19.06.1985
Neðri deild: 103. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6814 í B-deild Alþingistíðinda. (6110)

98. mál, sóknargjöld

Frsm. (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Menntmn. Nd. hefur haft þetta mál til meðferðar á nokkrum fundum sínum, en frv. er komið frá hv. Ed. Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt að samþykktum tveimur brtt. sem fluttar eru og eru á þskj. 1302 og nefndin stendur að. Undir nál., sem er á þskj. 1301, rita allir nm. utan Kristín S. Kvaran sem var fjarverandi afgreiðslu málsins. Einstakir nm. áskilja sér rétt til að flytja brtt. og það hafa reyndar tveir nm. gert, þeir hv. þm. Hjörleifur Guttormsson og Jón Baldvin Hannibalsson, og munu þeir gera grein fyrir þeirri brtt.

En brtt. sem nefndin stendur að sameiginlega snertir í fyrsta lagi 10. gr., gildistökuákvæðið. Við leggjum til að þeirri grein verði breytt þannig að í stað þess að lögin taki þegar gildi öðlist þau gildi hinn 1. janúar 1986. Ástæðan fyrir því er fyrst og fremst sú að það er orðið of seint að leggja sóknargjöld á skv. ákvæðum þessa frv., ef að lögum verður, og þess vegna leggjum við til að gildistakan verði hinn 1. janúar 1986.

Í öðru lagi leggur nefndin til að breytt verði bráðabirgðaákvæði frv., sem varðar innheimtuþóknun, til samræmis við ákvæði kjaradómslaga nr. 41/1984, en í bráðabirgðaákvæði þeirra er innheimtumönnum ákveðinn tiltekinn umþóttunartími um lögkjör sín en þau skulu haldast óbreytt til ársins 1990, þ. e. hjá þeim sýslumönnum sem hafnað hafa kjaradómslaunum. Þessi breyting er reyndar í samræmi við það sem hv. Ed. samþykkti við 2. umr. frv. Ekki þykir unnt að fella niður umrædd innheimtulaun þar sem þau eru lögvarin til ársloka 1990 eða í rúmlega fimm ár, en þá er umþóttunartíminn liðinn og innheimtulaun falla alfarið sjálfkrafa niður. Best virðist fara á því að um þessi kjör verði samið með innheimtumönnum og sóknarnefndum svo sem reyndar var ráð fyrir gert af höfundum þessa frv. En fyrir mistök í meðförum hv. Ed. varð þetta ákvæði ekki eins og það þarf að vera. Þess vegna er þessi brtt. flutt.

Til þess að spara tíma vil ég láta þess getið varðandi brtt. á þskj. 1303 að hliðstæð brtt. var flutt við meðferð málsins í hv. Ed., en náði ekki samþykki þar. Ég læt þess getið að ég mæli ekki með því að nefnd brtt. verði samþykkt, heldur eingöngu þær tvær brtt. sem nefndin stendur einhuga að.