08.11.1984
Sameinað þing: 17. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 889 í B-deild Alþingistíðinda. (613)

55. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Flm. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um vantraust á ríkisstj. Steingríms Hermannssonar. Till. er flutt af stjórnarandstöðuflokkunum fjórum og munu talsmenn hinna flokkanna gera grein fyrir sínum sjónarmiðum í umr. hér á eftir.

Það er óvenjulegt að till. um vantraust á ríkisstj. komi fram jafnsnemma á valdaferli ríkisstj. og hér gerist. Í þetta skipti er það öll stjórnarandstaðan, fjórir um margt ólíkir þingflokkar, sem stendur að till. Þar með eru flokkarnir þeirrar skoðunar að ríkisstj. eigi að fara frá og að efnt skuli til kosninga strax og fært þykir eða ný stjórn mynduð.

Fyrir hönd Alþb. tek ég fram að við erum ekki reiðubúin til myndunar ríkisstj. án kosninga. Við teljum óhjákvæmilegt að þjóðin fái að kveða upp úrskurð sinn áður en ný ríkisstj. verður mynduð því að sá úrskurður verður vafalaust á allt annan veg en varð í síðustu alþingiskosningum. En það sem veldur till. um vantraust á ríkisstj. er sú staðreynd að stefna hennar hefur beðið skipbrot. Strandkapteinninn heitir Steingrímur Hermannsson og stýrimaðurinn Þorsteinn Pálsson. Sá síðarnefndi rær nú að sögn lífróður við að koma sér í stól. Barátta hans og forustu Sjálfstfl. snýst þessa dagana um stóla en ekki stefnur, enda má segja að það eina sem eftir standi af ríkisstj. séu stólarnir. Stefnu hennar treystir enginn lengur. Ég mun nú rekja nokkur dæmi um stefnu ríkisstj. í efnahagsmálum og hvernig fyrir þeim þáttum er komið.

1. Ríkisstj. sagðist ætla að tryggja fulla atvinnu. Staðreyndin er sú að stöðvun hefur blasað við framleiðslunni um allt land og fyrirtækjum hefur aftur og aftur verið lokað. Ríkisstj. hefur svikið þetta fyrirheit um fulla atvinnu og atvinnuöryggi. Hún hefur lagt þyngri og þyngri gjöld á atvinnuvegina með hækkun vaxta, hækkun farmgjalda og hún hefur svikist um að lækka olíuna eins og lofað var að kæmi til framkvæmda 1. nóv. s.l. Í staðinn er nú rætt um það í stjórnarráðinu að hækka olíu næstu daga um 10–15% til fiskiskipanna.

2. Ríkisstj. ætlaði að koma á jafnvægi í peningamálum. Staðreyndin er sú að viðskiptabankarnir eru skuldugri en nokkru sinni fyrr við Seðlabankann og erlenda banka. Fjármagnið sogast út úr bönkunum og þar með frá atvinnulífinu og einstaklingum sem skipta við bankakerfið yfir á okurlánamarkaðinn, sem er nú blómlegri en áður með allt að 18% raunvexti á fjármagninu.

3. Ríkisstj. ætlaði að hækka öll húsnæðislán í 80%. Það loforð hefur verið svikið, en í staðinn verður fólk að bíða mánuðum lengur en áður eftir afgreiðslu á lánum frá Húsnæðisstofnun, sem hefur jafnvel orðið að loka afgreiðslum sínum á þessu ári. Samt hefur verið tekið erlent lán til þess að bjarga húsnæðiskerfinu í fyrsta sinn í sögunni.

4. Ríkisstj. hefur lækkað skatta á skrifstofu- og verslunarhúsnæði, á fyrirtækjum og gróðaaðilum, en hún hefur lagt sömu skatta á sjúklinga sem þurfa að kaupa lyf og læknishjálp.

5. Ríkisstj. ætlaði að lækka erlendar skuldir. Þær hafa hækkað og eru nú í fyrsta sinn í sögunni notaðar til þess að fjármagna rekstur ríkissjóðs, jafnvel uppgjör barnsmeðlaga milli ríkisstofnana.

6. Forsrh. lofaði því að lækka vexti er hann flutti stefnuræðu sína hér í fyrra niður í 10% í lok þessa árs. Vextir eru einhverjir þeir hæstu í heimi núna og húsbyggjendur og þeir sem hafa keypt íbúðir eru að kikna undir vaxtaokinu samhliða þeim vanda sem óstjórn húsnæðismála skapar þessu fólki að öðru leyti.

7. Ríkisstj. varð að taka erlent lán til þess að standa undir ríkisrekstrinum á þessu ári. Ríkisstj. hefur hent út úr ríkissjóði 1/2–1 milljarði kr. Þegar ríkisstj. boðar skattalækkunarleið reyndist engin innistæða vera til fyrir henni eins og fjmrh. lýsti margoft yfir. Ríkissjóður er þannig í óreiðu og ólestri.

8. Ríkisstj. segist hafa tekið við 130% verðbólgu. Staðreyndin er sú að verðbólgan síðasta heila árið áður en stjórnin tók við var um 86%. Hækkunin frá því stafaði af því að núv. ríkisstj. hleypti öllum hækkunum lausum og hún reiknar verðbólguhámarkið frá því sem var eftir að hún hafði sjálf setið í nokkrar vikur. Á sama hátt og forsrh. landsins reynir að kenna fyrri ríkisstj. um verðhækkanaskriðuna sem hans eigin stjórn hleypti af stað gerir hann tilraunir til þess að kenna fyrri ríkisstj. um skerðingu kaupmáttar. Staðreyndin er sú að þá skertist kaupmáttur launa um sama hlutfall og nam lækkun þjóðartekna, en eftir að ríkisstj. Steingríms Hermannssonar tók við hefur kaupmáttur launa hrapað margfalt á við lækkun þjóðartekna. Þegar forsrh. reynir að bjarga sér frá skömminni með því að kenna fyrrv. ríkisstj., sem hann var reyndar í sjálfur, um allan vandann er það til marks um það að forsrh. er rökþrota, fölsuð línurit breyta þar engu um. Það stendur ekki steinn yfir steini í efnahagsstefnu ríkisstj. og dýrtíðin blasir við hverju heimili og sú staðreynd er ærin ástæða til að samþykkja vantraust á ríkisstj.

En auk þess, sem hér hefur verið nefnt, mætti bæta við í þessa vantraustsumr. mörgum öðrum málaflokkum, eins og t.d. álmálinu og utanríkismálunum. Í álmálinu hefur ríkisstj. selt Alusuisse syndaaflausn og samið um raforkuverð sem er langt undir framleiðslukostnaði. Þar var ekki samningsharkan eins og gagnvart opinberum starfsmönnum. Jafnframt er ljóst að tekjuauka Landsvirkjunar af samningunum á ekki að nota til þess að lækka húshitunarkostnað, eins og ríkisstj. hafði lofað.

Í utanríkismálunum blasir við ofstækisfull vígbúnaðarstefna þar sem í fyrsta sinn er rætt um það í fullri alvöru hvernig Ísland muni notað til þátttöku til að verja Bandaríkin í kjarnorkustríði. Þó að menn hafi greint á um varnir landsins og öryggismál, ætti þó öllum að vera ljós nauðsyn þess að við stöndum saman um að varðveita lífið og halda fram hlut þess gegn dauðanum. Ég er sannfærður um að yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar er sammála utanríkisstefnu á forsendum friðar og lífs en ekki stríðs, þó að ríkisstj. Framsfl. og Sjálfstfl. kjósi að ganga lengra í útþenslu hernámsins en nokkur önnur stjórn hefur gert hér á landi.

Herra forseti. Það sem blasir við núna sem brýnast verkefni íslenskra stjórnmála er að allt verði gert sem unnt er til þess að tryggja kaupmátt þeirra kjarasamninga sem gerðir hafa verið, til þess að tryggja fulla atvinnu og til þess um leið að halda aftur af gengislækkuninni og verðbólguholskeflunni, sem núv. ríkisstj. ætlar bersýnilega að láta steypast yfir landslýðinn á næstunni. Með tilliti til þess vanda, sem ríkisstj. hefur skapað, leggur Alþb. áherslu á eftirfarandi atriði:

1. Ríkisstj. ber að miða allar sínar ákvarðanir í efnahagsmálum við að tryggja kaupmátt þeirra kjarasamninga sem gerðir hafa verið að undanförnu. Hér er átt við ákvarðanir í vaxtamálum, verðlagsmálum. gengismálum og aðra þá þætti efnahagsmála sem beinlínis snerta kaupmátt launanna.

2. Alþb. telur að tafarlaust eigi að lækka vexti og banna um leið okurvextina á hinum svokallaða frjálsa markaði. Með þessu móti er komið til móts við launafólk og þannig bættur kaupmáttur þess um leið og svigrúm atvinnufyrirtækjanna er aukið verulega, þar sem vaxtakostnaðurinn er sums staðar stærsti útgjaldaliðurinn. Ljóst er að fjöldi fyrirtækja í verslun og þjónustu getur borgað það kaup sem nú er samið um án þess að velja því af sér út í verðlagið. Það hafa þessi fyrirtæki þegar sannað með yfirborgunum á undanförnum mánuðum.

3. Alþb. vill sérstakt eftirlit með innflutningsversluninni þar sem hvatt er til hagkvæmari innkaupa um leið og birtar verði niðurstöður kannana á innflutningsverði eins og birst hafa um smásöluverð. stöðva ber hækkanir opinberra aðila.

4. Alþb. telur að lækka eigi farmgjöld skipafélaganna sem eru einhver þau hæstu í heimi. Með þessu móti væri stuðlað að lækkun vöruverðs til landsins og auknum tekjum útflutningsatvinnuveganna sem að mestu leyti standa undir okrinu á farmgjöldunum.

5. Alþb. vill afnema hægri skattana eins og sjúklingaskattinn og standa vörð um þá félagslegu ávinninga sem fyrri ríkisstj. beitti sér fyrir. Við höfnum þeirri stjórnarstefnu sem ýtir undir það að konur sæti verri kjörum en karlar, að fatlaðir og sjúkir beri hærri gjöld en aðrir, að börn njóti lakari þjónustu í dagvistun og skólum landsins en verið hefur.

6. Alþb. er reiðubúið að taka þátt í að afla tekna til að standa undir ráðstöfunum sem treysta stöðu útflutningsatvinnuveganna, draga úr verðbólgu og stuðla að bættum kaupmætti. Við bendum á eftirfarandi:

1. Hagnaður Seðlabankans verði gerður upptækur og fjármunirnir notaðir í þágu útflutningsatvinnuveganna.

2. Lagður verði skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði og kanna ber hvort ekki sé rétt að leggja tímabundinn veltuskatt á þau fyrirtæki sem mest hafa grætt á undanförnum þremur misserum frá því að þessi ríkisstj. tók við.

3. Leggja ber veltuskatt á banka eins og gert var 1982 og um leið á að fella niður lög þau um lækkun bankaskattanna sem núv. ríkisstj. knúði fram við þinglok s.l. vor.

4. Ég tel einnig sjálfsagt að breytt verði reglum um skattfrelsi vaxtatekna. Þar með verði vaxtatekjur allar framtalsskyldar og skattskyldar eftir ákveðnum reglum. Með þessu móti má einnig skapa aðhald að okurlánastarfseminni, enda verði opinberum aðilum gert skylt að skrá öll skuldabréf á nafn svo að unnt verði að fylgjast með því hverjir það eru sem raka saman milljónum á milljónir ofan í neðanjarðarhagkerfinu.

Með þeim ráðstöfunum, herra forseti, sem hér hefur verið gerð grein fyrir væru peningar fluttir til frá milliliðum, þjónustu og verslun og gróðaaðilum yfir til framleiðslunnar. Með þessum aðgerðum má vinna þrennt í senn. halda kaupmætti kjarasamninganna hærri en ella, veita viðnám gegn verðbólgu og tryggja fulla atvinnu.

Alþb. er ábyrgur stjórnmálaflokkur, ábyrgt gagnvart kjósendum sínum og hagsmunum launafólks í landinu. Í stjórn tökum við þátt í að leysa málin þó þau geti verið erfið og í stjórnarandstöðu látum við okkur ekki nægja að gagnrýna, við flytjum einnig tillögur til úrbóta eins og hér hefur verið gerð grein fyrir. Þessar tillögur fjalla um róttækar umbætur á þjóðfélaginu, aðgerðir sem eru framkvæmanlegar hér og nú. Þetta er pólitísk leið til að tryggja kaupmátt launanna, eina svarið sem í rauninni dugir.

Herra forseti. Forsrh. líkir ríkisstj. við slökkvilið. Hann ætlar henni að slökkva þá elda sem ríkisstj. hefur sjálf kveiki að undanförnu með harðýðgi og lögbrotum. En vissulega mun ríkisstj. ekki takast að kæfa þá baráttuglóð sem fer um samfélagið þessa daganna. Hún lifir, sú glóð, og yljar og kveikir til samstöðu, samúðar og samvinnu til að berjast fyrir því nýja Íslandi jafnréttis, lýðræðis, raunverulegs frelsis mannsins, menningar og þjóðfrelsis. Launamenn. sem eiga sér glóð, snúa nú baki við kaupránsflokkunum tveimur. Þessu fólki er ljóst að það er ekkert náttúrulögmál að verðbólgubálið æði af stað vegna þeirra takmörkuðu kauphækkana sem samið var um. Hér hefur verið sýnt fram á að unnt er að vernda kaupmáttinn og veita viðnám gegn verðbólgu í senn ef stjórnvöld vilja. Þessu fólki er líka ljóst að vandinn sem skapaðist við samdrátt þjóðarteknanna er ekki siðferðislegur vandi, spurningin um það hver á að bera byrðarnar. Það er siðlaust að leggja þær á fatlaða, aldraða og öryrkja. Það er til marks um siðferðisstig samfélags hvernig búið er að þeim sem hafa erfiðastar aðstæður. Ríkisstj. hefur sýnt að hún skilur ekki þá staðreynd. Hún hefur ekki skilning á því hvað er siðleysi, því sjálf er hún siðleysið uppmálað. Þess vegna þarf hún að fara frá sem fyrst. Hún er stærsta efnahagsvandamálið á Íslandi um þessar mundir. Hún er reyndar þegar á flótta. Nú er að reka flóttann. — Ég þakka þeim sem hlýddu.