19.06.1985
Efri deild: 104. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6853 í B-deild Alþingistíðinda. (6163)

456. mál, Byggðastofnun

Kolbrún Jónsdóttir:

Herra forseti. Ég vil aðeins að fram komi við þessa umr. að ég er þeirrar skoðunar að það sé alveg sama hvar Byggðastofnun rís, miðstýringin er ekkert betri þó að hún komi á Akureyri. Þar af leiðandi er ég ekki meðflm. að þessari till. En fyrst ég er komin hér í stólinn vil ég lýsa ánægju minni yfir ræðu hv. 5. landsk. þm. þar sem hann er farinn að tala um valddreifingu og fylkjastjórnir. Mér finnst mjög gleðilegt að hv. þm. skuli koma með þetta einmitt inn í þessa umræðu og ég gat tekið undir allt sem hann sagði í ræðu sinni hér. Ég vil bara að þetta komi skýrt fram. Ég las einmitt í dagblaði í dag að þetta væri allt bull og þvæla sem kæmi frá Bandalagi jafnaðarmanna, og er kannske ekkert undarlegt, þar sem þar var um hjartans mál hv. 5. landsk. þm. að ræða, útvarpslagafrv. og fékk ég kaldar kveðjur að þeirri umr. lokinni og atkvgr. En ég vildi endilega taka það fram að ég var mjög sammála þessum hv. ræðumanni og ég man varla til þess þann tíma sem ég hef verið hér á þingi að það hafi komið fyrir áður.