18.06.1985
Neðri deild: 102. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6798 í B-deild Alþingistíðinda. (6090)

Um þingsköp

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það gerist ærið oft að formenn þingflokka semja um mál og er það góðra gjalda vert svo langt sem það nær. Það er þó staðreynd að þeir hafa ekki umboð skv. þingsköpum til að semja um málfrelsi þm., hvorki í sínum flokkum né annarra. Og þó að ég fúslega viðurkenni að þeirra samningar greiða stundum fyrir málum í þinginu, þá vil ég undirstrika að skv. þingsköpum er öllum þm. ætlaður sami réttur. Og hér hefur komið fram ákveðin ósk um að ákveðið mál verði ekki tekið til umræðu.

Það er hafinn nýr dagur eins og menn vita og mikil spurning hvort eðlilegt sé eða skynsamlegt, sé horft á vinnu þess dags í samhengi sem einhverja heild, að keyra hér fram umræður um þetta mál í trássi við yfirlýstar óskir um frestun, studdar þeim rökum að 1. flm. málsins er ekki til staðar.

Ég vil vekja á því athygli að hér eru ýmis mál sem bíða eftir umr. í deildinni. M. a. er það 9. mál á þeirri dagskrá sem var hér á 101. fundi, þ. e. grunnskólar. Það virðist því vera af nægu að taka til umræðu ef forseta er það mikið kappsmál að halda áfram fundi á þeim degi sem nú er hafinn. En mér sýnist hitt ekki skynsamlegt og ég hvet eindregið þá kappsfullu formenn stjórnmálaflokka til að gera sér grein fyrir því að þeir skjóta yfir markið ef þeir ætla að þvinga fram þessa umræðu þrátt fyrir þá beiðni sem hér hefur komið fram.