótaðar reglur af þessu tagi bæði vegna þess að sú aðstaða er uppi að fyrirtæki eru af ólíkri stærð og ljóst að það gæti valdið verulegum erfiðleikum og eins vegna hins að aðstaða einstakra banka er mjög ólík í þessu efni.

Það kom fram í meðferð málsins að a. m. k. tveir af hlutafélagabönkunum hafa sett sjálfum sér reglur af þessu tagi. En það þótti rétt eigi að síður að gera þá breytingu á frv. að bankaráð skyldi setja almennar reglur um lánveitingar og sníða þær þá við þær aðstæður sem mögulegar og raunhæfar eru í hverju falli. Tillögur nefndarinnar gera ráð fyrir að bankaráð setji þessar reglur að fenginni umsókn bankastjórnar og bankaeftirlits. Hæstv. viðskrh. hefur flutt á þskj. 1320 brtt. sem gerir ráð fyrir því að bankaráð setji þessar reglur, að fenginni umsögn bankastjórnar, en sendi þær síðan til bankaeftirlits. Á bak við þennan tillöguflutning liggur það sjónarmið að ekki sé rétt að gera bankaeftirlitinu skylt að veita umsögn um reglur af þessu tagi fyrir fram, áður en þær eru settar, sem það þarf síðan að hafa eftirlit með. Það er auðvitað álitaefni en í raun og veru er ekki neinn grundvallarmunur á tillögu nefndarinnar að þessu leyti og þeirri brtt. sem hæstv. viðskrh. hefur flutt og fullkomið athugunarefni að þannig sé gengið frá málinu að ekki komi til hagsmunaáreksturs á milli tvenns konar hlutverks bankaeftirlitsins, þ. e. almenns leiðbeiningarhlutverks og svo hins hlutverksins: að hafa nákvæmt eftirlit með starfsemi bankanna.

Í fjórða lagi er gerð till. um breytingu á 26. gr. frv. Lagt er til að í 2. mgr. falli út orðin: „að auglýsa eða bjóðast til með öðrum hætti“ og greinin orðist þá svo: „Viðskiptabönkum og öðrum, sem til þess hafa sérstaka lagaheimild, er einum heimilt að taka við innlánum frá almenningi til geymslu og ávöxtunar.“

Í fimmta lagi er breyting við 28. gr. sem felst í því að fella niður tilvísun til 30. gr. frv., en það er 6. brtt. nefndarinnar að efnisákvæði 30. gr. falli niður og í staðinn komi ný 30. gr. sem hljóði svo: „Viðskiptabanki getur starfrækt veðdeild innan bankans.“ Að vísu eru engin þau ákvæði í frv. sem mæla gegn því að banki stofnsetji eða starfræki sérstaka veðdeild innan bankans, en með þessu ákvæði er með ótvíræðum hætti tekið fram að þær heimildir eru fyrir hendi. Nefndinni þótti rétt að þessar heimildir kæmu með ótvíræðum hætti fram í frv.

Í sjöunda lagi er svo breyting við 36. gr. sem leiðir af því að efnisatriði 30. greinar falla niður, en þar er ekki um að ræða aðra efnisbreytingu.

Í áttunda lagi er breyting á 42. gr. sem gerir ráð fyrir að 2. mgr. þeirrar greinar falli niður.

Þá er í samræmi við það sem ég hef áður greint frá till. um að nýr kafli komi inn í frv., IX. kafli, um tryggingarsjóð viðskiptabanka. Ákvæði um hann eru svohljóðandi:

„Tryggingarsjóður viðskiptabanka er sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins með sérstakan fjárhag og hefur það markmið að tryggja full skil á innlánsfé þegar skipti á búi viðskiptabanka ber að skv. 1. mgr. 47. gr. Stefnt skal að því að heildareign tryggingarsjóðs nái 1% af heildarinnlánum viðskiptamanna bankanna á innlánsreikningum. Í þessu skyni skal hver viðskiptabanki greiða eigi síðar en 1. mars ár hvert gjald til tryggingarsjóðs er nemi allt að 0.15% af heildarinniánum skv. nánari ákvörðun ráðh.

Yfirstjórn tryggingarsjóðs er í höndum viðskrh. og skal hann setja nánari ákvæði um sjóðinn í reglugerð, s. s. skipan stjórnar og verksvið hennar, ávöxtun á fé sjóðsins og tilhögun greiðslna úr sjóðnum er tryggi eigendum innlánsfjár sem skjótasta endurgreiðslu innlána þegar úrskurður um töku bús viðskiptabanka til skipta er genginn.“

Síðan er till. um viðbót við ákvæði til bráðabirgða svohljóðandi: „Innan eins mánaðar frá gildistöku laga þessara skal viðskrh. setja reglugerð um tryggingarsjóð viðskiptabanka. Ráðh. er heimilt að fela Seðlabanka Íslands vörslu sjóðsins.“

Þá er loks till. frá meiri hl. fjh.- og viðskn. á sérstöku þskj., 1299, þar sem gert er ráð fyrir því að við ákvæði til bráðabirgða bætist nýr liður er orðist svo: „Innan fimm ára frá gildistöku laga þessara skulu hluthafar í hlutafélagsbönkum, sem starfandi eru við gildistöku laga þessara, fullnægja skilyrðum 2. mgr. 5. gr.

Hér er um það að ræða að í 2. mgr. 5. gr. eru tæmandi taldir þeir aðilar sem gerst geta og geta verið hluthafar í bönkum. Nú hagar svo til að í einhverjum bankanna sem nú starfa er eignaraðild með þeim hætti að þar eru félög aðilar að hlutafélögunum sem ekki eru taldir upp í þessari mgr. Með þessu ákvæði til bráðabirgða er ráð fyrir því gert að þessi félög fái frest til þess í fimm ár að laga hlutafjáreign sína að nýju lögunum, þannig að þau fullnægi skilyrðum 2. mgr. 5. gr. Hér kemur auðvitað til álita að hafa annan hátt á því að það er ekki markmið með flutningi frv. að takmarka á neinn hátt eignaraðild þeirra félaga sem nú eru aðilar að hlutafélagabönkum við framtíðarskipan skv. nýjum lögum. Ef mönnum þykir nauðsynlegt að skipa þessum málum með öðrum hætti, þannig að með ótvíræðum hætti verði tryggt að þessi félög geti haldið áfram eignaraðild sinni, þá kemur það fyllilega til álita af hálfu meiri hl. n.

Ég hef þá lokið, herra forseti, að gera grein fyrir nál. og þeim brtt. sem meiri hl. flytur.