18.06.1985
Neðri deild: 102. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6796 í B-deild Alþingistíðinda. (6086)

Um þingsköp

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Mér skilst að í dag hafi verið gert samkomulag við þingflokka um þinglausnir og þær eigi að fara fram á föstudagsmorgun. Í því samkomulagi geri ég ráð fyrir að samið hafi verið um afgreiðslu á þeim málum sem ríkisstj. leggur áherslu á að fáist afgreidd á þessu þingi skv. forgangslista hennar. Mér er hins vegar ekki kunnugt um að það mál sem nú er ætlunin að taka á dagskrá, getraunir Öryrkjabandalags Íslands, sé á þessum forgangslista hæstv. ríkisstj. Og ég átta mig nú ekki alveg á því hvað knýr á um það að fara að taka fyrir mál, almennt mál hér klukkan að verða tvö að nóttu þegar fyrir liggur að um það er verulegur ágreiningur, bæði sem kom fram í n. og upplýst er að sé hér fyrir hendi í þinginu enn fremur.

Ég hef upplýst hæstv. forseta um það að ég hafi áhuga á að tjá mig um þetta mál og þurfi að gera það í allítarlegu máli. Ég ætlast til þess að ég fái tækifæri til þess þegar þingheimur er viðstaddur og ég geri kröfu um það að fá að tjá mig um málið þegar hæstv. dómsmrh. er viðstaddur en hann er flm. þessa máls. Ég vek athygli á því að ég hef ekki staðið að neinu samkomulagi um þinglausnir. Ég get því að sjálfsögðu rætt um þetta mál í nótt og á morgun, og um önnur mál ef því er að skipta. (HBl: Dómsmrh. er staddur hér í salnum, má ég benda á það.) Já, já, ef staðgengillinn gefur þær upplýsingar sem ég bið um þá er það ágætt og þá kemur það í ljós. En ég óska eftir því að hæstv. dómsmrh., sá sem undirbjó þetta mál og lagði það hér fram, sé viðstaddur þessa umr. Ég óska eindregið eftir því að þetta mál verði ekki tekið fyrir núna, með vísan til þeirra sjónarmiða og þeirra röksemda sem ég hef hér flutt um það að óeðlilegt sé að taka málið fyrir síðla nætur, það sé ekki á forgangslista hæstv. ríkisstj., um það muni verða allítarlegar umræður, nauðsynlegt er og óskað er eftir því af minni hálfu að þm. séu almennt viðstaddir og að hæstv. ráðh. Jón Helgason sé hér við umr. Þessa kröfu leyfi ég mér að bera fram og óska eftir því við forseta að hann fresti þessari umr.