19.06.1985
Efri deild: 104. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6854 í B-deild Alþingistíðinda. (6165)

456. mál, Byggðastofnun

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Allir vildu Lilju kveðið hafa, er sagt einhvers staðar. Nú verður sjálfsagt í framtíðinni togast á um það hver hafi verið upphafsmaður eða hver hafi verið upphafsflokkur, hverjir hafi fyrst mælt með því að skipta landinu niður í fylki og kjósa til fylkisstjórna, þ. e. að gera okkar ágæta land að þrem, fjórum eða fimm aðskildum ríkjum sem hefðu yfir sér sérskildar héraðsstjórnir, sem hefðu þó nokkuð mikið vald til að losna undan því ofurvaldi sem sú stóra höfuðborg sem við búum við leggur á landið og þjóðina. En svo furðulegt sem það er kemur þessi umræða oftast nær upp þegar hér sitja ríkisstjórnir sem hafa komið því til leiðar að á landsbyggðinni eru erfiðleikar. Þá er komið með undralausnina. Þá er komið með þá undralausn að skipta skuli landinu í fylki. Það er gert að umræðuefni til þess að draga athygli frá aðalumræðuefninu, því umræðuefni að breyta þyrfti á einhvern annan máta til í þjóðfélaginu. Það er ósköp svipað og umræða fjölmiðlanna hér í vetur. Hún hefur verið aðallega um bjórinn og útvarpið. Okkur hefur verið sagt það gegnum fjölmiðlana að aðalumræðan hér á Alþingi hafi beinst að þessu. Á svipaðan máta fitja þeir, sem vilja forðast að taka ákveðið á málunum, upp á málefni eins og fylkisstjórnum, ræða mikið um þær og telja þær undralausn til að leysa að meginhluta vandamál landsbyggðarinnar.

Það má vel vera að ýmislegt sé hægt að gera og stjórna öðruvísi með fylkjastjórnum. En ég held að það sé ekki sú lausn sem við þurfum á að halda til að leysa núverandi vandamál þjóðfélagsins. Það er margt annað sem við þurfum frekar að hugsa um. Ég er ekki í neinum vafa um það að ef við ætlum að styrkja landsbyggðina þá er þetta ekki aðferðin heldur það að efla sveitarstjórnareiningarnar, sameina þessar litlu einingar í sterkari sveitarstjórnareiningar. Það er vænlegra en að fara að búa til sérstakar héraðsstjórnir yfir því öllu saman.

Einn ágætur forustumaður Austfirðinga, jafnvel kannske einn af þeim sem hafa staðið að þeirri samþykkt sem nefnt var hér í ræðustól áðan að gerð hafi verið á Austfjörðum 1946, lét eftirminnileg orð falla um þessar hugmyndir. Ég ætla ekkert að leyna því hver sá maður var. Það var Bjarni Þórðarson fyrrv. bæjarstjóri og forustumaður á Neskaupstað. Hann sagði: Jú, vont er Reykjavíkurvaldið, verra er Akureyrarvaldið en verst er Egilsstaðavaldið. — Einmitt það vald sem hætt er við að verði til við myndun fylkisstjórna er kannske erfiðast við að eiga. Ég held að menn sem tala um fylkisstjórnir hafi ekki gert sér mjög vel grein fyrir því hvað þeir eru að tala um og hvað þeir ætla að mynda, sáralítið gert sér grein fyrir því.

Sjálfsagt er hugmyndin t. d. á Austfjörðum, fyrst nefndir voru Egilsstaðir, að búa til ákveðna miðstjórnarstofnun á Egilsstöðum. Og það er sjálfsagt gott fyrir Seljavallabóndann — (EgJ: Þú mundir nú ekki tala svona ef þú værir þm. á Austurlandi.) að sækja ýmis ráð til þeirra á Egilsstöðum og sækja sína þjónustu til stjórnstofnunar sem væri sett á Egilsstöðum, stjórnstofnunar sem við gerum okkur engan veginn grein fyrir þegar við erum að tala um uppbyggingu fylkja, hvað gæti orðið stjórn og hvað gæti orðið raunverulega mikið heimavald, mundi velta utan á sig eins og hvert annað stjórnarapparat ekki síður þó það væri staðsett úti um landið heldur en gerist hér í Reykjavík og jafnvel miklu frekar. Ósköp svipað og vandræðalegra mundi jafnvel ástandið verða hjá okkur á Vesturlandi ef við ætluðum að fara að byggja höfuðborg fyrir Vesturland hérna við hliðina á höfuðborg landsins. Við mundum sjálfsagt velja Akranes af því að það er okkar myndarlegasta og traustasta byggð. Til hvers ættum við að fara að stofna sérstakt fylki? Til þess að fara að stofna sérstaka stjórnstöð og stjórnsýslustöð á Akranesi, Vestlendingar? Við getum á ýmsa vegu unnið saman og styrkt okkar stöðu á annan máta en að fara að búa til nýtt stjórnsýslukerfi.

En hitt er það sem við eigum að vinna að og nauðsynlegt er, að stækka sveitarfélögin okkar, stækka þá einingu sem fyrir er í stjórnskipuninni, að sameina þessi litlu sveitarfélög. Við erum að vinna að því t. d. núna á Vesturlandi. Sveitarfélögin undir Jökli, Hellissandur og Ólafsvík, standa í því nú að kanna möguleika á að sameinast. Rætt hefur verið um að það svæði yrði jafnvel stærra, það mundi ná yfir Breiðavíkurhrepp, Staðarsveit og Fróðárhrepp, myndarlegt sterkt sveitarfélag. Það er einmitt markmiðið sem við þurfum að vinna að. Það hefur líka verið rætt um það á Vesturlandi að sameina hreppana í norðanverðri Dalasýslu í eitt sveitarfélag. Ég er á því að það sé það sem við ættum að gera fremur en að vera að velta vöngum yfir því að stofna nýtt stjórnsýslustig, stjórnsýslustig sem við gerum okkur engan veginn grein fyrir hvernig muni reynast og hvernig eigi að byggja upp.

Ég hafði nú gaman af þeim orðaskiptum sem urðu hér hjá hv. 5. landsk. þm. og hv. 8. landsk. þm. Ég vil ekki taka þátt í þeirra óskum hvors til annars, en ég hafði áhuga á því að láta skoðun mína koma í ljós í sambandi við fylkjahugmyndirnar og að hverju þar væri fyrst og fremst verið að stefna og þá undarlegu umræðu sem alltaf kæmi upp í hvert skipti sem hallærisríkisstjórn sæti í landinu og stjórnaði illa fyrir landsbyggðina sérstaklega, þá kæmi þessi hugmynd upp um það að fara að skipta landinu niður í fylki.