08.11.1984
Sameinað þing: 17. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 915 í B-deild Alþingistíðinda. (621)

55. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Ég held að það sé ekkert um það að deila að með ráðstöfunum ríkisstj. þegar hún tók við völdum. þá var kjaraskerðingin það harkaleg að í raun og veru gerði hún nær allt launafólk að láglaunafólki. Ég held að það fari heldur ekkert á milli mála að skerðingin hafi verið milli 25 og 30% hvort sem laun voru há eða mjög lág. Það þýðir ekkert fyrir hæstv. forsrh. — og nú nýtur hann þess að hér er ekki sjónvarp — að veifa plaggi hér og í sjónvarpi og byggja málflutning sinn á því að hann dregur línu á röngum stað. Skv. þessu plaggi, sem hæstv. forsrh. flaggaði hér áðan og í sjónvarpi. má sjá að kjaraskerðing er um 8% í tíð fyrrv. ríkisstj., það sem af er því ári, en 27 eftir að tekið er við. Ég get spjallað seinna um þetta við hæstv. forsrh. og er ósmeykur við það.

Það sem af er þessu ári varð nokkurt atvinnuleysi víða um land — á nokkrum stöðum alvarlegt ástand svo að teknir séu staðir eins og Akranes og Selfoss þar sem atvinnuleysi virtist vera viðvarandi. Einnig var mjög minnkandi vinna víða og samdráttur í tekjum, t.d. á Akureyri svo að tekið sé bara eitt dæmi. Aftur á móti var atvinna mjög góð og spenna á vinnumarkaði í Reykjavík og stór-Reykjavíkursvæðinu, sér í lagi á s.l. sumri. Ekki er ég að harma það, öðru nær. En þetta kom þannig út að meginhluti hvers konar verslunar- og þjónustustarfsemi rakaði saman gróða. Fyrir árið 1983 voru nokkur fyrirtæki sem skiluðu yfir 100 millj. kr. hagnaði, m.a. vegna þess að skattareglum fyrirtækja hafði hljóðlega verið hagrætt á þann veg að tekjuskattar þeirra lækkuðu um helming. Sú breyting fór mun hljóðlegar en auglýsingar ríkisstj. um tekjuskattslækkun launafólks.

Byggingarframkvæmdir hafa aldrei verið meiri á stór-Reykjavíkursvæðinu en á þessu ári. Það er alltaf verið að tala um seðlabankabyggingu. Ekki gerist ég talsmaður hennar, en a.m.k. 15 stórhýsi hafa verið í byggingu á stór-Reykjavíkursvæðinu á vegum opinberra aðila. hálfopinberra aðila og auðugra fyrirtækja. Þetta á ekki síst við um fyrirtæki landbúnaðarins, svo að minnt sé nú á orð forsrh. Það er verið að byggja eina stærstu mjólkurstöð á Norðurlöndum og Sláturfélag Suðurlands er að byggja hér hús sem slagar upp í seðlabanka. Íbúðarhúsabyggingar hafa sjaldan verið fleiri á Reykjavíkursvæðinu,-ekkert nema gott um það að segja. en þær hafa verið nokkuð undarlegar. Dregið hefur verið úr fjárveitingum til verkamannabústaða og aldrei hafa menn þurft að bíða lengur eftir húsnæðismálalánum. En á þessum íbúðabyggingum á Reykjavíkursvæðinu er það eftirtektarvert að stórum og dýrum einbýlishúsum hefur fjölgað. Ekki hef ég á móti því að byggð séu fleiri einbýlishús, því verður hver og einn að ráða sjálfur, en það sem athygli vekur er að mjög margir þeirra sem standa í að byggja þessi stóru og dýru einbýlishús eru menn sem skv. skattaframtölum eru algerir öreigar. Stigahlíðarævintýrið var slys þar sem hluti kaupenda voru algerir öreigar skv. skattaframtali. Þetta varð að blaðamáli, en þær eru margar Stigahlíðarnar á Íslandi þótt þær fari hljótt.

Á sama tíma og þessi þróun á sér stað á Reykjavíkursvæðinu hafa íbúðarhúsabyggingar í heilum landshlutum stöðvast og í sjávarplássum með mikla gjaldeyrissköpun hefur jafnvel ekki verið byrjað á einu einasta húsi á þessu ári. Í tugum kaupstaða og kauptúna eru tugir íbúða og húsa til sölu vegna þess að íbúarnir ætla að flytja suður eins og það heitir. Ég heyrði það á miðju sumri að menn töluðu um ákveðna gámakaupstaði og gámakauptún. Ég spurði hvað þetta þýddi. Jú, skilurðu það ekki? sögðu vinir mínir. Þetta eru staðir þar sem 10.–15. hvert hús eru gámar sem fólk er að fylla með búslóð sinni því að það er að flytja „suður“. Þessi þróun er hvorki holl fyrir íslenskt atvinnulíf né stór-Reykjavíkursvæðið.

En fjarri fer því að hjá öllum á Reykjavíkursvæðinu hafi ríkt gullöld og gleðitíð. Mjög margir vinna þar eftir hinum lágu kauptöxtum þar sem með öllu er vonlaust annað en bæði hjónin vinni úti og dugar ekki til. Hins vegar er því ekki að neita að margir, aðallega í verslunargreinum, þjónustu og byggingariðnaði, voru verulega yfirborgaðir meðan aðrir voru á kauptaxta klipptum og skornum.

Það er höfuðlygi að verðbólga hér á landi sé aðeins 15%. Vera má að slíkt megi reikna út eftir sérstökum formúlum sérfræðinga, en verðlag á ýmsum nauðsynjavörum og hvers konar smávörum hefur sífellt farið hækkandi. þannig að almennir kauptaxtar duga verr frá viku til viku. Tíminn leyfir ekki upptalningu í þessum efnum, en vill einhver útskýra það hvernig á því getur staðið að eitt venjulegt tvinnakefli skuli kosta 50 kr., þ.e. 5 þús. kr. skv. gömlu myntinni? Vill einhver halda því fram að þetta sé í samræmi við kaupþróunina í landinu?

Vextir hafa stórhækkað. Þetta bitnar ekki einungis á þeim sem eru að byggja, heldur einnig þeim sem keypt hafa eða byggt íbúðir á undanförnum árum, ekki síst ungu fólki. Yfir þetta fólk hafa hrunið fjárskuldbindingar sem það hefur ekki minnstu möguleika á að standa undir. — Það koma bara gluggaumslög heim til mín. sagði barnið. Ég spyr ykkur öðru fremur, ungt fólk, kannist þið nokkuð við nauðsyn þess að taka lán til að greiða lán? Kannist þið við það að vextir og afborganir hækki sífellt og að því meiri vinnu sem þið leggið á ykkur, því innar komist þið í vítahring skattakerfisins? Kannist þið við misréttið í launamálum, misréttið í skattamálum. þar sem kunningi ykkar lifir flott og er skattlaus meðan þorri ykkar launa fer í skattahítina? Haldið þið að það sé hugsanlegt eitthvert samband milli þeirra sem stinga söluskattinum í eigin vasa og hluta þeirra manna sem byggja stóru og dýru einbýlishúsin? Það er álitið að fjórðungur til fimmtungur söluskattsins fari fram hjá ríkinu. Hann fer ekki til þín, almenni launamaður.

Vitanlega kallar slíkt misrétti á að fólk rísi upp gegn þessu ástandi. Heldur nokkur maður, utan ráðh., að BSRB heyi mánaðarverkfall með algerri samstöðu fólks úr öllum stjórnmálaflokkum ef því ofbyði ekki misréttið og ranglætið í þjóðfélaginu? Það er ekki nóg með að hluti ráðh. í ríkisstj. sé meira og minna í útlöndum, heldur virðast þeir lifa í allt annarri veröld en fólkið í landinu.

Þegar Verkamannasambandið hélt formannafund í júní og gekk frá útlinum í launakröfum sínum var því rækilega lýst yfir af þessu sambandi, sem hefur 25 þús. manns innan sinna vébanda, að allar verðlækkanir yrðu metnar sem kauphækkanir. Við vorum að benda ríkisstj. á að verðlækkanir, skattalækkanir og aðrar slíkar lækkanir yrðu metnar til jafns við hærri laun, en þeir ráðherrar sem heima sátu hlustuðu ekki. Þetta var þeim framandi boðskapur. Röskum mánuði síðar voru allir vextir stórhækkaðir og bankar lýstu því yfir að innheimtuaðgerðir yrðu hertar. Hinn ráðuneytislausi formaður Sjálfstfl., Þorsteinn Pálsson, lýsti því yfir að þetta væri bylting, ein besta aðgerð í sögu peningamála á Íslandi frá landnámstíð. Lélegur byltingarmaður Þorsteinn Pálsson. Byltingin hans bitnaði á launafólki með miklar fjárskuldbindingar og hún bitnaði á útgerð sem á við erfiðleika að etja. Það skal engan undra þó þessi maður vilji verða ráðh.

Í upphafi samningaviðræðna lagði Verkamannasambandið áherslu á að sett yrði þak á gengislækkanir þannig að þær færu ekki fram úr ákveðnu marki á samningstímanum. Við lögðum mjög eindregið til að þar sem vísitala væri afnumin á laun yrðu aðrar vísitölur einnig afnumdar, t.d. lánskjaravísitala, byggingarvísitala og aðrar sjálfvirkar hækkanir í kerfinu, vextir yrðu lækkaðir, sérstakar ráðstafanir gerðar vegna fólks sem hefði miklar fjárskuldbindingar vegna íbúðarhúsnæðis. Við lögðum til að opinberar hækkanir yrðu takmarkaðar við einhverja ákveðna prósentutölu, en yfirleitt hafa ríki og borg verið fyrst til að hækka sína taxta. Ekki síst lögðum við til skattalækkanir á launafólki og við lögðum til verðlækkanir á almennum nauðsynjavörum. Þessar ráðstafanir hefðu ekki aukið verðbólguna, heldur þvert á móti dregið úr henni.

En hvað um þetta tvöfalda launakerfi sem við vildum afnema? Í því fólst að taxtar frá 10 500 kr. á mánuði upp í 12 900 kr. á mánuði yrðu afnumdir, meira að segja afnumdir í áföngum, — ja þvílíkt hneyksli!

En ríkisstj. hlustaði aldrei á nein rök fyrir verðlækkunarleið til kjarabóta fyrr en einhvern tíma um miðjan október að forsrh. og Þorsteinn Pálsson, hinn ráðuneytislausi, buðu fram 1100 millj. kr. skattalækkun án þess að það tilboð hefði verið rætt í ríkisstj. Tíminn til þess að vinna úr þessu tilboði var því mjög skammur og mikið verk að vinna. Þetta átti að bjóða í sumar eftir að Verkamannasambandið hafði sett fram sitt boð. Þá hefði það náð fram að ganga, enda er það sannfæring mín að meiri hluti launþega sé hlynntur skattalækkunarleiðinni. Ríkisstj. ætti ekki að ásaka verkalýðshreyfinguna fyrir verðbólgusamninga. Hún hafnaði öllum verðlækkunarleiðum og valdi sjálf þessa leið og ætlar síðan að nota hina nýju samninga til þess að magna upp gengislækkanir og nota allar hugsanlegar ráðstafanir til að taka allar kauphækkanir til baka og meira til. Hún ætlar sér enn að skerða kaupmáttinn meira en hann hafði verið skertur fyrir þessa samninga.

Virðulegur og réttlátur forseti Alþingis hefur sent mér nótu um að tími minn sé búinn. Að sjálfsögðu hlýði ég réttlátum forseta Alþingis. En ég vil benda á að ríkisstj. er búin að glata trausti hins almenna fólks í landinu. Hún getur þybbast eitthvað við að segja af sér. En ég treysti einhverjum góðum manni til að kenna henni kvæðið sem endar einhvern veginn á þessa leið: Það vinnur aldrei neinn sitt dauðastríð.