18.06.1985
Neðri deild: 102. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6797 í B-deild Alþingistíðinda. (6088)

Um þingsköp

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að um kvöldmatarleytið var haldinn fundur formanna þingflokka og forseta þar sem rætt var hvernig haga þyrfti þingstörfum ef mögulegt ætti að vera að ljúka þingi n. k. föstudag eins og ótvíræður áhugi þm. stendur til. Það sem af er þessum fundi hafa mál verið tekin til umræðu og afgreiðslu eins og rætt var á þessum nefndarfundi forseta og formanna þingflokka.

Það er líka rétt, sem hér hefur komið fram, að það frv. sem hér hefur verið gert að umræðuefni, Getraunir Öryrkjabandalagsins, er ekki á neinum forgangslista ríkisstj. Hins vegar hafa komið fram mjög ákveðnar óskir um að þetta mál fengist rætt. Til þess að hægt verði að verða við þeim óskum og ef við ætlum með góðri samvinnu allra þm. að ljúka þingstörfum n. k. föstudag, þá tel ég alveg nauðsynlegt að halda þessari umr. fram núna. En ég vil engu spá um hvort það takist að afgreiða þetta mál endanlega í þinginu. En sem sagt, ég tel eðlilegt að halda umr. áfram, það er ágætlega mætt hér í þd. (Gripið fram í: Eins og er.) Já, eins og er.

Ég ætla ekkert að spá um það hversu lengi menn endast. það fer eftir því hvað menn halda skemmtilegar ræður og kannske hvað langar. En ég tel að það eigi að halda umr. áfram, það er í samræmi við það sem um var talað á nefndum fundi. En um leið viðurkenni ég náttúrlega að hv. þm. Ellert Schram telur sig ekkert bundinn af því sem ég kann að semja um fyrir hönd þingflokks sjálfstæðismanna.