19.06.1985
Efri deild: 104. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6863 í B-deild Alþingistíðinda. (6175)

491. mál, framleiðsla og sala á búvörum o.fl.

Frsm. 1. minni hl. (Helgi Seljan):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka samstarf í hv. landbn., þakka hv. 11. landsk. þm. samstarfið þar og forustu hans í þeirri nefnd sem hefur verið með ágætum og ekki upp á að klaga í neinu. Ég sé nú að hv. 11. landsk. þm. er horfinn úr salnum svo að ég geymi mér kannske nokkur orð til hans þangað til á eftir.

Ég hef leyft mér að skila nál. um þetta frv. sem ég sé út af fyrir sig ekki ástæðu til að þylja upp hér. Í byrjun nál. segi ég, með leyfi forseta:

„Landbn. Ed. hefur ekki gefist mikill tími til þess að gaumgæfa þetta mál eða eiga viðræður að gagni við þá mörgu hagsmunaaðila er þetta mál snertir. Veldur þar mestu um sú vinnutilhögun landbn. Nd. að hafa í engu samráð um meðferð frv. við nefnd Ed.

Frv. hefði, svo viðamikið sem það er, þurft mjög nákvæma athugun, ítarlega kynningu og umræðu í þjóðfélaginu, ekki síst meðal bænda, þar sem það fjallar um flest veigamestu atriðin í lífsskilyrðum þeirra og framtíðarstöðu.“

Gengur nú hv. formaður landbn. í salinn og vil ég þá endurtaka þakkir mínar til hans fyrir ánægjulegt samstarf í vetur og ágæta forustu í þessari nefnd og lipurð við okkur í hvívetna eins og hans er von og vísa.

Ég verð nú að segja að ólíkt þótti mér hressilegri og meir sannfærandi ræða hans hér áðan fyrir ágæti þessa frv. en hjá hæstv. landbrh. um daginn, sem flutti þó sitt mál hógværlega og skýrt eins og hann er vanur en ekki með allt of miklum sannfæringarkrafti, því að þó að hv. 11. landsk. þm. segðist ekki ætla að ræða það hver framkvæmd yrði á þessum lögum, þá fór það ekki á milli mála að hann var hrifinn af hugverki sínu og sá fagra framtíðarsýn blasa við í hverri setningu sem hann hafði sett á blað, en lögfræðingar reyndar lagað örlítið til texta hjá honum til þess að betur félli að venjulegu lagamáli.

Ég ætla ekki að fara út í hans ræðu en segi það hins vegar að varðandi landbúnaðarmálin í heild var ræða hans skipuleg og ágæt, fræðandi um leið, og er ágætt að menn fái einstaka sinnum að heyra jafnfróðlegar og yfirgripsmiklar ræður um þessi mál og hv. 11. landsk. þm. flutti hér, þó að ég geti verið honum ósammála um ýmsa hluti en aftur sammála um aðra. Ég ætla t. d. ekki að fara að ræða aðlögunartíma framleiðsluráðslagabreytingarinnar frá 1979 og þá tilhneigingu hv. 11. landsk. þm. að setja ævinlega ofan í við flokksbróður sinn, hv. þm. Pálma Jónsson fyrrv. landbrh., fyrir það hvernig hann hafi staðið að þessum málum, eða kveðjur til samstarfsmanna hv. þm. í Framsfl. sem sigla náttúrlega í kjölfarið. Hann hefur sérstakt lag á að koma því að ævinlega að ekki hafi nú verið vel að verki staðið meðan hann var utangarðs í þessum efnum, en hittir þá fyrir þá ágætu menn sem störfuðu með honum t. d. að samningu þessa frv. og alveg sérstaklega hv. þm. Pálma Jónsson, fyrrv. landbrh., sem ég held að hafi nú komist vel frá sínu verki, hvernig sem hv. 11. landsk. þm. talar um það svona undir rós.

Það væri að vísu full ástæða til að hafa hér uppi langt mál, svo veigamikið sem eðli þessa frv. er, svo afdrifaríkt sem það kann að reynast í framkvæmd íslensks landbúnaðar. Ég hef áður sagt að málatilbúnaður allur í kringum þetta mál sé með nokkrum endemum. Vinnsla fór fram í þröngum hópi stjórnar og þingmanna og þegar það loks lítur dagsins ljós er það eina sem gildir hraðinn, flaustrið og fyrirgangurinn.

Ég hef spurt og spyr enn; Hvað liggur eiginlega á? Formaður þingflokks Framsfl. er greinilega með sömu spurn í huga þegar hann situr hjá við afgreiðslu málsins. Segir það sína sögu um það að honum hefur greinilega verið álíka spurn og mér: Hvað liggur eiginlega á þessu frv.? Eina svarið sem ég hef fengið er í raun frá einum höfunda þessa frv. og hann liggur ekki á sinni skoðun sem er eins og bergmál frá öllum áróðri og andróðri gegn landbúnaði og bændastétt síðustu árin. Það er hv. 4. þm. Reykv. Birgir Ísl. Gunnarsson sem segir orðrétt í DV, með leyfi virðulegs forseta:

„Ef frv. verður ekki samþykkt á þessu þingi heldur sama vitleysan áfram í íslenskum landbúnaði. Áfram verða bullandi útflutningsbætur og engin stjórn á einu eða neinu. Einnig verður ekkert átak gert til að stuðla að nýjum búgreinum eins og frv. gerir ráð fyrir.“ Og í lokin kemur svo hótunin: „Ef þetta frv. dagar uppi núna, þá er ég hræddur um að það líði langur tími áður en nýtt frv. lítur dagsins ljós.“

Hvílík endemis rökleysa er þetta? Ég spyr. Hversu oft hafa frumvörp um mikilvæg málefni verið lögð fram til kynningar að vori og hafa síðan fengið eðlilega umfjöllun og umræður þeirra sem þau snerta sérstaklega og verið tekin til umræðu og afgreiðslu á næsta þingi? Það er í raun hin eðlilega þinglega meðferð, þar sem sjónarmið og viðhorf fá að koma fram við eðlilegar aðstæður og þm. sem aðrir fá hið ákjósanlega tækifæri til að ráðgast sameiginlega um málið og fjalla um það í ljósi þokkalegrar heildarumræðu. Ég skil ekki þennan aðalhöfund þessa frv. og röksemdir hans.

Hv. 11. landsk. þm., annar aðalhöfundur frv., er eflaust sammála, eða er ekki svo, talinu um vitleysuna í íslenskum landbúnaði. En það er í raun allsherjardómurinn sem landbúnaðurinn hefur fengið frá áróðursmeisturum andstæðinga hans. Eða hvað hindrar það að átak sé gert til eflingar nýrra búgreina þó að þetta frv. nái ekki fram? Það er spurning um fjárhagslegan stuðning, almenna stefnu um stýringu fjármagns, kjörin á lánunum o. s. frv., stefnumótun stjórnvalda í þessu efni umfram allt annað og þarf ekki nein ný lög um þetta til þess. En frv. er greinilega frjálshyggjumerkt. Fyrsta skrefið í þá átt og þar með auðskilinn áhugi ýmissa þeirra sem minnst vilja af landbúnaðarvitleysunni vita, eins og það er orðað, að þrýsta þessu máli í gegn.

Frv. sjálft felur í sér allmikla uppstokkun og breytingar. Mér kemur ekki til hugar að segja að ekki sé ýmislegt til bóta og ýmislegt jákvætt. En lausu endarnir eru margir og erfitt að átta sig á hvert stefnir í raun í mörgum greinum. Verðlagningarkerfið er t. d. þrefaldað, nokkuð sem engan veginn er unnt að átta sig á til hvers muni leiða. Sjálfdæmi smásöluverslunarinnar er það eina sem er alveg öruggt, enda í góðum taki við frelsið í álagningunni sem átti að færa mönnum mikla blessun í lækkun vöruverðs, en enginn hefur raunar orðið var við til útgjaldalækkunar á heimilisreikningum sínum.

Í tengslum við frv. sem allsherjar ramma að vinnulöggjöf og hagsmunaframtíð heillar stéttar hefði vitanlega þurft að liggja fyrir úttekt á þýðingu landbúnaðar fyrir þjóðarbú og þjóðarheild. Auðvitað liggja þar fyrir ýmsar tölur, ársverkafjöldi, ársframleiðsla og verðmætamyndun, iðnaðarhlutdeild, þjónustuhlutdeild o. s. frv., en í heildarúttekt, þar sem allt var í samhengi sett þjóðhagslega, atvinnulega og byggðalega, hefðum við haft myndina fyrir okkur sem eina heild þar, ein framleiðsla og arðsemi væru dregnar fram í tengslum við atvinnusköpun og byggðaþróun almennt.

Ein ábending aðeins varðandi áhrif þessa frv. Þurft hefði að liggja fyrir rækileg niðurstaða um áhrif þess fyrir einstakar greinar landbúnaðarins, ekki síst sauðfjárbúskapinn, og áhrif þess á byggð í landinu um leið. Hv. 11. landsk. þm. fullyrti hér áðan að það yrði engin röskun, enginn samdráttur með þessu frv., yrði það samþykkt, á framleiðslu í þeirri grein hér á landi. Þarna stendur að vísu fullyrðing gegn fullyrðingu. Ég á eftir að sjá að framkvæmdin verði slík að þar verði enginn samdráttur. En það er vitanlega til of mikils mælst að slíkir hlutir liggi nákvæmlega fyrir manni þegar svo naumur tími er til stefnu og um að gera að koma frv. í gegn og losna við landbúnaðarvitleysuna sem allra skjótast og endilega áður en bændur geta fengið upprof frá önnum vorsins og athugað málið af gaumgæfni og kynnt sér allar hliðar þess, öll áhrif þess þó fyrst og síðast. Ég hefði viljað sjá í tengslum við svo róttækar breytingar á þessari vinnulöggjöf bænda heildarúttekt á hinni miklu og víðtæku þýðingu landbúnaðarins í íslensku þjóðlífi. En vitanlega má ekki viðhafa slík vinnubrögð, þau tefðu fyrir að losa okkur við landbúnaðarvitleysuna, eins og einn aðalhöfundur orðar það svo ágætlega og eflaust réttilega.

Byggð í landinu er víða viðkvæm um þessar mundir og sveitirnar eru þar vissulega ekki undantekning nema síður væri. Stórfelld röskun og enn frekari samdráttur í sauðfjárbúskap okkar, sem hætta er á, yrði þar helstur orsakavaldur til alvarlegrar röskunar, grisjunar byggðar eða jafnvel eyðingar. Afleiðing þessa frv. hlýtur að koma þar við sögu og óséð um áhrif með öllu.

Ég er ekki hissa á fjarveru fyrrv. landbrh., hv. þm. Pálma Jónssonar frá afgreiðslu þessa máls hér á Alþingi þegar þetta frv. er á leið sinni í gegnum þingið. En hún vekur óneitanlega athygli engu að síður því að byggðaröskun í kjölfar samdráttar í sauðfjárbúskap var eitt meginmálið sem hann varaði við að yrði við allar frekari breytingar í þessum efnum. Þar koma útflutningsbæturnar og skerðing þeirra við sögu og ekki er ég að halda því fram að þar sé um algóða hluti að ræða sem ekki megi hrófla við.

Ég ætla aðeins að rifja það upp að ég man glöggt þá innilegu hneykslan samþingmanna minna eystra á framboðsfundum þar þegar ég taldi að aðlaga yrði framleiðsluna að markaðsaðstæðum svo að útflutningsuppbætur yrðu í framtíðinni sem mest óþarfar. Svo vægt orðalag var af þeim, m. a. hv. 11. landsk. þm., túlkað sem hin illvígasta árás á bændastéttina, óhæfa sem þeim mundi aldrei til hugar koma að nefna, hvað þá að framkvæma, heilagur útflutningsbótaréttur bændum til handa yrði það áfram ef þeir fengju að ráða. Þar yrði allt óbreytt undir þeirra stjórn.

Nú er bleik brugðið og skal ekki efað að höfundar og fylgismenn telja sig vera að gera góða hluti en síður en svo að ráðast með illvígum hætti á bændastéttina eins og hún leggur sig. Vissulega vildi ég sjá framleiðslu okkar í þeim farvegi að þessi ákjósanlegi árásaráróður um útflutningsbæturnar yrði að engu sem hv. 11. landsk. þm. gat réttilega um hér áðan. En ég vildi sjá það með eðlilegri aðlögun. með öflugu markaðsátaki, með eðlilegri sölu búvara hér innanlands. Þar eru ýmsar blikur á lofti og ekki bjart fram undan. Sala dilkakjöts fer minnkandi. Menn eru fljótir að kenna þar um breyttum neysluvenjum sem vissulega eiga einhvern þátt í því. En annað og meira og alvarlegra hefur til komið: Kaupmáttur fólks í landinu annars vegar og niðurgreiðsluþróunin hins vegar. Hana rakti ég rækilega við 1. umr. málsins. Vissulega munar fjölskyldurnar í landinu um 40–50 kr. mun á kjötkílói eða nær 10 kr. mun á mjólkurlítranum, en svo miklu eru þessar vörur nú dýrari en þær voru 1982 þegar niðurgreiðslur voru eðlilegar til hagsbóta fyrir láglaunafólk og barnmargar fjölskyldur.

Í þessu frv. örlar hvergi á neinni stefnumótun varðandi niðurgreiðslur sem þó ráða svo miklu varðandi sölu helstu búvara hér innanlands. Hvergi er að finna í yfirlýsingum með þessu frv. neina stoð varðandi þennan mikilvæga þátt. Hæstv. landbrh. benti réttilega á að við síðustu verðákvörðun búvara 1. júní s. l. hefðu niðurgreiðslur komið í veg fyrir enn frekari hækkun. Engu að síður er mismunurinn nú svipaður því sem ég áðan sagði miðað við verðlag 1982 og sama niðurgreiðsluhlutfall og þá var. Ekki auðveldar þessi stefna vandann og ekki er hún neytendum í hag, þeim sem mest þurfa á að halda, þó að vitnað sé í eitthvert álit svonefndra aðila vinnumarkaðarins þessu til réttlætingar. Það er þá ekki í fyrsta sinn sem þeim skýru mönnum skjöplast.

Óvissan um sölumálin á þessu ári, með ærnum vanda haustsins umfram það sem annars hefði þurft að vera, er mikil og ærið meira umhugsunarefni og viðfangsefni um leið en fjölmargt í þessu frv. sem hér er verið að afgreiða. En í beinu framhaldi af þessu er rétt að huga að því mikilvæga atriði sem snertir samskipti og samvinnu bænda og neytenda. Hefði vissulega þurft að huga að því. Til þess hefði þurft tíma til að sætta ýmsar andstæður en -miklu fremur til að eyða alls konar misskilningi og tilbúnum ágreiningsefnum sem óspart er kynt undir af hinum ýmsu aðilum og við heyrðum reyndar bergmál af á fundi landbn. í morgun.

Í heild eiga þessir hagsmunir að fara saman. Hollustufæða sú sem framleidd er í sveitum er hafin yfir allan efa sem sú besta er fólk á völ á, sem neytendur geta nært sig á. Ef eitthvað er heilsufæði, þá eru það þessar vörur. Atvinnutækifæri þau sem landbúnaður okkar skapar í iðnaði, þjónustu og verslun eru launþegum hin dýrmætustu, arðbær störf fyrir þjóðarbúið um leið, alveg sér í lagi sá margvíslegi fullvinnsluiðnaður sem enn mætti auka og bæta. Þúsundir starfa skapast af þessum ástæðum og allir vita hversu mikilvægt arðbært starf er.

Annað mál er svo að fullvinnsluiðnaður þessi býður upp á óvenjulág laun. Þar eru það aðrir en bændur og launþegar sem arðinn hirða. Um það ættu einmitt þessar stéttir að geta sameinast að hafa sem mestan og bestan sameiginlegan arð af frumframleiðslu og frekari úrvinnslu. Mikil nauðsyn er á því að ná sem allra bestri sátt milli þessara aðila en þetta frv. er því miður ekki til þess fallið.

Andstaða bænda við frv. er mjög víða og afar greinileg meðal þeirra mörgu sem nú búa við óvissu í afkomu, m. a. og sér í lagi vegna orkukjarastefnu ríkisstj. Glöggir menn í bændastétt hafa ekki haft um þetta frv. mjög uppörvandi orð og þarf ekki lengra að leita en til höfðingjans Björns á Löngumýri, sem telur frv. stórhættulegt búendum og byggð, eða þá til þess glöggskyggna manns Eggerts á Þorvaldseyri sem telur frv. mögulegan banabita bændastéttar. Einhvern tíma hefði verið staldrað við og mál skoðuð betur í ljósi þessara orða og annarra. Og ekki er því að heilsa að Neytendasamtökin séu ánægð með frv. Þar eru ærið margar athugasemdir á ferð sem einnig hefði þurft að gaumgæfa og aðlaga sem best að efni frv. þar sem kleift hefði verið. Þannig mætti áfram halda.

Ekki virðast sérgreinafélögin innan landbúnaðarins ýkja hrifin, að ekki sé minnst á auglýsingu frá Félagi alifuglabænda sem birtist í blöðum um s. l. helgi og gat vart verri verið til umsagnar um frv. Maður er farinn að halda að mottó og áhugaefni höfunda hafi verið það að allir væru óánægðir, allir ósáttir og þar með væri frv. gott. Hér virðist allt á eina bók lært.

En geta skal þess sem gert er. Formaður landbn. hefur sýnt okkur ágætan samstarfsvilja svo sem hans var von og vísa. Ég veit gjörla að hann hefur ekki viljað þá hraðafgreiðslu sem hér fer fram í Ed. og er í raun illa sæmandi og ólíkt góðum vinnubrögðum annars hér í hv. deild. Við formanninn, hv. 11. landsk. þm., er síður en svo að sakast um vinnubrögð því að hann hefur greitt fyrir athugun og yfirferð frv. í nefnd svo sem unnt var miðað við málsmeðferð alla sem í heild sinni hlýtur að teljast forkastanleg.

Ég skal svo aðeins tæpa á nokkrum atriðum til að lengja þetta mál mitt ekki um of. Þó að af nógu sé að taka umfram það sem ég hef áður sagt vil ég fullyrða að hið stóraukna vald, sem til rn. og ráðh. er fært, er síður en svo til bóta og hætt við að geðþótti um fjölmörg atriði ráði enn meir en nú er. Ég tæpi aðeins á IV. kafla, ítreka VI. kaflann, VIII. kaflinn og reyndar sá VII. um leið væri athugasemdaefni, en ég skal fara fljótt yfir sögu.

Verðlagningarkerfi búvara er breytt þannig að í stað einnar sex manna nefndar framleiðenda og neytenda koma nú verðlagsnefnd, sem ákveður verð til framleiðenda, og fimm manna nefnd sem ákveður heildsöluverð. Smásala á búvörum er hins vegar sett undir almenn verðlagsákvæði, sem sagt gefin alveg frjáls þar sem verðlagsráði sýnist svo. Þetta er hættulegt því að þarna tapast samanburðurinn sem hægt er að hafa í dag t. d. með því að bera saman í verslunum verð á einstökum afurðum og svo kílóverð í heilum skrokkum, hættulegt vegna þess að búvörur verða þá ekki lengur á sama verði um land allt.

Ég vék nokkuð að atriðum í VI. kaflanum sem hv. 11. landsk. þm. lagði sérstaka áherslu á að væri hið veigamesta og ég dreg ekkert úr að sé það í raun og veru, þ. e. staðgreiðsla til bænda á afurðum þeirra. En ég segi það enn og aftur sem ég sagði við 1. umr. málsins að þó að þarna standi þessi ákvæði í lögum og sé skýrt kveðið á um það að þessar greiðslur skuli inntar af hendi, þá virðist svo sem þetta sé í raun og veru eingöngu á pappírnum. Ég held að það hafi ekki verið að ástæðulausu sem Stéttarsambandið vildi bæta inn ákvæði, glöggu og skýru um það: „Nú er gerður samningur skv. a-lið 30. gr. og ábyrgist ríkissjóður að afurðastöð sé gert kleift að standa við skuldbindingar skv. þessari grein.“ Það er í rökréttu framhaldi af samningi ríkis við bændur um ákveðið magn og verð að ríkið tryggi það alla leið.

Ég veit ekki til þess að nein bindandi yfirlýsing hafi frá neinum komið um það að þetta verði fulltryggt. Bankastjórar hafa hér engu um ansað af eða á, en ég veit að nefnd er að hefja störf og á greinilega ærið verk fyrir höndum. Ég er ekki að segja að þetta muni ekki verða svo, að þessi mál verði færð í betra horf með þessu frv. En ég óttast það að tryggingar séu ekki nægar og í því sem ég heyri frá þeim aðilum sem mest hafa um afurðalánin og fjármögnun þeirra fjallað gætir ekki bjartsýni um að þau mál verði leyst, því hér er fyrst og fremst um það að ræða að fá aukið fjármagn til að gera þessum aðilum kleift að staðgreiða þetta verð.

Ég skal fara fljótt yfir sögu varðandi VII. kaflann, varðandi það hvernig reynt er nú að fara aðrar leiðir að nokkru í stjórnun á landbúnaðarframleiðslunni en áður hefur verið gert. Að vísu er eina tækið sem beint er þarna getið um heimild fyrir allt að 200% kjarnfóðurskatti, sem getur haft áhrif á aðrar greinar en mjólkur- og kindakjötsframleiðsluna, en þá hlýtur í raun og veru að verða spurt varðandi þessa stjórnun: Hvað verður haft til viðmiðunar þegar samið verður um magn? Verður samið til eins árs í senn eða til lengri tíma? Hvað verður gert varðandi svæðisbúmarkið og búmark sbr. b-lið í 30. gr.? Þar tel ég að sé því miður um óútfylltar ávísanir að ræða sem við vitum ekkert um hvernig verða framkvæmdar á nokkurn hátt. Menn verða að svara þeirri spurningu í raun og veru hvort þeir vilja heldur heildarstjórnun landbúnaðarframleiðslunnar eða allt að 200% fóðurbætisskatt. Heildarstjórnun sem byggði á svæðabúmarki og hlaupandi samningum um framleiðslumagn samfara ráðstöfunum sem tryggðu eðlilega samkeppnisstöðu vörutegunda, einkum kjöts.

Ég nefni útflutningsbæturnar einnig og skal ekki hafa mörg orð þar um frekar, en við verðum að gera okkur grein fyrir því að mikill samdráttur er þegar orðinn með tilheyrandi tekjutapi eins og hv. 11. landsk. þm. rakti hér rækilega áðan. Fjárfesting í nýjum atvinnugreinum, hvort sem það er nú loðdýrarækt eða eitthvað annað, t. d. fiskeldi, verður fjármögnuð með minnkandi tekjum þeirra sem eru í hefðbundnum greinum, því miður. Og framlög til ráðstafana skv. 37. gr. verða fyrst lítil en síðan vaxandi, en í raun og veru hefði þetta þurft að vera þá alveg öfugt, eins og reyndar kom fram í máli hv. 11. landsk. þm., að hér þyrfti að gera stórátak þegar í upphafi til þess í raun og veru að skerðing á hinni hefðbundnu framleiðslu yrði sem allra minnst með nýju átaki í nýjum búgreinum.

Ég vil hins vegar taka fram að margt er enn hér sem væri full ástæða til að ræða um á þessu kvöldi. Ég gerði það við 1. umr. svo ítarlega að ég eyði ekki tíma hv. Ed. í að endurtaka mikið af því sem ég sagði þar og ætla mér ekki að standa í karpi um þetta mál í heild sinni. Segja aðeins það að lokum að í nál. mínu segir: „Undirritaður er algerlega andvígur hraðafgreiðslu þessa frv. nú og leggur til að málinu verði vísað til ríkisstj. og henni falið að skipa nefnd allra stjórnmálaflokka sem vinni að nýju frv. og kynningu þess í samráði við helstu hagsmunaaðila. Nýtt frv. þess eðlis verði svo lagt fyrir á næsta Alþingi svo fljótt sem við verður komið.“ Það yrði sómi Alþingis að meiri að snúa sér þannig að þessu stórmáli heldur en afgreiða það með þessum hætti.