19.06.1985
Efri deild: 103. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6803 í B-deild Alþingistíðinda. (6097)

493. mál, sparisjóðir

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Virðulegi forseti. Það hefur nú um nokkuð langt skeið verið unnið að því að endurskoða lög um sparisjóði, en þau lög sem gilda um sparisjóðina eru frá 1941. Á undanförnum árum hafa verið flutt á Alþingi nokkur frumvörp. Það frv. sem nú er flutt má segja að sé að verulegu leyti í samræmi við þau frv. sem flutt hafa verið. Þó eru í þessu frv. þó nokkrar tillögur til breytinga sem ekki fyrirfinnast í þeim frumvörpum sem áður hafa verið flutt.

Nd. hefur fjallað um þetta frv. eins og það var á þskj. 917 flutt af ríkisstj. og gerði á því nokkrar breytingar skv. till. meiri hl. fjh.- og viðskn. Frv. er því orðið, þegar það kemur hingað til hv. Ed., eins og þskj. 1336 ber með sér, þ. e. breytt var 6., 24., 30., 34., 40. og 65. gr. frv.

Meginatriði frv. er að sem næst allar sömu starfsheimildir gildi fyrir sparisjóði og viðskiptabankana. Mikilvægustu nýmæli í þessu frv. eru að framvegis verði einungis sparisjóðir stofnaðir með innborguðu stofnfé. Settur er upp sérstakur séreignasjóður stofnfjáreigenda til að gera stofnfjáreign í sparisjóði eftirsóknarverðari með því að heimila ávöxtun hennar. Það eru settar sams konar reglur í þetta frv. og frv. um viðskiptabanka að því er varðar eigið fé sparisjóða. Það er lagt til að stofnaður sé nýr tryggingarsjóður sparisjóða sem verði sparisjóðum og innstæðueigendum styrkari bakhjarl en núverandi tryggingarsjóður skv. þeim lögum sem um sparisjóðina gilda. Þá er lagt til í þessu frv. að heimila stofnun lánastofnunar sparisjóðanna. Nauðsyn slíks sameiginlegs sjóðs sparisjóðanna hefur orðið brýnni eftir því sem starfsemi sparisjóðanna hefur orðið meiri og er forsenda þess að sparisjóðir víðs vegar um landið verði þess megnugir að taka að sér frekari fjármögnun fyrir atvinnuvegina jafnframt því sem ætlað er að þetta auki hagkvæmni í rekstri sparisjóðanna. Skv. þessu frv. er gert ráð fyrir að sparisjóðirnir geti verslað með gjaldeyri eins og viðskiptabankarnir og þess vegna er einmitt lögð áhersla á stofnun lánastofnunar sparisjóðanna til þess að það verði ekki svo að hver og einn sparisjóður setji gjaldeyrisdeild hjá sér á stofn, heldur verði hægt með sameiginlegu átaki og samstarfi að sinna þessum málum af hálfu sambands sparisjóðanna og taka að sér þá milligöngu sem gjaldeyrisbankarnir hafa haft fyrir sparisjóðina frá því að þeir fengu gjaldeyrisleyfi.

Ég er þeirrar skoðunar að með því að slíkt frv., sem hér er til umr., verði samþykkt sé mjög verið að styrkja sparisjóðina sem peningastofnanir, ekki aðeins gagnvart sparifjáreigendum heldur og til að sinna meira atvinnulífi landsmanna en gert hefur verið. Sparisjóðirnir hafa á undanförnum árum tekið að sér í ríkari mæli að sinna atvinnulífinu og það er ætlunin með samþykkt þessa frv. að þeir geti, eftir því sem aðstæður leyfa og fjármagn þeirra segir til um, sinnt atvinnulífinu á svæði sínu eftir því sem best verður á kosið.

Ég sé ekki, virðulegi forseti, ástæðu til að fjölyrða meir um þetta frv. Ég vísa til þeirrar ræðu sem ég flutti með frv. við 1. umr. í Nd. og til grg. með frv. Ég vil vekja sérstaka athygli á sögulega hluta grg. varðandi starfsemi sparisjóðanna í landinu allt frá því að fyrst er stofnaður hér sparisjóður 1868. Í grg. eða sögulega hluta hennar er einmitt vikið náið að þessum málum og sýnir það best hvernig sparisjóðirnir, allt frá því að þeir fyrst voru stofnaðir, hafa í vaxandi mæli sinnt hlutverki peningastofnunar. Eins og ég gat um áðan er nú þar komið að talið er rétt, án þess að breyta um form, — gengið er út frá því að sama form verði á þessum stofnunum, — að þeir geti sinnt viðskiptavinum, atvinnulífinu, eins og bankar. Það hefur held ég sýnt sig hingað til að þeir eru þess megnugir, en löggjöfin hefur stundum verið þeim fjötur um fót þegar á hefur þurft að halda.

Ég leyfi mér að leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn. Fulltrúar viðskrn. eru að sjálfsögðu reiðubúnir til þess að veita nefndinni allar þær upplýsingar sem óskað verður eftir.