19.06.1985
Efri deild: 104. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6845 í B-deild Alþingistíðinda. (6153)

455. mál, nýsköpun í atvinnulífi

Frsm. 1. minni hl. (Eiður Guðnason):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom hjá síðasta ræðumanni, hv. 4. þm. Norðurl. v., er þetta eitt af þremur frv. sem ríkisstj. hefur lagt mjög mikla áherslu á að næðu fram að ganga, þ. e. frv. til l. um þátttöku ríkisins í hlutafélagi til að örva nýsköpun í atvinnulífi o. s. frv.

Hér á landi hefur raunin verið sú í sambandi við fjárhagslega fyrirgreiðslu til atvinnurekstrar og fjárfestingar í atvinnurekstri að þar hafa víða verið við lýði sjálfvirkar reglur sem hafa tryggt lánafyrirgreiðslu hinna hefðbundnu greina. Niðurstaðan hefur því gjarnan orðið sú, þegar upp hefur verið staðið. að miklu fjármagni hefur verið veitt í eitt og annað sem of mikið er kannske þegar fyrir hendi af. Sem dæmi um það má nefna fjárfestingu í landbúnaði, verslunarhúsnæði, skipastól. Þetta fyrirkomulag hefur hins vegar haft þann annmarka að nýjungar, athyglisverðar nýjungar í atvinnurekstri hafa í rauninni hvergi átt heima, þær hafa verið munaðarlausar innan kerfisins. Hitt er svo líka, að lán hafa nánast eingöngu verið veitt gegn fasteignaveðum, það er lánað út á steypuna jafnvel þó að hún sé kannske alkalírotin, þeir sem hafa haft góðar hugmyndir, snjallar hugmyndir til nýrra hluta, hafa ekki fengið neina fjárhagsfyrirgreiðslu nema þeir hafi átt steinsteypu til að leggja að veði. Þetta kerfi er ekki gott, það er staðnað og hvetur ekki til framfara, stuðlar að stöðnun má segja og hindrar framþróun og nýjungar og veldur því að þar sem vaxtarbroddur er í atvinnulífi fær hann ekki að njóta sín með eðlilegum hætti. Úr þessu þarf auðvitað að bæta.

Það verður að viðurkennast að í þessu frv. er gerð tilraun til að mæta þessari þörf. Takist þessi tilraun vel getur þróunarfélag eins og hér um ræðir auðvitað orðið til þess að örva nýsköpun í atvinnulífi og stuðla að því að fjármagn renni til nýstárlegra verkefna sem kannske styðjast öðru fremur við hugvit og þekkingu og þá íslenskra aðila. Hins vegar höfum við þá gagnrýni fram að færa að við sjáum ekki rökin til þess að auka enn á erlendar lántökur eins og gert er ráð fyrir í 4. gr. þessa frv. og gæti orðið. Við erum þeirrar skoðunar að lántökur í þessu sambandi eigi að takmarka við innlenda lánsfjáröflun. Í samræmi við það hef ég flutt brtt. á sérstöku þskj. og mæli með samþykki frv. að þeim brtt. samþykktum.

Fyrsta breytingin er í þá veru að 3. málsl. 1. tölul. orðist þannig:

„Framlag ríkissjóðs skal tekið af fé ríkissjóðs eða af lánsfé sem ríkisstj. skal heimilt að afla ríkissjóði í þessu skyni með innlendri lánsfjáröflun.“

Í öðru lagi segir:

„2. málsl. 2. tl. orðist þannig: Skal heimilt að lána af fé ríkissjóðs eða af lánsfé, sem ríkisstj. skal heimilt að afla með innlendri lánsfjáröflun í því skyni, til greiðslu á allt að helmingi hlutafjárloforða þessara aðila enda séu boðnar fram fullnægjandi tryggingar.“

Og í þriðja lagi orðist 3. tl. svo:

„Að taka lán á innlendum lánsfjármarkaði samtals allt að 200 millj. kr. og endurlána hlutafélagi skv. 1. gr. án sérstakra trygginga til 5–7 ára og að veita ríkisábyrgð fyrir láni eða lánum er hlutafélagið tekur til starfsemi sinnar að fjárhæð samtals allt að 300 millj. kr.“

Þetta eru sem sagt þær brtt. sem við flytjum við frv. en lýsum annars stuðningi við þær hugmyndir sem í því felast.

Ég er alveg sannfærður um að við eigum margra kosta völ í þessum efnum. Það hefur raunar sýnt sig á undanförnum misserum að íslenskir hugvitsmenn, t. d. á sviði tölvufræða og gerðar hugbúnaðar fyrir tölvur, eru fyllilega samkeppnisfærir og geta fyllilega staðið sig. Það skortir hins vegar oft á að þeir geti komið hugmyndum sínum á framfæri með eðlilegum hætti. Það er nefnilega liðin tíð að hráefni eða auðlindir af því tagi sem fiskurinn okkar er eða orkan séu forsenda allra framfara. Mannvitið og menntunin. hugvitið og hugkvæmnin eru ekki síður forsenda þess að við getum tryggt hér bærileg lífskjör í landinu. Þess vegna á auðvitað að hlúa að nýjum hugmyndum. Við stöndum á þröskuldi nýrra tíma. Við stöndum andspænis meiri þjóðfélagsbreytingum en nokkurn tíma hafa átt sér stað frá upphafi vega, frá því að sögur voru fyrst skráðar. Þetta er eitt af þeim skrefum sem við þurfum að stíga til að búa okkur undir að takast á við það sem þessir nýju tímar færa okkur. Við höfum þekkinguna og menntunina en við þurfum að búa þannig um hnútana að þetta geti nýst með eðlilegum hætti.

Það er afskaplega ánægjulegt að lesa það t. d. að rétt rúmlega tvítugir Íslendingar skuli fengnir til þess að flytja fyrirlestra á ráðstefnum erlendis um tölvufræði og gera grein fyrir þeim hugbúnaði sem þeir hafa hannað hér af eigin hyggjuviti. Þetta eru staðreyndir. Um þessar mundir er fjöldi ungra Íslendinga í framhaldsnámi erlendis í þessum fræðum. Varðandi þessa nýju tækni, þá er ég fyrst og fremst að hugsa um örtölvutæknina og það sem henni fylgir, held ég að við höfum kannske að sumu leyti forskot fram yfir sumar Evrópuþjóðir vegna þess að við erum í rauninni á mörkum hins nýja og gamla heims og við höfum tekið við þekkingu í ríkara mæli en a. m. k. ýmsir aðrir, bæði frá Bandaríkjunum og Evrópu. Þess vegna held ég að við séum vel undirbúnir til stórra átaka á þessu sviði. Við höfum fólkið og þekkinguna en fjármagnið hefur vantað og kannske einhverja samræmingu og heildaryfirsýn yfir þetta svið. Það eru ekki stórfyrirtækin sem blakta í þessum efnum. Tölvufyrirtækið sem kennir sig við epli byrjaði nú bara í bílskúr fyrir fáeinum árum, tveir ungir strákar. Og það er ekkert einsdæmi. Það eru fleiri fyrirtæki sem þannig hafa komist á laggirnar en eru núna orðin heimskunn og velta margföldum fjárlögum íslenska ríkisins á ári hverju.

Ég er alveg sannfærður um að við eigum margvíslega möguleika. Við eigum að nýta okkur þá og fara inn á þau svið þar sem við höfum sérþekkingu, eins og í sjávarútvegi þar sem við ættum að geta skotið öðrum ref fyrir rass bæði að því er varðar þessa nýja tölvutækni og kannske líka á sviði líftækni, á ýmsum sviðum. Aðrir eru nú kunnugri því hér en ég. Mér er þó mætavel ljóst að slíkir hlutir gerast ekki á einni nóttu og miklu þarf til að kosta í rannsóknir, grundvallarrannsóknir sem að sumu leyti er kannske erfitt að stunda hér í fámenninu. En engu að síður eigum við að hlúa að þessu og kappkosta að halda í við aðra og helst fara fram úr þeim.

En ég endurtek: þær brtt. sem við gerum við þetta frv. eru eingöngu á þeim forsendum að við teljum að lánsfjárins eigi að afla innanlands en ekki auka erlendar lántökur í þessu skyni, þó að þetta mál sé annars alls góðs maklegt.