18.06.1985
Neðri deild: 101. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6788 í B-deild Alþingistíðinda. (6056)

493. mál, sparisjóðir

Frsm. minni hl. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég skipa einn minni hl. fjh.- og viðskn. varðandi frv. til l. um sparisjóði.

Frv. þetta hefur að geyma margvísleg ákvæði til bóta í sambandi við rekstur sparisjóða. Frv. hefur verið mjög lengi í smíðum og hefur að verulegu leyti áður verið lagt fram á Alþingi til kynningar þannig að þessi virðulega stofnun hefur haft tækifæri til þess að fara yfir þetta mál áður. Hins vegar er skotið inn í frv. nokkrum nýjum ákvæðum sem ég er á móti og valda því að ég get ekki tekið þátt í því ásamt meiri hl. að afgreiða þetta mál.

Það eru ákvæði um vaxtafrelsi sem fram koma í 24. gr. þessa frv. og eru hliðstæð ákvæðunum um vaxtafrelsi í 21. gr. frv. til l. um viðskiptabanka. Ég mun hvað sem öðru líður greiða atkvæði gegn þessari grein til að láta í ljós andstöðu mína við það frelsi fjármagnsins sem nú er verið að innleiða hér á landi. Ég vek sérstaka athygli á því að það skuli vera Alþb. eitt þingflokka sem lýsir andstöðu við það frelsi fjármagnsins sem núv. ríkisstj. hefur innleitt. Bæði Alþfl. og Bandalag jafnaðarmanna skrifa upp á þessi vinnubrögð að fjármagnsstofnanirnar sjálfar geti ákveðið vexti og kjör á sínum útlánum. Þetta segir sína sögu, herra forseti, um þá stöðu sem komin er upp hér á hv. Alþingi þegar tveir stjórnarandstöðuflokkanna kjósa, auk framsóknar, að fylgja íhaldinu í þessu frjálshyggjuofstæki.

Ég vil sérstaklega, herra forseti, mótmæla þessari grein frv. um sparisjóði. Síðan vil ég taka til umræðu 30. gr. frv. um sparisjóði og 26. gr. frv. um viðskiptabanka, en ég tel að bæði þessi mál séu nú hér til meðferðar vegna þess að þau eru í rauninni samkynja. Almenn mótmæli mín varðandi framlagningu málsins, sparisjóðafrv., eiga við á sama hátt og í sambandi við frv. um viðskiptabanka, þ. e. að seðlabankafrv. skuli ekki lagt hér fram. Ég tel það í rauninni algerlega óeðlilegt að hespa þessum málum hér í gegnum þingið og ég tel það yfirgang í ríkisstj. að keyra þau áfram með þessum hætti á þessu sumarþingi 1985.

Það var sérstaklega, herra forseti, 2. mgr. 30. gr. sem ég vildi gera að umræðuefni. Þar segir: „Sparisjóðum og öðrum, sem til þess hafa sérstaka lagaheimild, er einum heimilt að taka við innlánum frá almenningi til geymslu og ávöxtunar.“ Svona hljóðar greinin eftir að hv. meiri hl. fjh.- og viðskn. hefur breytt henni að sinni tillögu. Í upphafi var orðalagið á þann veg að sparisjóðum og reyndar viðskiptabönkum og öðrum, sem til þess hafa sérstaka lagaheimild, er einum heimilt að auglýsa eða bjóðast til með öðrum hætti að taka við innlánum af almenningi til geymslu og ávöxtunar. Þessi orð „að auglýsa eða bjóðast til með öðrum hætti“ eru felld niður og ég tel að það sé eðlilegur hlutur. það hefði verið óeðlilegt með öllu að miða heimildir í þessum efnum við það hvort menn auglýsa eða bjóðast til að taka við fjármunum. Þannig verður það að segjast að þetta ákvæði í frv. er auðvitað gallað.

Ég óttast það, herra forseti, að ekki líði langur tími áður en hingað koma inn í þingið á ný frumvörp um að breyta þessum frv. vegna þess hve mikil fljótaskrift er á afgreiðslu málanna hér. Ég lýsi ábyrgð á hendur stjórnarmeirihlutanum í þeim efnum. Það er ætlunin, herra forseti, að afgreiða hér samtals 123 greinar í þessum þremur frv. fyrir utan ákvæði til bráðabirgða. Þetta á að afgreiða núna á næturfundi. Það er gert ráð fyrir því að hér verði fundum fram haldið og lokið 2. og 3. umr. um þessi mální nótt. Þetta eru auðvitað algerlega óeðlileg vinnubrögð og ég tel ástæðu til að mótmæla þeim mjög harðlega. Ég óttast að þessi vinnubrögð verði til þess að áður en langur tími líður komi hér inn frv. og jafnvel verði nauðsynlegt að setja hér brbl. til þess að breyta einhverjum flausturslegum afgreiðslum í þessum frumvörpum eins og þau liggja hér fyrir. Í þeim efnum lýsi ég allri ábyrgð á hendur hæstv. ríkisstj. og þingmeirihluta.

En ég kem aftur að 2. mgr. 30. gr. Þar segir að sparisjóðir og viðskiptabankar hafi einir heimild til að taka við innlánum frá almenningi til geymslu og ávöxtunar, hafi einir heimild. Og í grg. með þessari grein í sparisjóðafrv. segir svo, með leyfi forseta:

„Ákvæði 2. mgr. veitir sparisjóðum og öðrum aðilum, er til þess hafa lagaheimild, einkarétt á að taka við innlánum frá almenningi til geymslu og ávöxtunar. Lagaheimildir af þessu tagi eru þegar fyrir hendi í gildandi lögum um innlánsstofnanir, sbr. lög um einstaka banka, lög nr. 46/1937, sem m. a. fjalla um innlánsdeildir samvinnufélaga, lög nr. 2/1888 um Söfnunarsjóð Íslands og póstlög nr. 31/1940 að því er varðar póstgíróstofuna. Skv. 10. gr. laga um Seðlabankann eru þessar stofnanir háðar eftirliti bankaeftirlitsins. Tilgangur þessa eftirlits er fyrst og fremst að gæta hagsmuna þeirra sem eiga innlánsfé í þessum stofnunum eða aðrar kröfur á hendur þeim. Þykir því rétt að kveða skýrt á um einkarétt þessara stofnana í þessu efni.“

Einkarétt, segir hér, og nákvæmlega sams konar orðalag er í grg. með 26. gr. frv. um viðskiptabanka. Þar segir: „Þykir því rétt að kveða skýrt á um einkarétt stofnananna í þessu efni.“

Hvað þýðir þetta á mæltu máli? Það þýðir það að kaupþingin, okursjoppurnar, sem hafa verið að skjóta hér upp kollinum að undanförnu hafa ekki lengur, ef þetta verður að lögum, leyfi til þess að taka við peningum til geymslu eða ávöxtunar. Ég vil að það sé alveg skýrt að svona hef ég skilið þetta og ég hef ekki orðið var við það í umræðum um málið til þessa að menn hafi mótmælt þessum skilningi. Við 1. umr. málsins tók ég þetta sérstaklega fyrir og innti hæstv. viðskrh. eftir því hvaða skilning hann hefði á þessum ákvæðum, hvort hann teldi að kaupþingin gætu starfað áfram þrátt fyrir þessi ákvæði. Hann svaraði þessu ekki. Ég tel hins vegar alveg óhjákvæmilegt að fá svar í þessu efni og skýringu, því að eins og þetta stendur núna er ekki hægt að skilja textann öðruvísi en svo að verið sé að lögbanna kaupþingin, okurbúllurnar, banna þeim að taka við fé til ávöxtunar og geymslu, eins og stendur hér skýrum stöfum: „Þykir því rétt að kveða skýrt á um einkarétt þessara stofnana.“ Þó að flausturslega sé að þessari afgreiðslu staðið af hálfu hv. meiri hl. tel ég óhjákvæmilegt að þetta atriði verði dregið hér mjög skýrt fram vegna þess, herra forseti, að þessar okurbúllur eru núna að soga til sín sparifé sem ella hefði að einhverju leyti farið inn í bankana. Þar með er verið að draga úr möguleikum bankanna til að veita almenningi og atvinnuvegum þá þjónustu sem þeir eiga að veita. Hér er um stórhættulega þróun að ræða og þess vegna eru þessi frv. og meðferð þeirra auðvitað ekki aðeins gölluð vegna þess að seðlabankafrv. vantar heldur líka vegna þess að það vantar löggjöf um alla peningamálastarfsemi í landinu.

Ég minni á, herra forseti, í þessu sambandi að hér eru ekki til nein heildarlög um skuldabréf. Ég er sannfærður um að fólk er féflett í stórum stíl hér á landi vegna þess að engin heildarlög eru til um skuldabréf. Löggjafinn á auðvitað um leið og hann afgreiðir svona mál að afgreiða slíka löggjöf en það örlar ekki á þeim málatilbúnaði.

Þetta er svo stórt atriði, herra forseti, sem vikið er að í 30. gr. sparisjóðafrv. og 26. gr. bankafrv. að það verður að vera alveg skýrt hvað hér er átt við. Mótmæli hæstv. viðskrh. ekki skilningi mínum í þessum efnum, þá lít ég svo á að Alþingi sé að taka ákvörðun um að loka okurbúllunum frá og með gildistöku þessara laga. Þetta vildi ég, herra forseti, að kæmi skýrt fram um leið og ég mæli fyrir áliti mínu sem minni hl, fjh.- og viðskn. um frv. til l. um sparisjóði.