19.06.1985
Neðri deild: 104. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6891 í B-deild Alþingistíðinda. (6192)

509. mál, veðdeild Búnaðarbanka Íslands

Frsm. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 1348 um frv. til l. um breyt. á lögum nr. 34 frá 1979, um veðdeild Búnaðarbanka Íslands, og þetta er álit fjh.- og viðskn. Nd.

Nefndin hefur athugað frv. og kallað á sinn fund Stefán Pálsson bankastjóra. Nefndin er einhuga í að samþykkja frv. eins og það liggur fyrir á þskj. 958 með breytingu sem flutt er á sérstöku þskj.

Guðrún Agnarsdóttir sat fundi nefndarinnar og er ásátt afgreiðslu málsins.

Undir nál. skrifa Páll Pétursson, Svavar Gestsson, Kjartan Jóhannsson, Þorsteinn Pálsson og Halldór Blöndal.

Breyting sú sem flutt er á sérstöku þskj. er svohljóðandi:

Á eftir 1. gr. komi ný grein er hljóði svo: 1. tölul. 5. gr. laganna orðist svo:

Að veita lán gegn veði í jörðum og hvers konar fasteignum.

Skv. núgildandi lögum er einungis heimilt að veita lán gegn veði í jörðum eða fasteignum sem ætlaðar eru til landbúnaðarstarfa. Það er fellt niður þannig að veðdeild Búnaðarbankans er jafnsett öðrum veðdeildum og getur veitt lán gegn veði í fasteignum, jafnvel þó að þær séu ekki ætlaðar til landbúnaðar.