18.06.1985
Neðri deild: 102. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6796 í B-deild Alþingistíðinda. (6081)

493. mál, sparisjóðir

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Vegna ummæla hv. þm. Svavars Gestssonar hér áðan varðandi frelsi í vaxtamálum og útibúsmálum o. fl. vil ég vekja athygli á því að í gildi eru lög um Seðlabanka Íslands þar sem heimildirnar varðandi ákvörðun um vexti og reyndar útibúsmál eru allar fyrir hendi. Þetta sýnir náttúrlega hversu æskilegt það hefði verið að frv. um Seðlabanka hefði fylgt þeim frv. sem hér er verið að afgreiða. Eins og mál standa nú þá eru sem sagt, að samþykktum þessum frv. um sparisjóði og viðskiptabanka, í gildi tvenns konar ákvæði um þessi efni.