19.06.1985
Neðri deild: 104. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6893 í B-deild Alþingistíðinda. (6199)

404. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Lítum fyrst á það frv. til l. sem lá fyrir Nd. og nefndinni áður en brtt. kom fram. Ég vildi segja í örfáum orðum álit mitt á því.

Þar er í fyrsta lagi enn þá einu sinni um að ræða orðinn hlut. Við stöndum frammi fyrir orðnum hlut. Það er búið að gera ráð fyrir því hvernig eigi að verja þessum peningum. Að þessu leyti eru þm. í óverjandi aðstöðu.

Í öðru lagi er hérna um að ræða gömlu skuldbreytingaraðferðina. Hún leysir út af fyrir sig aldrei nein vandamál, heldur er hún bara frestun á því að taka á vandamálunum.

Í þriðja lagi vil ég lýsa fyrirvara mínum vegna þess að það er tilhneiging til þess að hækka sífellt veðmörk. Það er svo komið núna að menn eru hættir að tiltaka veðmörk, en gera einungis kröfur til þess að stjórnir sjóða meti hvort veð eru fullnægjandi. Það er náttúrlega afar losaraleg afgreiðsla vegna þess að í þessum tilfellum er ekki um að ræða áhættulánasjóði. Við erum að ræða um sjóði sem skv. upprunalegum lögum sínum eiga að veita lán með tryggum veðum einungis. Það er svo annað mál að auðvitað er ástæða til að hafa í öllum atvinnugreinum áhættulánasjóði, en menn verða þá að sníða þeim ákveðnar starfsreglur.

Af þeim ástæðum sem ég hef lýst hérna, þ. e. að við erum að tala hérna um orðinn hlut, þetta er gamla skuldbreytingaraðferðin og ég hef áhyggjur af sífellt hækkandi veðmörkum, þá get ég ekki greitt málinu atkv.

Brtt. virðist mér tilkomin vegna klúðurs sem sjóðafrv. lendir í. Það verður ekki afgreitt á þessu þingi. Þess vegna standa menn frammi fyrir því að eitthvað þarf að gera vegna fiskeldis. Það er nauðsynlegt að bjarga fiskeldi og beina peningum í uppbyggingu þeirrar atvinnugreinar, en það eru nokkur atriði sem ég vildi minnast á í því sambandi.

Í fyrsta lagi vil ég aftur gera veðin að umtalsefni. Ég vek athygli á því að í brtt. er komist þannig að orði, með leyfi forseta:

„Fiskveiðasjóði er heimilt að veita lán eða ábyrgðir vegna stofnframkvæmda við fiskeldisstöðvar með veði í fasteignum eða gegn ábyrgðum sem stjórn Fiskveiðasjóðs metur fullnægjandi og er hún í þeim efnum óbundin af ákvæðum 11. og 12. gr. laga nr. 44/1976.“

Þessi tilteknu lög, sem hún er óbundin af, gerðu kröfu til þess að lán sem veitt væru gegn veði í öðrum eignum en skipum mættu hæst nema 60% af matsverði. Þarna er sem sagt verið að slaka á veðkröfum. Ég álít að menn verði að fara varlega í það af því að ekki liggur beinlínis fyrir stefnumörkun um að verið sé að setja á fót áhættulánasjóð. Ég vísa þá til þess sem ég sagði áðan.

Ég vildi líka vekja á því athygli að hérna er á vissan hátt verið að læðast bakdyramegin með stefnumarkandi aðgerðir í því hvar fiskeldi eigi að vera staðsett í stjórnkerfinu. Okkur er kunnugt um það og ég held að það sé ekkert leyndarmál að verið hefur togstreita milli landb.- og sjútvrn. T. d. fréttist í vetur um að landbrh. hefði látið semja frv. til l. um fiskeldi sem ýmsum þótti horfa til sauðskinnsskóaaldarinnar. Eftir því sem mér er kunnugt mun vera núna starfandi nefnd á vegum forsrh. sem á að gera tillögur um hvar í stjórnsýslunni fiskeldi eigi heima. Með því að samþykkja þessa brtt. um hlutdeild Fiskveiðasjóðs í fiskeldi er verið að marka ákveðna stefnu — eigum við að segja bakdyramegin. Ég vil vekja athygli á því.

Ég vildi af þessu tilefni, vegna þess að nefnd er starfandi að tilhlutan forsrh., spyrja forsrh. hvort það sé með hans vilja og kannske að hans frumkvæði að þessi brtt. er flutt. Svo vil ég í öðru lagi spyrja hann sem staðgengil hæstv. landbrh. hvort þetta sé með samþykki landbrh. gert. Þar sem landbrh. er ekki á þinginu núna og hæstv. forsrh. er staðgengill hans getur hann þarna slegið tvær flugur í einu höggi.