18.06.1985
Neðri deild: 101. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6784 í B-deild Alþingistíðinda. (6052)

423. mál, viðskiptabankar

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Mér er ljóst að það var uppi heimspekingur sem talaði um þrískiptingu valdsins, í löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald. Það breytir engu um þá staðreynd að í okkar landi búum við við þingbundna stjórn, þingið ber ábyrgð á ráðherrunum. Við byggjum á þeim kenningum. Við búum við það að borgarstjórn Reykjavíkur kýs menn í ráð og nefndir út um allt til að stjórna sínum málum, til að stjórna BÚR m. a.

Ég tók eftir því að hv. 4. landsk. þm. sagði að ekki stæði í hinni helgu bók BJ að það ætti að skipta sér af fjármunum, þm. ættu að skipta sér af fjármunum. Pólitík er fyrst og fremst spurningin um það hvernig beri að ráðstafa fjármunum. Fjárlögin eru langstærsta pólitíska ákvörðunin sem tekin er á hverju einasta þingi. Má skilja þetta svo að BJ hætti að skipta sér af fjárlögum, hætti að greiða atkvæði undir slíkum kringumstæðum og upphefjist hér í helgidóm eins og englarnir, þm. þess séu of hreinir til að koma nálægt slíku?

En það kom hik á hv. 4. landsk. þm. að halda því fram að kennisetningar jafnaðarmanna almennt væru á þann veg að þeir væru á móti ríkisbönkum. Ég veit ekki betur en jafnaðarmenn hafi verið þó nokkuð miklir þjóðnýtingarsinnar á ýmsa vegu. Og mér er ekki ljóst hvenær ríkisbankar urðu vandræðagripir í hugum jafnaðarmanna. Er það kannske svo að BJ vilji skreyta sig með stolnum fjöðrum? Er það æra hinna gömlu jafnaðarmannaflokka, sem var nokkuð góð, sem á að vera yfirvarpið í titlinum fyrir stefnu sem er allt önnur? Hvers vegna kasta menn þá ekki í burt þessu nafni? Það er gamalt, það er gamalla flokka. Það á að berjast undir nýju nafni fyrir nýjan flokk. Það skyldi þó ekki vera að þeir séu á kosningaveiðum að reyna að hagnýta sér æru gamalla flokka á Norðurlöndum.

Hv. 4. landsk. þm. er kominn af fólki sem gekk á sauðskinnsskóm. Forfeður hans gengu á sauðskinnsskóm. Þeir hafa kannske gengið á roðskóm líka. Og stundum hafa trúlega sumir þeirra verið svo fátækir að þeir áttu enga skó, gengu berfættir, eins og e. t. v. hendir enn hv. 4. landsk. þm. að hann striplast um berfættur. Alveg er það voðalegt að vera í sömu sporum og þessir menn fyrir kannske heilli öld. Engar framfarir. Það sækir að mér óhugur að svo illa skuli vera komið fyrir hv. 4. landsk. þm. að hann sitji svo fastur í fortíðinni að hann striplist stundum um berfættur eins og forfeður hans fyrir 100 árum eða kannske enn þá fyrr. En auðvitað gæti það gerst að það yrði framþróun, yrði raunveruleg framþróun, og hv. 4. landsk. þm. kynnti sér hvað væri gamalt, kynnti sér m. a. sögu bankamálanna og tæki ekki upp neinar gamlar hugmyndir, væri bara með nýjar hugmyndir, en álpaðist ekki til að koma hér inn í þingsali með hugmyndir frá 1902 sem biðu skipbrot 1930 með algjöru gjaldþroti. Mér finnst að nýr flokkur með gamalt nafn, með gamalt nafn að hluta til til að safna atkvæðum, þurfi að fara að gera það upp við sig hvort hann ætlar að skreyta sig þar með stolnum fjöðrum eða hvort hann ætlar að læra eitthvað af þeirri sögu sem jafnaðarmenn hafa verið að læra af og mótað sína stefnu eftir í kringum okkur. Ég vona bara að BJ komist í takt við nútímann og taki ákvörðun um það annaðhvort að skipta um nafn eða virða vissar grundvallarhugsjónir jafnaðarmanna.