19.06.1985
Neðri deild: 103. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6831 í B-deild Alþingistíðinda. (6133)

129. mál, umferðarlög

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það frv. sem hér er til umr. fjallar ekki um hvort menn eigi að nota öryggisbelti eða ekki. Sá stóri misskilningur virðist vera á ferðinni að menn telji að frv. fjalli um hvort menn eigi að nota öryggisbelti eða ekki. Það er ekkert á dagskrá. (Gripið fram í: Hvaða útúrsnúningar eru þetta?) Ég talaði fyrir því í nál. á sínum tíma sem formaður allshn. að lögleiða bílbeltin. (Gripið fram í.) Og það er í lögum, hv. þm. Stefán Guðmundsson.

Spurningin sem við erum að velta fyrir okkur hérna er spurningin um refsigleði manna. Það er allt önnur spurning. Við refsum mönnum fyrir að vera fullir á almannafæri. Hætta þeir því? Það má vel vera að hv. 4. þm. Norðurl. e. sé hættur að fara yfir á rauðu ljósi vegna þess að í guðs eigin landi kynntist hann því að menn eru sektaðir fyrir slíkt. Ég efa að þetta sé rétt. Mér er skapi næst að ætla að hann álpist yfir götu á rauðu ljósi og ferðist yfirleitt á rauðu.

Mér finnst það dálítið hart, eftir að búið er að taka ákvörðun, sem meiri hl. þm., þó nokkur meiri hl., studdi, um að bílbelti skyldu lögleidd, — og þau eru lögleidd, það er skylda að nota þau, — að menn vilji stilla þessu dæmi þannig upp að sumir séu á móti því að nota bílbelti en aðrir séu með því. Ég kannast ekki við þessa hörðu andstæðinga þess að menn eigi að nota bílbelti. Ég hef ekki orðið var við þá hér í þingsölum. Það er aftur á móti fullyrt í grg., með leyfi forseta:

„Við lokaafgreiðslu laganna var ákveðið að eigi skyldi refsa fyrir brot gegn þeim fyrr en þeirri heildarendurskoðun umferðarlaga, sem hófst í september 1980, lyki.“

Þetta er einfaldlega rangt. Hvar eru sólsetursákvæði í þessum lögum eða fyrirmæli um að menn hafi ákveðið að hafa þetta einhvern tíma? Þetta er einfaldlega alrangt. Það þarf kjark til að setja hreinar lygar í grg. Það var tekin köld ákvörðun um að þetta skyldi lögleitt og látið reyna á hver væri virðing Íslendinga fyrir lögum.

Ég vil, með leyfi forseta, lesa áfram:

„Nú, tæpum þremur árum seinna, er endurskoðuninni ekki lokið og því hefur raunverulegur vilji meiri hl. þáverandi alþm. í þessu máli enn ekki komið til framkvæmda.“

Enn er verið að fara með hrein ósannindi í þessu máli. Vilji meiri hl. alþm. hefur komið til framkvæmda. Hann hefur verið sá að menn eigi að nota bílbelti og ég vil undirstrika það. Þáverandi dómsmrh. var spurður að því í útvarpsviðtali eða sjónvarpsviðtali hvort lögreglan gæti nokkuð gert ef hún mætti manni á bíl og viðkomandi notaði ekki bílbelti. Hann svaraði því til að það bæri að hlýða lögreglunni. Hún gæti gefið fyrirmæli um að maðurinn spennti á sig beltið. Og brot gegn því að hlýða ekki lögreglunni þýðir að hægt er að flytja viðkomandi mann á lögreglustöð í yfirheyrslu. Þetta eru þær heimildir sem eru til staðar í dag. Ég er ekki þeirrar skoðunar að við bætum þetta þjóðfélag með því að gera það að meira lögregluríki en það er.

Þegar neðar á sömu bls. í grg. er enn farið með fullyrðingar sem ég tel engan fót fyrir reynir á mitt langlundargeð. Hér stendur, með leyfi forseta:

„Fullreynt má nú teljast að ekki verði unnt með áróðri og fræðslustarfsemi einni að auka bílbeltanotkun meira en orðið er, en samkv. síðustu talningu lögreglu og umferðarráðs var notkun hér á landi um 27 % hjá ökumönnum og 28% meðal farþega í framsæti.“

Vita þessir menn ekki að þegar slysatíðni á Íslandi hefði átt að vera langmest varð hún minnst. Þegar hægri breytingunni var komið á snarféll slysatíðni á Íslandi í umferðinni. Hvers vegna? Lágu stórkostlegar sektir við því ef menn keyrðu á öfugum vegarkanti? Það var beitt fræðslu. Menn tímdu að leggja peninga í fræðslu. Og árangurinn lét ekki á sér standa. Við náðum umferðarslysunum niður. Það sem hefur gerst á undanförnum árum er það að menn hafa ekki tímt að leggja peninga í fræðslu og þeir bera fulla ábyrgð á þeirri umferðarslysaaukningu sem orðið hefur vegna þess að þeir hafa ekki tímt að leggja peningana í fræðslu.

Ég tel að það sé annað atriði sem menn hafa líka horft fram hjá ef þeir bera saman slysatíðni á Íslandi og á Norðurlöndum. Mér er minnisstætt að þegar við fórum mjög nákvæmlega yfir öll gögn í þessu máli á sínum tíma kom í ljós að væri dregið upp línurit yfir slysatíðni á Norðurlöndum og gert annað línurit yfir slysatíðni á Íslandi og lagt yfir hið fyrra var stórkostlegur munur á þessum tveimur línuritum hvað það snerti að hinir ungu bílstjórar Íslands, 17–24 ára, voru með miklu hærri slysatíðni en á Norðurlöndum. Hvers vegna? Af því að kennslan sem Íslendingarnir hafa fengið er léleg miðað við það sem gert er á Norðurlöndum. Hún er léleg. Það er eina orðið sem er til yfir það. Og alleiðingin er sú að slysatíðnin frá 17 til 24 ára aldurs er miklu meiri hér. Menn eru sem sagt að læra í umferðinni það sem þeir hefðu getað lært áður en þeir fóru að keyra einir og sjálfir. Á þessu máli þarf að taka af fullri alvöru.

Ég tel að það sé ekki jafnvonlaust verk og sumir vilja vera láta að lögregla komi mönnum til að fylgja lögum þó að ekki sé beitt refsiákvæðum. Þeir eru einfaldlega að halda uppi aga í þjóðfélaginu. Allir sem hafa unnið við kennslu vita að þeir þurfa að halda uppi aga. Þeir hafa ekki þann refsirétt að þeir geti heimtað 1000 eða 2000 kr. ef menn mæta of seint. Það er ekki á dagskrá. Það mundi trúlega bæta agann ef þetta yrði upp tekið. Og það er nokkuð athyglisvert að þeir menn sem hafa kannske hið innra með sér fullkomlega meðalskammt af uppreisnareðli hafi einnig ríka þörf fyrir að refsa.

Ég minnist þess þegar ég las þá góðu bók í sálarfræði, Mannþekkingu eða Hagnýta sálarfræði eins og hún hét nú seinna. Þar var greint frá félagsfræðirannsókn sem gerð hefði verið til að fylgjast með því hvenær vasaþjófarnir væru iðnastir við að stela úr vösum manna. Þá kom í ljós að albesta tækifæri sem þeir fengu til að stela úr vösum manna var í mannþyrpingunni þegar verið var að hengja einhvern vasaþjófinn. (HBl: Var þetta fyrir vestan?) Þá stóð allur skarinn í andagt og fylgdist með og það var kjörið tækifæri til að stela úr vösunum. Mér er þetta minnisstætt vegna þess að þetta segir manni stundum hvað refsigleðin skilar sáralitlu.

Ég tel að allir sem vilja horfa opnum augum á það hvenær við höfum náð árangri í því að bæta íslenska umferðarmenningu hljóti að horfa á þá staðreynd hvað okkur tókst vel þegar við skiptum yfir í hægri umferðina. Okkur tókst vel af því að menn lögðu þá fjármuni í þessa hluti. Þá lögðu menn fjármuni í umferðarfræðslu af því að þeir óttuðust „katastrofu“. En í dag eru það patentlausnir sem eiga að duga. Menn vilja ekki setja peninga í þetta. Menn vilja ekki fræðsluna. (SJS: Þvættingur.) Menn vilja fyrst og fremst, hv. 4. þm. Norðurl. e., boða beint og óbeint að það sé ákveðinn hluti þm. sem beri ábyrgð á dauðsföllum sem orðið hafi vegna þess að þeir hafi ekki verið hlynntir því að beita refsiákvæðum varðandi bílbeltanotkun. Með leyfi forseta vil ég lesa þessa aths.:

„Það er hins vegar ástæða til að spyrja nú, hve margir hafi látið lífið í umferðarslysum á þeim tíma, sem liðinn er frá því að tök voru á að samþykkja frv., vegna þess að þeir notuðu ekki bílbelti. Og enn má spyrja: Hve margir verða örkumla ævilangt vegna þessa?"

Það hefur verið grunnatriði í íslenskri lagasmíð og í refsirétti að refsa mönnum fyrir það sem þeir gera á hluta annarra, en refsa mönnum ekki fyrir það sem þeir gera sjálfum sér illt. (SJS: Eru sjálfsvíg lögleg?) Ég hef ekki vitað til að dauðarefsingu væri beitt gegn sjálfsvígum, hv. 4. þm. Norðurl. e., jafnvel ekki í þeim löndum þar sem dauðarefsingu er beitt fyrir morð. Það bendir allt til þess að menn líti það dálítið öðrum augum. Auðvitað geta menn verið svo forstokkaðir í sínum málflutningi að þeim finnist sjálfsagt að refsa mönnum miskunnarlaust fyrir það sem þeir gera á sjálfs sín hlut, en ég vil gera greinarmun á því hvort við erum að refsa mönnum fyrir það sem þeir gera öðrum til bölvunar eða hvort það á að taka upp þá stefnu að refsa mönnum fyrir það sem þeir gera sjálfum sér til bölvunar.

Ég trúi því enn að sú löghlýðni sé til staðar hjá íslenskri þjóð að hægt sé með því að auka umferðarfræðslu að ná miklu betri árangri í þessum efnum en við höfum náð. Ég minnist þess að í fyrravetur í kulda og heldur slæmu veðri — ég held að það hafi örugglega verið í fyrravetur eða veturinn þar á undan — var ljósmyndari að þvælast á stæðinu hjá alþm. og hann var af og til að taka myndir. Ég vissi nú ekki hvað hann væri að gera, en hann var þarna við verstu veðurskilyrði með myndavélina á lofti. Jú, svo kom það í ljós dálitlu seinna hvað hann hafði verið að gera. Hann var að leita þá uppi sem höfðu ekki verið með bílbeltið spennt og tók myndir af þeim og birti til kynningar. (Gripið fram í: Rannsóknarblaðamennska.) Rannsóknarblaðamennska. Hárrétt athugað. Og hann lagði það á sig að vera þarna í kuldanum til að safna þessum myndum saman. En honum datt ekki í hug að birta myndir af þeim sem voru með beltið spennt þrátt fyrir þá staðreynd að það er fordæmið sem skiptir öllu máli. Hann taldi höfuðatriði að koma því á framfæri að þm. spenntu ekki alltaf öryggisbeltin.