18.06.1985
Neðri deild: 101. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6793 í B-deild Alþingistíðinda. (6062)

334. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Félmn. hefur fjallað um þetta frv. Í nál. á þskj. 1304 kemur fram að nefndin hefur rætt málið og gerir till. um breytingu á sérstöku þskj. og leggur til að málið verði þannig samþykkt.

Undir þetta skrifa allir nm. í félmn. Brtt. er um að 1. gr. orðist þannig:

„Við 62. gr. laganna bætist ný mgr. er orðist svo: Sveitarfélög eiga forkaupsrétt á íbúðum, sem byggðar voru til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis fyrir gildistöku laga nr. 51/1980, enda hafi ríki og sveitarfélög lánað til kaupa þeirra íbúða og þau lán verið til 40 ára eða lengri tíma. Þar sem sérstakar matsnefndir hafa ekki verið skipaðar til að meta kaupverð slíkra íbúða við gildistöku laga þessara skulu sveitarstjórn og stjórn verkamannabústaða tilnefna hvor sinn mann í tveggja manna matsnefnd til þess að meta verð til seljenda þessara íbúða. Skal við matið taka fullt tillit til þeirra matsreglna sem gilt hafa við kaup íbúðanna. Óski sveitarstjórn eftir því er heimilt að endurfjármagna íbúðir þessar við endursölu skv. 49. gr. þessara laga. Sveitarstjórn getur samþykkt að gefa út kvaðalaust afsal fyrir þessum íbúðum áður en 30 ára eignarhaldstími er liðinn. Um íbúðir þessar skulu að öðru leyti gilda ákvæði þessa kafla eftir því sem við á.“

Þannig leggur félmn. til að 1. gr. orðist.