18.06.1985
Neðri deild: 101. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6764 í B-deild Alþingistíðinda. (6043)

423. mál, viðskiptabankar

Frsm. 1. minni hl. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir áliti 1. minni hl. fjh.- og viðskn. Nd. um frv. til l. um viðskiptabanka sem er 423. mál þingsins. Þetta frv. hefur verið um skeið til meðferðar í hv. fjh.- og viðskn. og hefur hlotið þar allnokkra meðferð, þó að ekki verði sagt, herra forseti, að sú meðferð sé ítarleg miðað við stærð þessa máls. Hér er verið að flytja frv. um starfsemi allra viðskiptabankanna í landinu, frv. um að samræma löggjöf þeirra í heild. Hefði því auðvitað verið fullkomlega eðlilegt að frv. af þessu tagi hefði fengið að vera til meðferðar á tveimur þingum eða svo, þannig að ekki hefði þurft að hraða sér eins við afgreiðslu málsins og nauðsynlegt reynist nú.

Ég harma þessi vinnubrögð ríkisstj. í sambandi við þetta mál. Ég gagnrýni það hversu seint á ferðinni hún var með frv. Viðskrn. lá með frv. langtímum saman, þingflokkar stjórnarliðsins lágu með frv. langtímum saman og það er aðeins núna á örfáum vikum sem öðrum þingflokkum hefur gefist kostur á því að fjalla um þetta mál með eðlilegum hætti.

Um leið og þetta ber að gagnrýna er hitt ljóst að ýmis ákvæði í frv. þessu eru til bóta frá gildandi lögum. M. a. er það til bóta að samræma bankalöggjöfina eins og hér er gerð tillaga um. Um leið og hér er gerð tillaga um að samræma bankalöggjöfina eru hins vegar hér á ferðinni frá ríkisstj. tillögur um að troða inn í bankalöggjöfina alls konar sjónarmiðum markaðshyggju og frjálshyggju sem eiga þar auðvitað engan veginn heima. Því mótmæli ég mjög harðlega og flyt sérstakar brtt. varðandi þau atriði.

Ég mun ekki, herra forseti, með tilliti til þess hvernig stendur á þinghaldi, flytja hér langa ræðu, heldur fyrst og fremst fara hér yfir einstök atriði miðað við þær brtt. sem ég flyt.

Þá eru það í fyrsta lagi þær brtt. sem ég flyt á þskj. 1259. Fyrsta brtt. mín á því þskj. er um að 1. gr. frv. hljóði svo:

„Lög þessi gilda um viðskiptabanka í eigu ríkisins, sem hér eftir verða nefndir ríkisviðskiptabankar, og viðskiptabanka sem reknir eru af hlutafélögum eða samvinnufélögum, hér eftir nefndir hlutafétagsbankar eða samvinnufélagsbankar.

Einungis hlutafélögum og samvinnufélögum er heimilt að reka aðra viðskiptabanka en ríkisviðskiptabanka. Ákvæði laga um hlutafélög gilda um hlutafélagsbanka og ákvæði laga um samvinnufélög um samvinnufélagsbanka nema annað sé boðið í lögum þessum.“

Breytingin sem þessi till. hefur í för með sér, herra forseti, er sú að ég legg hér til að samvinnufélögum verði heimilað að reka viðskiptabanka eins og hlutafélögum. Ég sé enga ástæðu til þess að útiloka samvinnufélög í þessu efni og ég hef lagt fram fsp. bæði í nefndinni og við hæstv. viðskrh. og víðar um það hverju það sæti að samvinnufélög séu útilokuð þarna. Ég hef engin svör fengið við þeim fsp. Mér þykir það skjóta mjög skökku við í ríkisstjórn sem er undir forustu Framsfl. að samvinnufélög séu útilokuð með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í frv. ríkisstj. Þar sem ég átti von á að í hópi þm. Framsfl. gætu enn þá verið einhverjir samvinnumenn, þó fáir séu, taldi ég eðlilegt að gefa þeim kost á því að samþykkja þessa skynsamlegu tillögu á þskj. 1259.

Í öðru lagi flyt ég á þskj. 1259 svohljóðandi brtt., með leyfiforseta:

„Ríkissjóður ber ábyrgð á öllum skuldbindingum ríkisviðskipabanka. Skuldbindingar ríkisviðskiptabanka erlendis mega aldrei nema hærri fjárhæð en sem svarar eigin fé bankans, sbr. 36. gr. Til þess að taka lán erlendis, sem er umfram eigið fé bankans, þarf ríkisviðskiptabanki sérstaka lagaheimild.“

Þessi brtt. mín er flutt í samræmi við álitsgerð Ármanns Snævars sem hér var vitnað til fyrr í kvöld varðandi heimildir ríkisviðskiptabanka til þess að taka lán erlendis. Hv. frsm. fjh.- og viðskn. Nd. lýsti því yfir að nefndin væri sömu skoðunar og Ármann Snævarr að þessu leyti, að ríkisviðskiptabanki hefði ekki heimild til að taka lán erlendis sem næmi hærri fjárhæð en sem svarar eigin fé bankans. Til þess að taka lán erlendis, sem er umfram eigið fé bankans, verði ríkisviðskiptabankinn að fá sérstaka lagaheimild.

Hvernig háttar þessu til í dag? Ég hygg að erlend lán allra ríkisviðskiptabankanna séu, eftir þær breytingar sem voru gerðar á afurðalánakerfinu, langt umfram eigið fé bankanna. Og ég vil spyrja hæstv. viðskrh. hvort það sé ekki rétt og hvort hann taki undir þau sjónarmið sem fram koma í nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. og hv. 1. þm. Suðurl. mælti hér fyrir áðan. Ég hefði talið eðlilegt að staðfesta þann skilning sem fram kemur hjá meiri hl. nefndarinnar og minni hl. féllst á í lagatexta. Ég teldi mjög mikilsvert ef hæstv. viðskrh. staðfesti þennan skilning nefndarinnar og ég mundi þá fremur falla frá brtt. minni á þskj. 1259 en að bera hana undir atkvæði þannig að hún yrði felld. Ég teldi það mjög slæmt ef löggjafinn tjáði sig þannig að hann felldi þessa till. Þess vegna skiptir svar hæstv. viðskrh. við þessari fsp. minni varðandi 2. brtt. á þskj. 1259 mjög miklu máli.

Ég flyt svo í þriðja lagi, herra forseti, brtt. við 6. gr. frv. Sú grein fjallar um það að engar hömlur megi leggja á viðskipti með hluti í hlutafélagsbanka og í samþykktum sé óheimilt að veita tilteknum hlutum aukið atkvæðagildi o. s. frv. Þessa brtt. á þskj. 1259 flyt ég til þess að taka af tvímæli um það að þeir aðilar, sem nú eru aðilar að hlutafélagsbönkum, geti áfram verið aðilar að þeim bönkum án þess að breyta aðild sinni.

Eftir að ég flutti þessa brtt., sem er 3. brtt. á þskj. 1259, höfum við hv. 1. þm. Suðurl. náð samkomulagi um það að flytja brtt. við frv. á þá leið að 2. mgr. 5. gr. falli brott, en þar stendur:

„Hluthafar geta verið íslenskir ríkisborgarar búsettir hér á landi, íslenska ríkið og stofnanir þess, sýslu- og sveitarfélög og stofnanir þeirra,skráð hlutafélög,skráð samvinnufélög, skráð sameignarfélög, sem eru sjálfstæðir skattaðilar, og sjálfseignarstofnanir sem eru undir opinberu eftirliti.“

Við gerum ráð fyrir því að þessi mgr. falli niður vegna þess að við teljum að hún geti í rauninni aldrei sagt það sem segja þarf í þessu efni, hún geti ekki verið tæmandi og því sé óeðlilegt að hafa slíka upptalningu í lögum. Þess vegna leggjum við til að 3. mgr. 5. gr. verði 2. mgr. og orðist svo:

„Hlutafé í hlutafélagsbanka skal skiptast í a. m. k. 50 hluti, nema minnst 100 millj. kr. og allt vera í íslenskri eigu. Allt hlutafé skal vera greitt áður en bankinn er skráður í hlutafélagaskrá. Ekki skal skrá hækkun hlutafjár fyrr en hlutafjárauki er að fullu greiddur.“

Þetta þýðir það m. ö. o. að þeir aðilar, sem hafa gerst stofnaðilar eða með öðrum hætti aðilar að hlutafélagabönkum á undanförnum árum, þurfa ekki, þrátt fyrir ákvæði laganna, að breyta aðild sinni. Og þetta þýðir það líka að þeir geta aukið hlut sinn í viðkomandi bönkum án þess að breyta aðild sinni að hlutafélögunum. Ég vil fara fram á það við hæstv. viðskrh. að hann tjái álit sitt á þessari brtt. svo og því, hvort það er ekki alveg afdráttarlaust að með samþykkt frv., eins og hér er gerð tillaga um að það verði, sé opnað fyrir það að þeir aðilar, sem hafa orðið aðilar að hlutafélögum, geti verið það áfram og aukið hlut sinn. Þetta er skriflega flutt brtt. sem ég legg hér fram til forseta.

Þetta var varðandi 5. og 6. gr. frv., herra forseti. Þá flyt ég hér brtt. við 9. gr., en ég kem áður að 8. gr. Í 8. gr. er gert ráð fyrir því að heimilt verði að reka umboðsskrifstofur erlendra banka á Íslandi. Ég legg til að þessi tillaga ríkisstj. verði felld og mun greiða atkv. á móti henni. Rökin í þeim efnum eru einfaldlega þau að með þessari tillögu er verið að opna fyrir erlenda bankastarfsemi á Íslandi. Við teljum það óeðlilegt og munum leggjast gegn þessari tillögu við afgreiðslu málsins eftir 2. umr.

Þá flytjum við hér brtt. um að við 9. gr. bætist ný mgr. er orðist svo, með leyfi forseta:

„Bankaráð skal leggja fram árlega skýrslu um starfsemi ríkisviðskiptabanka. Skýrslan skal send viðskrn. sem kynnir efni skýrslna um viðskiptabanka ríkisins á Alþingi er hann gefur þinginu skýrslu um heildarþróun peningamála á næstliðnu ári og horfur í þeim efnum.“

Hér er sem sagt gert ráð fyrir þeirri lagaskyldu að bankaráðin verði árlega sjálf að leggja fram og bera ábyrgð á skýrslum um starfsemi bankanna og jafnframt að þessar skýrslur verði sendar viðskrh. og að hann kynni síðan skýrslur um starfsemi allra bankanna fyrir Alþingi um leið og hann gefur þinginu skýrslu um heildarþróun peningamála á næstliðnu ári og um horfur í þeim efnum. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að fram fari á Alþingi reglulega ítarleg umræða um stöðu peningamála. Ég held að fáir málaflokkar í efnahagsmálum séu mikilvægari og ég held að fáir málaflokkar séu í raun og veru vanræktari í umræðum hér á hv. Alþingi en þróun peningamála. Þess vegna er þessi tillaga flutt. Hún leggur þá lagaskyldu á bankaráðin að þau geri þinginu grein fyrir starfsemi bankanna. Bankaráðin eru kosin af Alþingi eins og kunnugt er og því er eðlilegt að þau standi Alþingi reikningsskil gerða sinna og viðkomandi banka.

Þá flyt ég hér í fimmta lagi, herra forseti, brtt. við 10. gr. Í frv. hljóðar 10. gr. svo:

„Ráðherra getur hvenær sem er krafið bankaráð upplýsinga um rekstur og hag bankans.“

Út af fyrir sig má segja að það liggi í augum uppi að þetta geti ráðherra gert hvenær sem honum sýnist. Hins vegar tel ég það til bóta að setja þetta ákvæði í lög svo að réttur ráðh. í þessu efni sé ótvíræður. En ég bæti hér við orðunum „og Alþingi“ og segi: „Ráðherra og Alþingi geta hvenær sem er krafið bankaráð upplýsinga um rekstur og hag bankans.“ Þetta stuðlar að því að Alþingi hafi betra aðhald að bönkunum heldur en nú er kostur á skv. gildandi lögum og skv. því frv. sem hér liggur fyrir frá ríkisstj.

Þá vík ég næst að 12. gr. frv. sem oft hefur komið til umræðu hér á hv. Alþingi á undanförnum mánuðum. Hún lýtur að kjörum bankastjóra. Í samræmi við tillögur Alþb. áður í þeim efnum leggjum við til að Kjaradómur ákveði laun og önnur starfskjör bankastjóra. Að öðru leyti skulu laun bankamanna ákveðin í kjarasamningum Sambands ísl. bankamanna. Við erum sem sagt andvíg því að fjöldi starfsmanna sé tekinn út fyrir samningssvið Sambands ísl. bankamanna eins og m. a. er gert ráð fyrir í þessu frv. Það er umhugsunarefni að Samband ísl. bankamanna er í raun og veru hvergi nefnt á nafn í þessu frv. um starfsemi viðskiptabankanna, jafn mikilvægur aðili og Samband ísl. bankamanna hlýtur að vera varðandi alla bankastarfsemi í landinu.

Þá kem ég hér, herra forseti, næst að 21. gr., en þar er gert ráð fyrir því að innieiða hér það sem kallað er vaxtafrelsi. Eins og kunnugt er þá eru ákvæði í lögum um Seðlabanka Íslands um að hann eigi að fjalla um vexti og hann hafi úrslitavald í raun og veru í þeim efnum ásamt ríkisstjórninni. Seðlabankinn og ríkisstj. ákváðu á árinu 1984 að framselja þetta vald til viðskiptabanka án þess að nein breyting væri gerð á lögum um Seðlabanka Íslands. Ég tel að þessi ákvörðun Seðlabankans og ríkisstj. hafi orkað tvímælis vegna þess að það sé engan veginn ljóst að Seðlabankinn hafi heimild skv. gildandi lögum til þess að afhenda viðskiptabönkunum þetta vald. Ég held að þarna hafi menn farið offari og að skynsamlegra hefði verið fyrir þá, sem á annað borð vildu fara út í þetta fen, að breyta seðlabankalögunum áður. Það var ekki gert og það ber að gagnrýna. En í þessum frv., bæði um viðskiptabanka og sparisjóði, er gert ráð fyrir því að þessar peningamálastofnanir ákveði vextina sjálfar í raun og veru, herra forseti, þrátt fyrir ákvæði gildandi laga um Seðlabanka Íslands. Það er auðvitað sérstakt umhugsunarefni að lagt skuli vera allt kapp á það að drífa hér í gegnum þingið tvö stór frv. um viðskiptabanka og sparisjóði án þess að seðlabankafrv. liggi fyrir þinginu. seðlabankalög eru stofnlög banka hér á landi að mörgu leyti, ákvarða starfskjör bankanna að verulegu leyti. Þess vegna er það að mínu mati fullkomlega óeðlilegt að standa að málum eins og ríkisstj. gerir, að þvæla þessum stóru frumvörpum um viðskiptabanka og sparisjóði í gegn án þess að seðlabankafrv. liggi svo mikið sem fyrir. Það liggur ekki hér á borðum þm. þó að því hafi verið dreift í þingflokka. Það er auðvitað allt annað mál. En formlegt þskj. liggur ekki fyrir og það gagnrýni ég mjög harðlega.

Í 21. gr. er gert ráð fyrir því að þetta vaxtafrelsi viðskiptabankanna verði innleitt alveg út í hörgul, eins og sjá má í næstsíðustu mgr. 21. gr., og sams konar ákvæði er um sparisjóði í sparisjóðafrv. Ég er í rauninni algerlega andvígur þessu. Ég tel að ríkisstj. eigi að ákveða almenna stefnu í vaxtamálum, að fengnum tillögum t. d. bankaeftirlitsins, og síðan geti bankaráðin ákveðið heildarkjör á einstökum flokkum útlána og innlána skv. tillögum bankastjórnar. Þannig hljóðar sú tillaga sem ég flyt um þetta efni. Þegar 21. gr. kemur til atkv. verður sú brtt. væntanlega borin upp. Fari svo að hún verði felld, sem líklegt má telja, mun ég greiða atkv. gegn 21. gr. vegna þess að þar er verið að innleiða svo að segja algert frelsi hvers viðskiptabanka fyrir sig til að ákveða sína vexti og þjónustugjöld, sbr. 22. gr. Hér er verið að troða inn þessu frjálshyggjuofstæki eins og víða er hjá hæstv. ríkisstj. og framsókn gleypir auðvitað og gleypir og gleypir, það er ekki að spyrja að því. Það er alveg sama hvað er matreitt ofan í hana um þessar mundir. Hérna er verið að reyna að lögfesta kreddur, efnahagskreddur og hæstv. sjútvrh. og þeir framsóknarmenn virðast með glöðu geði sumir, a. m. k. hann, brosandi allavega, og ætla sér að fallast á þetta. (Sjútvrh.: Viltu ekki láta kreddurnar ráða? Þú hefur viljað það hingað til.) Ég vil ekki láta kreddurnar ráða, hæstv. sjútvrh. Hvaða hljóð var nú þetta? (Gripið fram í.) Þetta var hæstv. sjútvrh. að greiða fyrir framgangi þingmála. Hann þoldi þetta greinilega ekki. (Gripið fram í.) Já, þrýstinginn. Svona er það oft veikt sem kemur nálægt Framsfl. að það hrekkur í parta. Það er greinilega ekki orðið óhætt að ávarpa ráðh. því að ef stóllinn fer svona líka, þá gerist margt sögulegt á þessu kvöldi. Hann er undrandi á því að við skulum ekki vilja láta kreddurnar ráða. En hitt get ég bent hæstv. ráðh. á, að á þessari stundu mundi vera einfaldast að láta þær kreddur ráða að tína saman glerbrotin á borðum hæstv. ráðh.

Varðandi 21. gr. munum við greiða atkv. gegn þeirri grein að felldri till. á þskj. 1259, 7. brtt. á því þskj.

Í áttunda lagi, herra forseti, flyt ég brtt. við 23. gr. um að við bætist mgr. þar sem segir: „Heimilt er ráðh. að setja reglur um hámark lánveitinga til einstakra viðskiptamanna bankanna. Bankaeftirlitið gerir tillögur til ráðh. um takmörkun þessa.“

Það er mikið vandamál hvernig á að setja reglur um takmörkun lánveitinga til einstakra viðskiptamanna. Í Iðnaðarbankanum munu vera um það ákveðnar starfsreglur og það kann að vera í fleiri bönkum þó að ég þekki ekki til þess. En það kom ekki fram í starfi nefndarinnar nema um Iðnaðarbankann sérstaklega. Ég teldi eðlilegt að slíkar reglur séu settar. En það er erfitt að finna þeim almenna viðmiðun. Þarna verður að taka mið af lífinu og aðstæðum á hverjum tíma en ekki kreddunum. Þess vegna er hér lagt til að ráðh. verði einfaldlega heimilt að setja reglur um hámark lánveitinga til einstakra viðskiptamanna bankanna. Ég held að sums staðar geti það hafa stofnað starfsemi ákveðinna banka og sparisjóða í hættu að hafa þetta allt opið. Ég minni á staði þar sem starfrækt eru lítil bankaútibú en tiltölulega stór fyrirtæki á vegum eins aðila, t. d. kaupfélags. Þess munu vera dæmi að kaupfélög séu mjög stór viðskiptaaðili einstaks banka. Ég held að slíkt geti stofnað eðlilegri starfsemi viðkomandi bankaútibús í hættu. Þess vegna þurfi þarna að setja reglur sem taka auðvitað tillit til allra aðstæðna og geti ekki verið eins fyrir öll byggðarlög og allar stærðir banka og bankaútibúa. Þess vegna er ég hér með almenna heimildartillögu í þessu efni og mér finnst nú satt að segja að vel mætti fara fram á það og væri ekki nema eins og til tilbreytingar að meiri hl. tæki það til athugunar hvort hann getur ekki fallist á þessa till., 8. till. á þskj.

Þá flyt ég hér í níunda lagi tillögu um upplýsingaskyldu bankanna. Ég legg til að á eftir 25. gr. komi ný grein sem verði 26. gr. og orðist svo:

„Bankarnir skulu birta opinberlega lista yfir öll útlán sem veitt hafa verið sama aðila á liðnu ári er nema hærri fjárhæð en 20 millj. kr. og veitt eru til lengri tíma en tveggja ára, ásamt upplýsingum um nöfn lántakenda, lánskjör og yfirlýstan tilgang lánanna. Þá skal einnig birta lista yfir einstaklinga, félög og stofnanir sem skulda við áramót meira en 40 millj. í viðkomandi stofnun: Upphæðum þeim, er að framan greinir, skal breyta árlega með reglugerð sem ráðh. setur í samræmi við breytingar á verðlagi.“

Þessi tillaga skýrir sig í raun og veru sjálf. Þarna er verið að opna fyrir almannaaðhald að bönkunum þannig að hægt sé að fylgjast með því hverjir það eru sem mestrar náðar njóta. Ég tel eðlilegt að svona ákvæði verði samþykki en minni á að það var mjög hliðstætt brtt. sem var felld hér með 17:16 atkv. á Alþingi 1979. Hún var flutt af Kjartani Ólafssyni og Vilmundi Gylfasyni og þar sem svo litlu munaði tel ég sjálfsagt að láta reyna á það hvort þingið er nú tilbúið til að fallast á sjónarmið af þessum toga.

Ég legg til, herra forseti, að 2. og 3. mgr. 28. gr. falli niður. Í þeim mgr. er opnað fyrir það að viðskiptabankar geti átt hlut í öðrum óskyldum atvinnurekstri, þó með vissum takmörkunum. Ég tel þetta óþarfa og að óeðlilegt sé að bankarnir séu að grauta í óskyldri starfsemi og legg því til að báðar þessar mgr. 28. gr. verði felldar niður.

Í 36. gr. frv. er ákvæði um eigið fé bankanna og hvernig það skuli reiknað. Ég tel þetta ákvæði til bóta og ég tel það að mörgu leyti tiltölulega skýrt miðað við allar aðstæður og miðað við aðrar tillögur sem ég hef séð um útreikning á eigin fé bankanna. Ég legg hins vegar til að við 36. gr. bætist nýr málsliður sem orðist svo:

,.Þó er óheimilt að stofna ný bankaútibú nema með samþykki ráðh. að fengnum tillögum bankaeftirlitsins.“ Þessi grein á að takmarka möguleika viðskiptabanka til að stofna útibú. Skv. fyrirliggjandi upplýsingum um eigið fé bankanna hefur aðeins einn banki í dag heimild til að stofna útibú miðað við ákvæði þessa frv. Það er Landsbankinn. Aðrir bankar eru langt yfir þessum mörkum. Ég tel þessa viðmiðun að mörgu leyti skynsamlega en ég bendi á að það kann að vera nokkuð erfitt að túlka eftirfarandi ákvæði í síðustu mgr. 36. gr.: „Bókfært virði fasteigna og búnaðar, sem viðskiptabanki notar til starfsemi sinnar, má eigi vera hærra en sem nemur 65% af eigin fé bankans. Skv. grg. frv. er hér ekki aðeins átt við það húsnæði sem bankinn á, heldur líka það húsnæði og þá aðstöðu sem bankinn kann að hafa á leigu. Ég verð að segja alveg eins og er að það vefst nokkuð fyrir mér að sjá þetta ákvæði framkvæmt til fulls þegar um er að ræða leiguhúsnæði, eða tæki eða aðstöðu sem eru tekin á leigu.

Ég skil út af fyrir sig vel hvað hæstv. ríkisstj. er að fara í þessu máli. Hún er að reyna að girða fyrir það að menn opni útibú í leiguhúsnæði í stórum stíl og komist þannig undan þessum eiginfjárákvæðum. En ég hygg að framkvæmdin á þessu ákvæði geti verið nokkuð snúin og ég vildi inna hæstv. viðskrh. eftir því, þegar hann kemur hér í ræðustól á eftir, hvort einhverjar frekari upplýsingar liggi fyrir um það hvernig viðskrh. ætlar sér að framkvæma þetta ákvæði, ekki varðandi eignina heldur í sambandi við það húsnæði og aðstöðu sem viðkomandi hafa á leigu.

Þá hef ég farið yfir þessar brtt. mínar, herra forseti, og hef í sjálfu sér ekki neinu við að bæta. Ég vil þó taka fram varðandi aðrar brtt. að ég tel að brtt. meiri hl. fjh.- og viðskn. á þskj. 1289 séu flestar til bóta, að svo miklu leyti sem hægt er að bæta þessa skepnu eins og hún lítur út hér, þær eru flestar heldur til bóta og til þess að skýra málin og glöggva þau. Sérstaklega fagna ég auðvitað IX. kaflanum um tryggingarsjóð viðskiptabanka.

Ég mundi líta svo á að brtt. á þskj. 1299 yrði dregin til baka um leið og till. á þskj. 1330 hefur verið lögð fram. Þá vil ég aðeins fara hér yfir önnur atriði, sérstaklega 4. brtt. á þskj. 1311 frá hv. þm. Guðmundi Einarssyni. Brtt. gerir ráð fyrir því að Alþingi kjósi fimm manna nefnd til þess að annast um að breyta ríkisviðskiptabönkum í hlutafélagsbanka. Skal nefndin ganga frá samþykktum og ákveða hlutafé hvers banka miðað við eignir hans og viðskiptastöðu í samráði við bankaráð, bankaeftirlit og endurskoðendur hvers banka. Breyting ríkisviðskiptabanka í hlutafélagsbanka skal eiga sér stað eigi síðar en 1. jan. 1987 og falla þá úr gildi sérákvæði laga um ríkisviðskiptabanka, eftir því sem við á. Nefndin skal bjóða hlutabréf bankanna til sölu á frjálsum markaði þegar að loknum stofnfundum þeirra. Enginn einn hluthafi má kaupa meira en 5% hlutafjár.

Ég ætla mér að taka það fram hér að ég er á móti þessari till. og ég vona að ég fái aðstöðu til að greiða atkv. á móti henni hér á hv. Alþingi svo það fari ekkert á milli mála hver afstaða mín er í þeim efnum. Ég teldi miklu frekar ástæðu til þess að þjóðin ætti alla bankana heldur en farið verði að afhenda einkaaðilum ríkisviðskiptabankana, en ríkið í þessum efnum er auðvitað þjóðin og þingið í umboði hennar. Ég vil leggja sérstaka áherslu á það að ég lýsi fullri andstöðu við tillöguflutning af þessu tagi. Ég sé ekki hvernig það samrýmist lýðræðislegum sjónarmiðum að taka þessi fyrirtæki úr höndum þingsins og þjóðarinnar og ríkisins og afhenda einkaaðilum. Ég sé ekki á hvern hátt slík vinnubrögð samrýmast lýðræðislegum sjónarmiðum.

Þó að það sé ekki alvanalegt að ég veitist sérstaklega að tillögum hv. þm. Guðmundar Einarssonar taldi ég nauðsynlegt, vegna þess að hér er um grundvallaratriði að ræða, að gera grein fyrir afstöðu minni til þessarar tillögu, herra forseti.