19.06.1985
Efri deild: 103. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6805 í B-deild Alþingistíðinda. (6099)

457. mál, Framkvæmdasjóður Íslands

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Virðulegi forseti. Í framsögum mínum fyrir bæði Byggðastofnun og svonefndu þróunarfélagi gat ég þess að ríkisstj. ákvað að taka lög um Framkvæmdastofnun til endurskoðunar, lög sem upphaflega voru sett 1971, en endurskoðuð 1976. Fyrst og fremst var það ákveðið með tilliti til þess að áherslur í atvinnulífi hafa mjög breyst á þeim árum sem liðin eru og þörf fyrir nýsköpun mjög aukist, þörf fyrir nýjar atvinnugreinar á ýmsum þeim sviðum sem áður voru lítt þekkt meðal okkar.

Í sambandi við þessa endurskoðun var þó ákveðið að Framkvæmdasjóður héldist. Ástæðan er m. a. sú að Framkvæmdasjóður er í miklum skuldbindingum erlendis og sömuleiðis mikil útlán sjóðsins innanlands. Auk þess hefur Framkvæmdasjóður áunnið sér mjög gott orð á lánamörkuðum og því ástæða til þess að hann geti starfað áfram eins og hingað til sem miðstöð lántöku eins og þörf er talin. Er þess getið í 2. gr. þar sem segir að hlutverk Framkvæmdasjóðs skuli vera að annast innan ramma lánsfjárlaga og annarra laga, eftir því sem við á, milligöngu um lántöku fyrir fjárfestingarlánasjóði og aðra sambærilega aðila sem þess óska. Má sjóðurinn í því sambandi taka erlend lán í eigin nafni og endurlána.

Breytingin er hins vegar fyrst og fremst efnislega sú að Framkvæmdasjóður hefur ekki skv. frv. það hlutverk, sem Framkvæmdastofnun og Framkvæmdasjóður höfðu áður, að gera samræmda útlánsáætlun fyrir alla fjárfestingarsjóðina og annast lántökur fyrir fjárfestingarsjóðina. Ástæðan fyrir þessari breytingu er m. a. sú sem fram kemur í frv. til l. um sjóði atvinnuveganna sem liggur fyrir Alþingi. Gert er ráð fyrir að sjóðir atvinnuveganna fái sjálfir heimild til að taka beint lán erlendis ef þeir óska. Hins vegar er sjóðunum jafnframt frjálst, eða verður frjálst ef að lögum verður, að fela Framkvæmdasjóði að annast slíka lántöku fyrir hönd viðkomandi sjóðs.

Gert er ráð fyrir að sjóðnum verði skipuð þriggja manna stjórn til fjögurra ára í senn og tilnefni Seðlabanki Íslands einn, fjmrh. annan, en forsrh. skipi einn án tilnefningar og verði hann formaður sjóðsstjórnar. Með þessu móti eru sameinaðir þeir aðilar sem hafa veg og vanda af starfi Framkvæmdasjóðs, þ. e. Seðlabanki Íslands, svo og fulltrúi fjmrh., en ríkissjóður, eins og segir í 1. gr., ábyrgist allar skuldbindingar Framkvæmdasjóðs.

Ég sé ekki ástæðu til þess, virðulegi forseti, að hafa um þetta fleiri orð. Þetta frv., eins og ég sagði áðan, tengist mjög frv. um Byggðastofnun og frv. um þróunarfélag og þarf mjög nauðsynlega að fylgja þeim frv. í gegnum þingið. Mér þykir leitt að málið kemur seint til hv. deildar, en ég vona þó að deildin, ekki síst hv. fjh.og viðskn. af alkunnum dugnaði, afgreiði þetta mál fljótt og vel. Ég geri fastlega ráð fyrir því. (Gripið fram í: Ætli hún sé ekki búin að því?) Það má vera, málin hafa streymt þaðan út svo að maður hefur ekki haft við að fylgjast með. Það má vel vera að svo sé.

En ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð og legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.