08.11.1984
Efri deild: 11. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 881 í B-deild Alþingistíðinda. (609)

143. mál, álbræðsla við Straumsvík

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Hv. 5. landsk. þm. beindi til mín einni spurningu Hún var á þá leið hvort leitað hefði verið til sérfræðinga fjmrn. í sambandi við gerð samninga sem hér eru til umr. Ég vil svara því á þá leið að sérfræðingar fjmrn. í skattamálum hafa fylgst með þróun þessara mála og að sjálfsögðu sér í lagi þeirri hlið sem snýr að sköttum.

Þá vil ég nota þetta tækifæri, þó að ég hafi þegar svarað spurningunni, til að undirstrika að það var alger samstaða í ríkisstj. um málsmeðferð þá sem iðnrh. hefur kynnt, og ég vil undirstrika að ég lýsi samstöðu minni með hæstv. iðnrh. og fagna þeim áfanga sem hann hefur náð til sátta og hér liggur nú fyrir hv. Alþingi til afgreiðslu.