19.06.1985
Efri deild: 103. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6802 í B-deild Alþingistíðinda. (6095)

423. mál, viðskiptabankar

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Frv. þetta er eitt af mörgum málum sem ríkisstj. leggur höfuðáherslu á að þröngva í gegnum Alþingi með góðu eða illu á þeim stutta tíma sem til stefnu er þegar öllum er auðvitað fyrir löngu ljóst orðið að þinghaldi verður ekki öllu lengur haldið áfram og stefnt er að þinglausnum nú í vikulokin, en mikill fjöldi stórra mála enn á ferðinni hér í þinginu og ekki hægt að viðhafa þinglega meðferð á þessum málum vegna tímaleysis.

Við hér í Ed. verðum að sætta okkur við að hvert stórmálið af öðru komi til okkar og við fáum kannske einn sólarhring eða svo til að fjalla um málið. Ég segi t. d. fyrir mig að ég hef ekki haft aðstöðu til þess í því annríki sem nú ríkir að kynna mér þær breytingar sem hafa verið gerðar á þessu frv. frá því að það kom frá Nd. og fékk þar umfjöllun. En okkur mun ætlað að afgreiða þetta mál á skömmum tíma og verður þá að taka til hendinni síðar í dag og í fyrramálið og fjalla um þetta mál í nefnd og mun ég þá að sjálfsögðu skila nál.

Það þarf ekki að taka fram að þessi hraði á meðferð þingmála er auðvitað algerlega óforsvaranlegur og verður að skrifast á ábyrgð ríkisstj.

Um bankamál almennt vil ég segja það eitt að þessu sinni að frá mínu sjónarmiði séð skiptir mestu máli að bankakerfið sé ekki ofurþungt bákn á þjóðfélaginu, rándýrt, fjölmennt, kostnaðarsamt fyrir þjóðfélagið, heldur sé það einfalt og ódýrt og sniðið við hæfi landsmanna. Þess vegna hefur það verið meginmál frá sjónarmiði mínu og okkar Alþb.-manna að bönkum fækkaði og að þeir stækkuðu, að starfsliði þeirra gæti fækkað í kjölfar aukinnar hagræðingar og kostnaður minnkað. Ég hef í mörg ár verið að vonast til þess að stjórnmálaflokkarnir á Alþingi kæmu sér saman um þessa meginstefnu sem margir þeirra hafa tekið undir, þ. e. ríkisbönkunum yrði fækkað, helst að þeir yrðu sameinaðir í einn banka, og að einkabönkunum yrði líka fækkað. Þó að þeir yrðu kannske ekki sameinaðir í einn banka yrði þar um nokkra fækkun og einföldun að ræða. Ég er sannfærður um að með slíkri endurskipulagningu bankakerfisins væri hægt að veita landsmönnum betri þjónustu en nú er veitt fyrir minna fé og með minni mannafla.

Því miður fjallar þetta frv. ekki um neitt af þessum höfuðatriðum málsins. Frv. fjallar aðallega um aukaatriði. Fyrst og fremst er þarna verið að koma til móts við ýmsar hégómlegar óskir frjálshyggjumanna í Sjálfstfl. sem vilja gera breytingar á íslensku bankakerfi í samræmi við það sem tíðkast í mörgum nálægum löndum þar sem býr 50–100 sinnum fleira fólk. Ég álít að við hefðum átt og hefðum þurft að sníða okkur stakk við hæfi og það hefði nýtt bankafrv. átt að fjalla um.

Ég er líka andvígur því að bönkunum sé gefið enn aukið svigrúm og frjálsræði til ákvörðunar vaxta. Ég álít að ef uppbygging atvinnulífs á að verða með eðlilegum hætti á komandi árum sé það hið brýnasta sem fyrir okkur liggur að sjá til þess að raunvextir vaði hér ekki upp úr öllu valdi, heldur haldist innan ákveðinna marka. Ég tel að vísu að það sé æskileg stefna að á öllum tímum séu raunvextir við lýði, að vextir verði ekki neikvæðir, að eigandi fjármagnsins tapi ekki beinlínis á því að hafa lánað það út heldur fái einhverja eðlilega ávöxtun, en það er langur vegur milli þeirra neikvæðu vaxta, sem stundum hafa tíðkast hér á landi, annars vegar og svo hins vegar þeirra óhóflegu okurvaxta sem nú tíðkast og eru allt frá því að vera 5% og upp í 15–17% raunvextir, þ. e. vextir umfram verðbólgu.

Ég álít að það sé höfuðatriði að reyna að tryggja að raunvextir fari ekki mikið yfir 3–4%. Það þýðir þá það, ef við t. d. tökum hærri töluna, 4%, að lántakandi hefur 18 ár til að láta lánsupphæðina tvöfalda sig þannig að hann geti örugglega staðið undir vöxtum sem hann á að greiða af upphæðinni því að upphæð með 4% raunvöxtum tvöfaldar sig á 18 árum. Það finnst mér vera hámark þess sem hægt er að krefjast með eðlilegum hætti af íslenskum atvinnuvegum. Þótt vissulega megi sjá þess ýmis dæmi að atvinnuvegir geti skilað svo góðum arði að þeir tvöfaldi verðmæti fjárfestingar á miklu skemmri tíma en ég nefndi nú, kannske allt niður í 5–10 árum, heyrir það til undantekninga. Ég óttast að ef við tryggjum ekki að fjármagn sé fáanlegt með hæfilegum vöxtum verði uppbygging hér á landi miklu minni og hægari en þörf er á.

Þetta er sem sagt eitt meginviðfangsefni íslenskra efnahagsmála, að reyna að halda vaxtastigi á eðlilegum nótum, hvorki of lágu þannig að vextirnir verði neikvæðir né heldur of háu þannig að gerðar séu óhóflegar og óraunhæfar kröfur til arðsemi fjárfestingar. En um þetta fjallar frv. ekki heldur. Þvert á móti eru ákvæði þar sem stefna í þveröfuga átt, þ. e. að auka frjálsræði til vaxtaákvarðana og þar með stuðla að því að vaxtastig hér á landi spanist upp enn frekar en orðið er.

Virðulegi forseti. Ég tel nauðsynlegt, miðað við þá vinnuáætlun sem við höfum sett okkur í þinginu, að fjölyrða ekki um of við hverja umr. um hvert mál og læt því þessi orð nægja að sinni, en áskil ég mér rétt til að gera grein fyrir brtt. sem ég mun væntanlega flytja við 2. umr. frv.