18.06.1985
Neðri deild: 101. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6787 í B-deild Alþingistíðinda. (6055)

493. mál, sparisjóðir

Frsm. meiri hl. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég geri hér grein fyrir áliti meiri hl. fjh.- og viðskn. við frv. til l. um sparisjóði. Nál. er á þskj. 1286.

Nefndin hefur fjallað um frv. Á hennar fund komu fulltrúar viðskrn., bankaeftirlits Seðlabankans og Sambands ísl. sparisjóða.

Nefndin klofnaði í afstöðu sinni til málsins og mælir meiri hl. með samþykki frv. að samþykktum breytingum sem fluttar eru á sérstöku þskj. Minni hl. skilar séráliti og flytur einnig brtt.

Að meirihlutaálitinu standa Páll Pétursson, Þorsteinn Pálsson, Guðmundur Einarsson, Halldór Blöndal, Kjartan Jóhannsson með fyrirvara og Friðrik Sophusson.

Brtt. meiri hl. fjh.- og viðskn. á þskj. 1287 eru efnislega þær sömu og meiri hl. n. flutti við frv. til l. um viðskiptabanka.

Við 6. gr. er flutt till. þess efnis að þær fjárhæðir sem þar um getur varðandi stofnfé taki breytingum skv. ákvörðun ráðh. eins og greinir í tillgr. í því skyni að þessar fjárhæðir breytist í takt við almennar verðlagsbreytingar í þjóðfélaginu.

Önnur brtt. er við 3. mgr. 24. gr. þess efnis að sparisjóðsstjórn móti stefnu sparisjóðsins í vaxtamálum og enn fremur að hún setji reglur, að fenginni umsögn sparisjóðsstjóra og bankaeftirlits, um lánveitingar sparisjóðsins. Um þetta hafa orðið umræður hér fyrr í kvöld í umræðum um viðskiptabanka. Hér er á ferðinni till. um sams konar ákvæði til þess að setja almennar reglur um útlán til einstakra aðila eins og þar var gerð tillaga um. Hæstv. viðskrh. hefur enn fremur flutt brtt. við þessa till. n. sem miðar að því að halda sömu skipan en losa bankaeftirlitið úr þeirri óþægilegu aðstöðu að veita umsögn fyrir fram, áður en endanleg ákvörðun er tekin, og í því skyni að gera eftirlitshlutverk þess skilvirkara og óháð fyrri ákvörðunum.

Í þriðja lagi er gerð till. um að í 30. gr. falli niður orðin „að auglýsa eða bjóðast til með öðrum hætti.“

Í fjórða lagi er flutt till. um að efnisákvæði 34. gr. falli niður eins og þau eru í frv., en inn komi nýtt efnisákvæði í 34. gr. sem kveði á um heimild sparisjóða til að starfrækja veðdeildir innan sinna vébanda.

Í fimmta lagi er gerð till. um að breyta ákvæðum 1. málsl. 1. mgr. 40. gr. í samræmi við það að efnisákvæði 34. gr. frv. verða skv. þessu felld niður.

Loks er í sjötta lagi flutt brtt. við 2. mgr. 65. gr. þar sem kveðið er á um sérstaka nefndarskipan við samruna sparisjóða og bankaeftirlitið losað undan tilnefningarskyldu í slíka nefnd.

Ég hef þá lokið, herra forseti, við að gera grein fyrir nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. og þeim brtt. sem meiri hl. flytur.