19.06.1985
Neðri deild: 103. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6815 í B-deild Alþingistíðinda. (6111)

98. mál, sóknargjöld

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég undirrita nál. menntmn. með fyrirvara, eins og einnig hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, og fyrirvari okkar varðar sérstaklega efni 3. gr., en hún er eins og frv. liggur fyrir svohljóðandi:

„Nú hrökkva tekjur sóknarkirkju ekki fyrir nauðsynlegum útgjöldum að dómi sóknarnefndar og sóknarprests og er þá heimilt með samþykki safnaðarfundar að hækka sóknargjöld allt að tvöföldu, enda komi til samþykki kirkjumálaráðherra. Í Reykjavíkurprófastsdæmi tekur safnaðarráð, sbr. 2. gr. laga nr. 35/1970, ákvörðun um þetta efni að fengnum tillögum sóknarnefnda í prófastsdæminu og leitar samþykkis ráðh.“

Þessi grein felur það í sér að sóknargjöld geta, þar sem tekjur sóknarkirkju hrökkva ekki fyrir nauðsynlegum útgjöldum að dómi sóknarnefndar og sóknarprests, orðið allt að 0.8% af útsvarsstofni eða tvöfalt það hámark sem tilgreint er samkv. 2. gr. Menn sjá væntanlega af þessu að ekki er um neinar óverulegar upphæðir að ræða ef þessi heimild samkv. 3. gr. yrði notuð, með henni mælt og kirkjumálaráðherra samþykkti.

Ég hygg að þetta sé aðallega hugsað varðandi dreifbýlissóknir þar sem gjaldendur eru tiltölulega fáir og tekjur ekki fullnægjandi að ýmissa mati til að hlynna að kirkjum og öðru safnaðarstarfi og þá má samkvæmt frv. leggja á svona hátt sóknargjald eða tvöfalt hærra en hin almenna regla gerir ráð fyrir að hámarki. Þetta teljum við hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, sem stöndum að sérstakri brtt., hið mesta óráð, að halda slíkri heimild inni, og höfum því flutt svofellda brtt. við 3. gr., að hún orðist svo, með leyfi forseta:

„Af innheimtum sóknargjöldum skulu 10% lögð í jöfnunarsjóð. Framlög úr jöfnunarsjóði skulu einkum ætluð sóknarkirkjum þar sem tekjur hrökkva ekki fyrir nauðsynlegum útgjöldum að dómi sóknarnefndar og sóknarprests. Sjóðurinn er í vörslu dóms- og kirkjumrn. sem ákveður úthlutun úr sjóðnum að fengnum tillögum biskups og prófasta samkv. nánari ákvæðum í reglugerð.“

Það er sem sagt okkar till. samkv. þessu að það verði stofnaður sérstakur jöfnunarsjóður með 10% af innheimtum sóknargjöldum og fjármagni verði veitt úr honum til kirkna þar sem tekjur hrökkva ekki fyrir nauðsynlegum útgjöldum.

Þetta tel ég vera mun sanngjarnari aðferð en þá sem frv. gerir ráð fyrir. Ýmsum mun þykja allmikið í ráðist með ákvæðum 2. gr. um sóknargjöld allt að 0.4% af útsvarsstofni. Það mun hafa komið fram við athugun á vegum nefndarinnar, að ekki sé óalgengt að þessi gjöld nemi um 0.3% af útsvarsstofni. En hér er sem sagt ekki verið að leggja á nefskatt, heldur á grundvelli tekna greiðsluskyldra til útsvars og menn sjá hversu hátt er stefnt með ákvæðum 3. gr. ef þeirri heimild yrði beitt.

Ég vænti því að brtt. okkar hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar fái jákvæða afgreiðslu hér í þd. þar eð hún er mun sanngjarnari en það sem felst í ákvæðum frv.