08.11.1984
Efri deild: 11. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 868 í B-deild Alþingistíðinda. (605)

143. mál, álbræðsla við Straumsvík

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Hér hafa menn talað langt mál. enda efnið mikið sem hér er til umr. Þó hefur þetta þingmál nokkra sérstöðu. Það hefur þá sérstöðu að hér er engin aðstaða til að koma fram á því einni eða neinni breytingu. Hér er lagður fram samningur til samþykktar eða synjunar, þannig að það er annaðhvort um það að ræða að menn segi já eða nei eða velji þá afstöðu skoðanaleysisins að sitja hjá.

Þetta er flókið mál og kannske ekki á annarra færi en sérfræðinga, sem því hafa helgað mikinn tíma, að setja sig inn í allar hliðar þess. Það er alþjóðlegt lögfræðimál, torf, á þeim plöggum sem hér hafa verið fyrir okkur lögð, en hins vegar eru meginstaðreyndir málsins tiltölulega einfaldar. Ætla ég ekki að taka langan tíma í þessum umr., en freista þess að draga fram það sem ég tel vera meginefni þessa máls.

Fyrst vil ég geta þess að Alþfl. átti á sínum tíma aðild að því og bar ábyrgð á því að hluta að álver var reist í Straumsvík. Við teljum að það hafi verið skynsamleg ákvörðun og að sá samningur sem þá var gerður hafi verið góður samningur í ljósi þess tíma þá er hann var gerður. En síðan hefur ákaflega margt breyst. Síðan eru forsendur orðnar allar allt aðrar. Í heiminum hefur orðið svokölluð orkuverðssprenging, olíuverðssprenging — ekki einu sinni heldur töluvert oftar. Og það gerði öll ákvæði þessa samnings um orkuverð úrelt og setti þau raunar algjörlega út úr kortinu. Þannig er ekki ágreiningur um að það orkuverð sem við bjuggum við samkvæmt samningi var gjörsamlega óviðunandi og langt fyrir neðan öll velsæmismörk, ef þannig má taka til orða, í viðskiptum.

Hæstv. iðnrh. knúði fram á þessu nokkra lagfæringu. Ég sagði þá, er þau mál voru til umr., að það væri aðeins skref í rétta átt, en skref sem ekki bæri að vanmeta. Nú hefur verið gengið lengra því að nú hefur verið gert samkomulag sem okkur er hér ætlað að taka afstöðu til og það er gert með heldur óviðurkvæmilegum hætti, leyfi ég mér að segja, þegar menn eru settir andspænis því að það kosti svo og svo mikið á dag, það kosti svo og svo mikið á hverja klukkustund sem líður frá því að þessi samningur var gerður uns hann hefur hlotið fullnaðargildi að lögum. Þetta eru óeðlileg vinnubrögð, enda þótt hæstv. ráðh. hafi tekið skýrt og skilmerkilega fram að hann sé ekki að þrýsta á um þetta með neinum hætti, en hins vegar hefur hann bent á þessa veigamiklu þætti málsins. Auðvitað hefði þetta frekar og miklu fremur átt að gerast með þeim hætti að þessar hækkanir og þessar breytingar tækju gildi við undirskrift, enda þótt samningurinn öðlaðist ekki gildi að lögum fyrr en hann hefur hlotið staðfestingu á hinu háa Alþingi. Þetta hefðu að mínu mati verið hin eðlilegu vinnubrögð.

Þegar þetta fyrirtæki kom til og starfsemi þess í Straumsvík urðu um það mjög harðar deilur. Afstaða Alþb. í því máli var alla tíð mjög ljós. Alþb.-menn voru andsnúnir þessu og ég hygg að framsóknarmenn hafi verið það líka á sínum tíma, enda báðir þessir flokkar þá í stjórnarandstöðu. Þetta er nú nokkuð breytt, þ.e. Alþb. hefur enn sömu afstöðu, en Framsfl. hefur skipt um skoðun.

Það hefur komið fram af hálfu Samtaka um kvennalista að þau samtök eru þessu andvíg eins og þau eru andvíg allri stóriðju. (Gripið fram í.) Iðja og iðnaður rúmast ekki á hinu þrönga áhugasviði Samtaka um kvennalista. Það er engin vitleysa, hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir. Ég minnist þess að þegar rætt var í Sþ. um þáltill. til að greiða fyrir því að stofnuð yrðu smáiðnaðarfyrirtæki á fríiðnaðarsvæði, t.d. í grennd við Keflavíkurflugvöll eða einhverja höfn, þá lögðust þm. Kvennalista gegn þeirri till. Þetta liggur allt saman fyrir í Alþingistíðindum og getur hver flett því upp sem kærir sig um að kanna þau mál. Iðja og iðnaður tilheyra ekki hinum mjúku gildum sem þessi flokkur kennir sig einkum við og leggst því gegn þeim málum sem ekki eru á hans áhugasviði. Þetta er auðvitað afstaða út af fyrir sig og mjög skýr og ágætt að hún komi fram, eins og hún mun sjálfsagt gera í umr. á eftir. Þetta er utan áhugasviðs Samtaka um kvennalista.

Mér er ekki ljóst hver afstaða BJ til þessa máls er. Það hefur ekki komið glöggt fram enn sem komið er. Þetta mál er lengi búið að vera deilumál. Í síðustu ríkisstjórn var þetta mál í höndum Alþb. Forusta þess í þessum málum var ekki góð og langur vegur frá. Þeir eru, eins og ég sagði áðan, andvígir þessum stóriðjurekstri og hafa alla tíð verið og það er mjög hrein afstaða og þeir höfðu, fullyrði ég, engan áhuga á samningum í þessu máli. Þeir vildu drepa málinu á dreif, flækja það, klúðra því, koma því í ógöngur. Það tókst þeim mjög rækilega, m.a. með því t.d. að reka málið ekki á réttum vettvangi á ýmsum stigum. Það var byrjað á því að reka það í fjölmiðlum áður en það var kynnt hér á Alþingi. Þegar hæstv. þáv. iðnrh., núv. hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, hafði sem hæst í þessu máli byrjaði hann sinn málarekstur á blaðamannafundum en ekki á Alþingi eins og eðlilegast og réttast hefði auðvitað verið. Það er mín eindregna skoðun að hversu lengi sem Alþb. hefði haft sinn fulltrúa á stóli iðnrh. hefði aldrei verið samið í þessum málum. Þess vegna vorum við Alþýðuflokksmenn fylgjandi því að gengið yrði til samninga. Við vorum eindregið fylgjandi því vegna þess að það var okkar sannfæring og skoðun að þetta mál yrði að leysa með samningum. Það hefur nú verið gert, en þeir samningar eru ekki að okkar skapi og er þar langur vegur frá og mun ég koma að því hér síðar.

Vissulega er það rétt, sem mjög er nú hampað, að þetta hefur í för með sér tekjuaukningu. Hún mátti nú vera meiri og hún mátti vera fyrr til komin. En af því að hv. 3. þm. Norðurl. v., sem var hér á undan mér í þessum ræðustól, rakti nokkuð hvernig hið raunverulega verð, sem við fáum nú fyrir orkuna, mundi breytast vegna alþjóðlegrar verðbólgu og verðrýrnunar Bandaríkjadals vildi ég rekja þá sögu örlitið lengra hæstv. ráðh. til glöggvunar þó að hann hafi sjálfsagt séð einhverja útreikninga þessum líka.

Mér sýnist að sé miðað við 5% alþjóðlega verðbólgu á ári muni raungildi þeirra talna sem hér er verið að tala um verða sem hér segir: 12.5 mill eða millidalir verði í lok samningstímans að 20 árum liðnum að raungildi 4.7 og 18.5 mill, millidalir sem menn nú tala um, yrðu að 20 árum liðnum í kringum 7 mill. Það eru ekki góðar tölur, hæstv. iðnrh.

Það varð snemma ljóst að vinnuaðferðir þær sem beitt var við þetta mál voru ekki af hinu góða. Það var t.d. ekkert samráð haft við stjórnarandstöðuflokka. Kannske lái ég hæstv. iðnrh. það ekki þó hann hafi ekki verið mjög fús til samstarfs við forvera sinn í embætti, en ég minni hann á að Alþfl. var stuðningsflokkur þessa máls á sínum tíma og okkur Alþfl.-mönnum hefði ekki fundist óeðlilegt að við hefðum fengið að fylgjast ögn betur með því sem gerðist og var að gerast á þessum vettvangi en raun bar vitni.

Þingflokkur Alþfl. mótmælti þessum vinnubrögðum nú í september með svofelldri ályktun, með leyfi forseta:

„Þingflokkur Alþfl. mótmælir þeim vinnubrögðum sem viðhöfð eru í svonefndum ÍSAL-samningum. Engar staðfestar upplýsingar eru birtar um efnisinnihald samkomulagsins. Samningamenn tjá sig opinberlega um ágæti þess sem enginn fær að vita hvað er, nema að Íslendingar eiga að taka vaxandi áhættu af rekstri ÍSALs. Með þessu er verið að kæfa málefnalega umræðu um stórkostlegt hagsmunamál þjóðarinnar. Vinnubrögð af þessu tagi eru móðgun við þjóðina og til vansæmdar fyrir iðnaðarráðherra. Þingflokkur Alþfl. krefst þess að samningsdrögin verði birt þegar í stað og undanbragðalaust í stað þeirra huldufrétta sem birst hafa.“

Nokkru áður hafði þingflokkur Alþfl. gert aðra ályktun um þetta mál og ég vil leyfa mér, með leyfi virðulegs forseta, að lesa þá ályktun, hún er stutt. Hún er gerð 31. ágúst:

„Þingflokkur Alþfl. varar eindregið við því að gengið verði til samninga við Alusuisse um undirverð á raforku. Framleiðslukostnaður á raforku í nýjum orkuverum er nú talinn 18–20 millidalir. Það verð þarf að tryggja í komandi samningum og leggja megináherslu á verðtryggingu og endurskoðunarákvæði. Þingflokkurinn varar við því að tengja raforkuverðið álverði þannig að sveiflum í verði á áli verði veitt með fullum þunga inn í íslenski efnahagslíf. Allt frá upphafi hefur stefnan verið sú að taka sem minnsta áhættu og á því grundvallaðist hin upphaflega samningsgerð. Þingflokkurinn telur ótækt að ríkisstj. hverfi frá því að láta gerðardóma úrskurða um ágreiningsefnin í skattamálum og gefist þannig upp við að fá óhagganlega niðurstöðu í þeim mikilvægu málum.“

Hvert einasta af þeim atriðum, sem við vöruðum við, í þessari ályktun í lok ágúst hefur reynst hafa við rök að styðjast. Það hefur verið samið um of lágt orkuverð, um undirverð á raforku. Verðtrygging, hver er hún? Hæstv. ráðh. svarar því væntanlega hér á eftir. Endurskoðunarákvæði eru afar óljós. Raforkuverðið er tengt álverði, þannig að sveiflur á því koma niður á okkur. Það er tekin áhætta sem ekki var fyrir hendi í samningunum sem áður giltu. Og Alusuisse fær syndakvittun, í formi þeirrar særingarþulu sem hér var höfð yfir áðan og ég ætla ekki að endurflytja hér. Þetta eru meginatriði.

En annað kemur mér nú í hug í þessu máli. Hér er fjallað um breytingar á skattareglum og afskriftareglum. Þau mál heyra í raun undir fjmrn. ef mér ekki skjöplast. Er það ekki rétt hæstv. iðnrh.? (Iðnrh.: Yfirleitt er það.) Já, þessi mál heyra undir fjmrn. og nú spyr ég: Var hæstv. fjmrh. hafður með í ráðum þegar þetta var gert? Þessi skattamál ÍSALs hafa a.m.k. að einhverju leyti verið hjá fjmrn. ef mér ekki skjöplast. Og ég spyr og óska svara við því hér á eftir: Voru hæstv. fjmrh., hans sérfræðingar og embættismenn hafðir með í ráðum? Var þetta borið undir þá? Var leitað til þeirra eða hvað? Ég hef grun um að það hafi ekki verið gert. En það verður væntanlega úr því skorið í umr. á eftir ef þessum spurningum verður svarað.

Ég ætla nú að víkja að nokkrum atriðum sem ég tel að skipti verulegu máli í sambandi við umfjöllun þessa máls — víkja að endurskoðunarákvæðinu t.d. Það segir í þessu mikla plaggi:

„Ný grein kveður svo á um að á fimm ára fresti geti hvor aðili um sig óskað eftir endurskoðun á samningnum ef átt hafa sér stað ófyrirsjáanlegar og óhagstæðar breytingar á aðstæðum sem leiða til röskunar á jafnvægi samningsins og harðréttis fyrir aðila.“

Þetta er afar óljóst orðalag og raunar býður mér í grun að þetta endurskoðunarákvæði sé ónýtt að það sé hægt að teygja það og toga í það endalausa, svo óljóst sem þetta hér er orðað, þannig að endurskoðun á þessum samningi verði mjög erfið ef ekki útilokuð. Hverjar aðstæður eru ófyrirsjáanlegar og óhagstæðar? Hverjar breytingar hafa menn í huga þegar þannig er til orða tekið?

Í þeim samningi sem áður var í gildi voru ákvæði um hráefniskaup, að verksmiðjan í Straumsvík skyldi þar njóta bestu skilyrða. Þetta er fellt niður. Í staðinn er talað um „að leitast við“, ef ég man þetta rétt, að það skuli leitast við. Þarna er sem sagt slakað á og gefið eftir. Þetta er síður en svo til bóta. Þetta er eitt af því sem við höfum athugasemdir við að gera í þessum samningi en menn standa frammi fyrir orðnum hlut, sem ekki er hægt að breyta hér, og menn verða annaðhvort að segja já eða nei við. Þetta var varðandi hráefniskaupin.

Við teljum það líka af hinu slæma að mál skuli ekki hafa verið látin ganga til úrskurðar varðandi þær deilur sem uppi voru og voru komnar í gerðardóm. Og það var fróðlegt að hlýða á þau ummæli sem hæstv. iðnrh. hafði í þingræðu um þau mál hér í fyrra eða fyrir fáeinum mánuðum og vitnað var til í ræðu hv. síðasta ræðumanns og ég ætla ekki að rekja aftur. En hvað veldur því að hæstv. iðnrh. skipti svo mjög um skoðun? Hvað veldur þessari hugarfarsbreytingu um grundvallaratriði, að hér fékkst aldrei og fæst aldrei úr þessu, ef þetta verður samþykkt, úrskurður um deilumálin? Þau eru bara lögð til hliðar með allsherjarsyndakvittun.

Svo er gert mikið úr því að Íslendingar fái greiðslu, 3 millj. dollara. En hvernig er sú greiðsla? Ef ég hef lesið þetta rétt er búin til að nýju skattinneign ÍSALs sem áður var búið að strika út. Það eru skrifaðar tölur á blað og síðan er þessi skaðabótagreiðsla, þessar 3 millj. dollara, dregin frá þessari skattinneign á blaðinu, þannig að inneign fyrirtækisins hjá íslenska ríkinu verður heldur minni. Hér er ekki um neinar raunverulegar greiðslur að ræða, heldur er þetta bara bókhaldsleikfimi. Styrkleikanum, sem áður var í samningum, hefur nú verið fórnað. Og hæstv. iðnrh. skuldar okkur skýringu á sinni hugarfarsbreytingu í þessum efnum. Og hvað með stækkun fyrirtækisins? Eru þar einhverjar kvaðir á Svisslendingum? Ekki nokkrar sýnist mér. Er líklegt að þessi stækkun muni eiga sér stað? Ég held að menn séu sammála um að það er umframframleiðslugeta í heiminum á áli sem verður væntanlega fram yfir 1990. Það er ekki fyrr en einhvern tíma á næsta áratug að þörf verður fyrir nýja verksmiðju.

Svo er líka ástæða til að spyrja sig þeirrar spurningar hvort Alusuisse hafi þann orðstír í viðskiptaheiminum á sviði alþjóðaviðskipta að menn verði mjög fíknir í það að ganga til samstarfs við það fyrirtæki. Þetta er spurning sem menn þurfa líka að velta fyrir sér.

Varðandi orkuverðið, sem ég vék að áðan, hlýtur að verða að spyrja þeirrar spurningar: Ef fyrirtæki sem er alveg búið að afskrifa bókhaldslega, eins og bræðslan í Straumsvík, getur ekki borgað hærra verð fyrir raforku en þessi samningur gefur til kynna, hvað geta þá ný fyrirtæki borgað fyrir orkuna, fyrirtæki sem bera þungar fjármagnsbyrðar fyrstu árin? Ég held að ef algjörlega afskrifað fyrirtæki eins og bræðslan í straumsvík getur ekki borgað hærra en þetta geti ný fyrirtæki ekki borgað þetta verð, heldur töluvert lægra. Og þá sýnist mér nú að fari að þrengjast kostir okkar á þessu sviði og verða fátt um fína drætti á stóriðjumiðunum — eða hvað telur iðnrh., fyrst þetta er það hámark sem afskrifað fyrirtæki getur borgað, að ný fyrirtæki geti greitt okkur fyrir raforku? Það væri fróðlegt að fá svör við því.

Virðulegi forseti. Það er skoðun okkar í Alþfl. að þetta sé ekki góður samningur, hér hafi veigamiklum hagsmunum verið fórnað. Staða okkar eftir gerð þessa samnings, þrátt fyrir nokkru hærra orkuverð, ég ætla ekki að gera allt of litið úr því eða gerast algjör úrtölumaður þess vegna, er með ýmsum hætti lakari og við erum verr settir en áður. Ég held að ekki hafi verið látið sverfa alveg til stáls í þessum samningum. Mín skoðun er sú að við hefðum átt að freista þess að ganga fetinu lengra og kannske fetunum lengra til þess að styrkja og tryggja okkar stöðu.

Mér er alveg ljóst að þetta eru ekki auðveld verkefni við að fást, vandasöm, en ég held samt að þarna hafi þurft betur á að halda.

Ég hef nefnt hér nokkur atriði sem ég tel skipta meginmáli í sambandi við gerð þessa samnings. Við höfum gagnrýnt vinnubrögðin.

Í fyrsta lagi teljum við endurskoðunarákvæðin of veik.

Skilyrðin um aðföng hafa verið milduð. Alusuisse mun leitast við að tryggja „að sú útvegun og innkaup eigi sér stað fyrir ÍSAL með bestu skilmálum og skilyrðum sem fyrir hendi eru“, segir hér í samningnum, þegar um aðra aðila er að ræða en Alusuisse og dótturfélög þess. Áður var þetta ekki skilyrt, heldur bara sagt „með bestu skilmálum og skilyrðum sem fyrir hendi eru“. Þessi breyting er ekki til bóta.

Í þriðja lagi tökum við áhættu af því að tengja orkuverðið álverði í heiminum. Ég hef heyrt hæstv. iðnrh., ef mig ekki misminnir, lýsa þeim skoðunum sínum að í sambandi við rekstur af þessu tagi ættum við sem minnsta áhættu að taka. Mig minnir að hann hafi látið orð í þessa veru falla þá er rætt var um járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga — og hefði betur verið að við hefðum minni áhættu tekið þar. Ég var honum sammála um þetta. Við eigum að tryggja okkur í orkuverðssamningum eins og við getum því að við höfum ekki bolmagn eða fé til að vera mjög virkir þátttakendur í svona alþjóðarekstri þar sem velja íslenska ríkisins er hér um bil eins og skiptimynt þegar borið er saman við veltu risafyrirtækjanna sem ráða þessum málum í veröldinni, hvort sem okkur líkar það betur eða ver. Við höfum ekkert bolmagn til að standa þar einir sér. Því verða menn að játa. Þess vegna eigum við ekki að vera áhættuaðilar að þessum rekstri og það er einn veigamikill galli á þessum samningi.

Í fjórða lagi hefur ekki verið skorið úr þessum ágreiningsmálum heldur eru þau lögð til hliðar og öll látin niður falla rétt eins og þau hafi aldrei átt sér stað. Það er svipað og Morgunblaðið er að gera núna með útvarpsreksturinn í Valhöll sem allir vita að átti sér stað, en Morgunblaðið segir að atburðurinn hafi aldrei gerst og þá er það auðvitað hið rétta. Eins er með þessi deilumál, að þau eru bara afskrifuð á einu bretti í staðinn fyrir að láta reyna á þau. Það tel ég bera m.a. vott um að hæstv. iðnrh. hefur verið vantrúaður á okkar málstað í því máli og ekki treystst til að láta það ganga til dóms til að fá í eitt skipti fyrir öll úrskurð um þessi mál.

Virðulegi forseti. Ég hef hér tínt til nokkur þau atriði sem við gerum athugasemdir við í sambandi við þennan samning. Hann er ekki hér til umræðu til breytinga. Hann er til umræðu til synjunar eða staðfestingar, eins og ég hef áður sagt. Við Alþýðuflokksmenn teljum þessa veikleika samningsins svo veigamikla að við munum greiða atkvæði gegn samningnum þegar hann kemur hér til atkvæða. Það er hrein afstaða. Hún táknar ekki að Alþfl. hafi skipt um skoðun í stóriðjumálum. Síður en svo. Við teljum að við eigum að leita þar áfram að ákjósanlegum valkostum og tækifærum til að nýta okkar orku, en við verðum a.m.k. að fá fyrir orkuna það verð sem það kostar okkur að framleiða hana. Það er auðvitað grundvallarforsenda. Ég veit að hæstv. fjmrh., sem rekið hefur heildsölu, skilur að hann getur ekki keypt vörur og selt þær aftur á lægra verði. Hann mundi þá ekki lengi starfrækja fyrirtæki. En er það ekki nákvæmlega það sem menn eru að gera hér, þegar framleidd er raforka og seld á lægra verði en kostar að framleiða hana? Það er auðvitað það sem er meginatriði þessa máls.

Ég hef lokið máli mínu, virðulegi forseti.