08.11.1984
Sameinað þing: 17. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 907 í B-deild Alþingistíðinda. (618)

55. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Ég furða mig á málefnafátækt síðasta ræðumanns sem þurfti að grípa til þess að ráðast á mig persónulega og sem fjmrh. Ég vísa þeim ummælum öllum á bug sem ómerkum og er fyllilega reiðubúinn til þess að bera saman mitt lífshlaup og hv. þm. Guðmundar Einarssonar hvað snertir störf mín fyrir aldraða, fatlaða, einstæða foreldra og íslenska íþróttaæsku og æskumenn yfirleitt. Ég veit ekki til þess að hann hafi komið nálægt neinum slíkum málum eða öðrum góðgerðamálum.

Það er með ólíkindum að hlýða á málflutning stjórnarandstæðinga við þessar umr. Nú, þegar á miklu veltur að landinu sé stjórnað af festu og af ábyrgð, er lagt til að ríkisstj. verði felld með vantrausti og þjóðinni stefnt út í algjöra óvissu um framhaldið. Stjórnarandstaðan hefur þó ekki getað boðið þjóðinni neinn annan kost um stjórn landsins, hvað þá að stjórnarandstaðan hafi boðið almenningi upp á sameiginlega stefnu ef tækist að koma stjórninni frá. Slíkur málatilbúningur, vantraustsumræður sem greinilega hafa það eitt markmið að koma flm. með flutning sinn í Ríkisútvarpið, dæmir sig auðvitað sjálfur.

Sú staðreynd sem stjórnarandstaðan sættir sig ekki við er að núv. ríkisstj. er ríkisstjórn fólksins og fólkið treystir henni. Þegar núv. ríkisstj. tók við völdum í maí 1983 steðjuðu að geigvænleg vandamál á sviði efnahagsmála. Ríkisstj. tók þegar föstum tökum á þeim vanda sem við blasti. Meginorsakir þess vanda voru þær að þjóðartekjur landsmanna höfðu minnkað stórlega án þess að fyrri ríkisstj. tæki í taumana og aðlagaði þjóðarbúskapinn tekjufallinu. Því höfðu safnast gífurlegar erlendar skuldir, viðskiptahallinn var mjög mikill og verðbólga meiri en nokkurn tíma hefur þekkst á Íslandi. Við blasti algjört þrot í atvinnulífinu og þar með stórfellt atvinnuleysi. Einnig blasti við gífurlegur halli á ríkissjóði. Ríkisstj. tók þegar til hendinni og lagði til atlögu við öll þessi vandamál samtímis. Það hefur vissulega kostað fórnir, en árangurinn er kominn í ljós. Sú neyðaráætlun sem Alþb. boðaði fyrir kosningar í fyrra hefur reynst óþörf, þó ástandið væri vissulega slæmt, því stjórnin hefur haft góð tök á málunum.

Fráfarandi ríkisstj. vann gegn fólkinu. Árangur núv. ríkisstj. er góður því hann náðist í samstarfi við fólkið í landinu.

Verk núv. ríkisstj. hafa beinst að tveim meginverkefnum. Hið fyrra var að takast á við þau gífurlegu vandamál sem blöstu við efnahags- og atvinnumálum þegar stjórnin tók við og hið síðara að skapa skilyrði fyrir nýsköpun í íslensku atvinnulífi sem er forsenda þess að hér ríki stöðugleiki í efnahagsmálum og að þjóðin búi við aukna hagsæld. Ríkisstj. hefur því gert ráðstafanir í fjárlögum 1985 sem munu stuðla að uppbyggingu nýrra atvinnutækifæra um langa framtíð.

Verðbólgan í landinu er nú orðin minni en hún hefur verið í meira en áratug. Það er í sjálfu sér meiri kjarabót en margur gerir sér grein fyrir. Þeir kjarasamningar sem gerðir hafa verið að undanförnu setja að vísu nokkuð strik í reikninginn. En þess er þó að vænta að það efnahagslega jafnvægi, sem blasti við að óbreyttu, náist þegar um mitt næsta ár.

Það hefði verið mikið ábyrgðarleysi af ríkisstj. að hlaupa frá þeim vandamálum sem nú steðja að og frá þeim árangri sem náðst hefur. Engar líkur eru á því að ósamstæð ríkisstjórn smáflokka og upplausnarafla geti náð betri árangri en sú stjórn sem nú situr. Hvað sem áróðursmeistarar rauðliða segja til að villa fólki sýn stendur núv. ríkisstj. sterk og samstæð heild sem mun hvergi hopa frá vandamálum líðandi stundar. Með samstöðu ykkar, góðir vinir, sigrum við hvaða stjórnarandstöðu sem ræðst á hagsmuni heildarinnar.

En vitaskuld hefur almenningur í landinu orðið að færa fórnir. Þær fórnir stafa ekki af því að efnahagsstefna ríkisstj. hafi verið röng. Þær fórnir stafa eingöngu af því að þjóðin hefur haft úr minnu að spila en áður. Efnahagsstefna ríkisstj. snýst á hinn bóginn um það að tryggja varanlega hagsæld í landinu til lengri tíma. þannig að kjör allra landsmanna geti batnað. Allir sjá í hendi sér að þegar þjóðin eyðir meiru en hún aflar verður að grípa í taumana. Og þegar tekjur minnka og þjóðin heldur áfram að eyða um efni fram kemur auðvitað að skuldaskilunum. Það var það sem gerðist á síðasta ári.

Þjóðin var að gera upp gamla reikninga og greiða fyrir umframeyðslu undanfarinna ára. Það er mikill misskilningur að halda því fram að barátta ríkisstj. og almennings í landinu við verðbólguna hafi í sjálfu sér haft í för með sér kjaraskerðingu. Það er miklu nær lagi að halda því fram að kjaraskerðing hafi orðið í landinu vegna minnkunar þjóðartekna þrátt fyrir aðgerðir ríkisstj. gegn verðbólgunni.

En þjóðin hefur sýnt það að hún var og er reiðubúin til að takast á við endurreisnarstarfið með ríkisstj. Ríkisstj. var og er ljóst að þjóðin gerir kröfur til stjórnarinnar og ætlast til þess að hún í störfum sínum beri sinn hlut af þeim byrðum sem nauðsynlegar voru og eru til endurreisnar og uppbyggingar efnahagslífs landsmanna. Þetta hefur ríkisstj. gert.

Ríkisstj. hefur tekist að skapa atvinnuvegunum þau skilyrði, þrátt fyrir versnandi ytri aðstæður, að full atvinna er í landinu. Þetta er mikilvægt atriði sem menn verða að hafa í huga þegar rætt er um fórnir í þessu sambandi. Ekkert þeirra ríkja, sem búa við svipað hagkerfi og við Íslendingar og nú státa að nýju af hvað mestum hagvexti. hefur náð því marki án þess að til hafi komið mikið atvinnuleysi.

Ríkisstj. hefur tekist með ráðstöfunum sínum að tryggja kjör lífeyrisþega og annarra sem njóta bóta frá tryggingakerfinu. Enn fremur hefur ríkisstj. í gegnum skattakerfið bætt kjör hinna lægst launuðu. Ríkisstj. hefur aukið framlög til félagsmála, sérstaklega með auknum framlögum til húsbyggingarsjóða ríkisins, og í fjárlagafrv. fyrir 1985 er gert ráð fyrir tvöföldun framlaga til þessara málaflokka.

Ríkisstj. hefur tekist, þrátt fyrir aukin framlög til trygginga og félagsmála, að draga úr heildarumsvifum ríkisins sem hlutfalls af þjóðarframleiðslunni. Ef borinn er saman hlutur ríkisins í þjóðarframleiðslunni á árinu 1983 og í ár kemur í ljós að ríkið tekur rúmlega 1 milljarð kr. minna til sín í ár en var á árinu 1983 þrátt fyrir að þjóðarframleiðslan hafi dregist saman milli áranna. Á næsta ári verður enn stigið skref til að minnka ríkisumsvif, eins og fram kemur í fjárlagafrv. fyrir næsta ár.

Ríkisstj. hefur ekki setið aðgerðarlaus. Hún hefur unnið dyggilega að velferð þjóðarinnar í nútíð og til framtíðar og mun gera það svo lengi sem þjóðin treystir okkur. Sá mikli árangur, sem náðst hefur í að draga úr verðbólgunni á s.l. einu og hálfu ári, hefur skapað heilbrigðan grundvöll fyrir nýsköpun í íslensku atvinnulífi þar sem vinnusemi, framtak og eðlileg arðsemi njóta viðurkenningar.

Í samkomulagi stjórnarflokkanna frá því í sept. s.l. eru settar fram markvissar tillögur til uppstokkunar á núverandi sjóðakerfi og verulegum fjármunum mun verða ráðstafað á árinu 1985 til stórátaka í nýsköpun atvinnufyrirtækja. Þá hefur ríkisstj. tekið ákvörðun um að söluskattur á aðföngum til sjávarútvegsins verði felldur niður. Þetta er ein af fjölmörgum ráðstöfunum sem ríkisstj. hyggst framkvæma til að tryggja rekstrargrundvöll þessa undirstöðuatvinnuvegar þjóðarinnar. Þessi ákvörðun veldur ríkissjóði tekjutapi sem nemur tæpum 4000 millj. kr. á árinu 1985. Ríkissjóði verður ekki bætt þetta tekjutap með auknum sköttum, heldur verður að mæta þessu tekjutapi með lækkun útgjalda. Aðgerðir þessar eru mikilvægt skref í þá átt að auka þjóðartekjur landsmanna á ný, en án þess verður hagur heimilanna í landinu ekki bættur.

Undanfarnar vikur hafa átt sér stað mikil átök í þjóðfélaginu. Þeim er nú sem betur fer lokið með samkomulagi og vinnufriður vonandi tryggður til loka næsta árs. Hitt er annað mál að þeir samningar, sem gerðir hafa verið, fara langt fram úr þeim markmiðum sem ríkisstj. hafði sett sér fyrir næsta ár. Þær launahækkanir, sem um er samið, eru verulega meiri en hægt er að búast við að þjóðarbúskapurinn fái risið undir. Þetta er því miður dapurleg staðreynd og okkur Íslendingum ætlar seint að lærast að sníða stakk eftir vexti. Afleiðingar þessa verða vafalaust þær að verðbólga verður töluvert meiri en ríkisstj. hafði sett sér að markmiði, en þó er von til þess að um mitt næsta ár náist jafnvægi á ný og því starfi verði haldið áfram að koma verðbólgunni niður í það sem hún er í okkar helstu nágranna- og viðskiptalöndum.

Ríkisstj. mun hér eftir sem hingað til kosta kapps um að tryggja og treysta atvinnuöryggið í landinu. Upphafsaðgerðir hennar í fyrra beindust að því að forða fjöldaatvinnuleysi — og það tókst. Stjórnin mun að sjálfsögðu leggja áherslu á að þeir kjarasamningar, sem gerðir hafa verið, kippi ekki stoðunum undan atvinnulífinu og stefni þar með atvinnu fjölda manna í hættu.

En þau átök, sem átt hafa sér stað, leiða einnig hugann að fánýti hefðbundinnar verkfallsbaráttu. Launafólkið, sem þátt tók í verkfallinu, verður lengi að vinna upp tekjutapið, sem verkfallinu fylgdi, og hæpið að það vinnist upp á samningstímanum. Tap þjóðarbúsins og óþægindi alls almennings eru ómæld og kjarasamningarnir, sem knúnir voru fram á endanum, skila fólki í raun ekki meiru en því sem hægt hefði verið að semja um án átaka.

Ég hef ekki hugsað mér að vera langorður um framkvæmd verkfalls opinberra starfsmanna, en vil aðeins segja að óhjákvæmilegt virðist að gera breytingar á þeim lögum sem um þessi mál gilda, m.a. til þess að komast hjá harkalegum deilum um valdsvið t.d. kjaradeilunefndar. Enn fremur tel ég nauðsynlegt að aðilar efli til muna samstarf sín á milli á samningstímanum og miðli upplýsingum til hvers annars. Þannig ætti mönnum að vera ljósari staða hvers aðila þegar að samningum kemur. Það er jafnþýðingarmikið fyrir ríkið sem atvinnurekanda og fyrir önnur atvinnufyrirtækjum að hafa í þjónustu sinni starfsfólk sem er sátt við vinnu sína og þann sem unnið er fyrir. Án þess getur ríkið ekki veitt þá þjónustu sem því er ætlað að veita þegnum þessa lands, og þeir eiga kröfur á.

Stjórnarandstaðan reyndi að gera sér mat úr vinnudeilunum, en mistókst það. Leiðtogar hennar höfðu ekkert jákvætt til málanna að leggja um lausn þessarar deilu og forusta Alþb. getur ekki á heilli sér tekið af óánægju yfir því að deilurnar skuli nú til lykta leiddar með samningum. Oft var þess krafist í nýafstaðinni kjaradeilu að tryggt yrði með nýjum samningum að kaupmáttur launa héldist sá hinn sami og var á seinasta ársfjórðungi 1983. En aldrei, aldrei fóru samningamenn BSRB fram á að fá þann kaupmátt sem var í stjórnartíð Alþb., aldrei. Ég veit að þjóðin hafnar forsjá þessara manna. Þeir hafa áður fengið sín tækifæri og misnotað þau hrottalega. Það mun þessi ríkisstj. ekki gera. Sú vantrauststillaga sem nú er til umr. er dæmigerð fyrir sýndarmennsku stjórnarandstöðunnar og henni ber að hafna.

Góðir áheyrendur. Land okkar, Ísland, er sem hugljúf móðir sem gerir vel við börnin sín. Ungir Íslendingar eru tápmiklir og hraust fólk, verðugir arftakar aldamótakynslóðar, svo enginn þarf að kvíða framtíð þjóðarinnar. Þjóðin nýtur trausts meðal erlendra þjóða. Látum nú ekki fámenna hópa innan hinnar íslensku fjölskyldu sá óánægju meðal okkar. Stöndum vörð um frið innan fjölskyldunnar og göngum saman mót bjartri framtíð undir forustu ríkisstjórnar fólksins. Ég legg til að vantraustið á ríkisstj. verði fellt. Göngum síðan til starfa sátt og glöð. — Ég þakka áheyrnina. Góða nótt.