18.06.1985
Neðri deild: 101. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6783 í B-deild Alþingistíðinda. (6051)

423. mál, viðskiptabankar

Frsm. 2. minni hl. (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Ég skil betur núna hvað hæstv. viðskrh. var að tala um þegar hann sagði að ekki væri einhugur um það hér í þinginu að breyta ríkisbönkunum í hlutafélög. Hann átti við að einn flokkur, einn af fornu flokkunum, gengi hér enn þá um, allavega hvað andann varðar, í sauðskinnsskóm og þess sæi engin merki að hann hefði áttað sig á því að nú væru nýir tímar. Ég sagði einu sinni í vetur að Framsfl. hefði verið í þrjá daga á ársfundi í fyrra á Akureyri og uppgötvað þar nýsköpun í atvinnuháttum og stokkið 300 ár fram í tímann. Ég held að það hafi verið oflof. Ég tek þau orð aftur. Ég held að hann sé enn þá aftur í öldunum. Það kom greinilega í ljós af málflutningi hv. þm. Það er vel hugsanlegt að einn mesti styrkleiki ungrar stjórnmálahreyfingar sé einmitt að hafa losað sig við sauðskinnsskóna og reyna að horfa fram á veginn vegna þess að það er alveg eins hægt að draga lærdóm af samtímanum og reyna að ímynda sér hvernig hlutir séu nú og hvernig þeir muni verða eins og að horfa sífellt til fortíðarinnar um alla hluti og öll skref sem maður stígur.

Hvað svo sem gerðist í íslenskri pólitík og íslenskri hagsmunagæslu árið 1902 þá er ég sannfærður um það, og ég endurtek það, að núna, 1985, væri það einhver stórkostlegasta hreingerning, sem hægt væri að gera í íslenskum stjórnmálum, að taka þessar þrjár stærstu peningastofnanir þjóðarinnar undan flokkspólitísku poti og undan flokkspólitískri hagsmunagæslu manna eins og þess hv. þm. sem talaði hér áðan. Það sýnist mér augljóst af dæmunum, bara þeim dæmum sem hafa komist upp á yfirborðið, við vitum ekkert hversu mörg dæmi það eru sem samtryggingin hefur aldrei birt fólki og sem aldrei hafa náð að verða lýðum ljós, vegna þess að það eru ekki bankaráðsmennirnir sem koma fram á völlinn og segja frá því hvernig gengur. Við eigum það oftar undir því hvernig duglegum blaðamönnum gengur að komast að hinu sanna. Af þeim dæmum sem við höfum um það hvernig þessir hlutir ganga fyrir sig er ég alveg sannfærður um það að ef okkur á að takast að byggja hér upp í framtíðinni einhvers konar samfélag eins og ég hélt að Framsfl. hefði uppgötvað á ársfundinum í fyrra, þá verður það grundvallaratriði að taka peninga- og lánastofnanir landsins, ekki bara bankana heldur alla sjóðina, undan flokkspólitískum ítökum og flokkspólitískum afskiptum, vegna þess, eins og ég segi, að þó að menn hali inn ákveðinn fjölda atkvæða í kosningum til löggjafarþings þá er ekkert sem réttlætir það að þeir framlengi þá anga inn í stofnanir framkvæmdavalds eins og banka, verksmiðjur og aðra þá starfsemi sem heyrir til nútímasamfélagi. Og hverju sem þeim tókst að klúðra árið 1902 og hvað sem ævisöguritari Framsfl. kann að grafa upp úr þeim skræðum, þá er ég alveg jafnsannfærður um það og ég hef verið að það er mesta hreingerning og mesta bót sem hægt er að gera á íslensku efnahagslífi og íslenskri pólitík að skilja þarna á milli.

Hvað varðar orð hv. þm. um jafnaðarmennsku þá stendur það alls ekki fyrir jafnaðarmennsku í minni orðabók, Bandalag jafnaðarmanna hefur allavega ekki skrifað það í sitt testament, að það eigi að hafa flokkspólitísk afskipti af peningum og vinna að þeim málum eins og hér hefur verið unnið að þeim á undanförnum árum.