08.11.1984
Sameinað þing: 17. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 918 í B-deild Alþingistíðinda. (622)

55. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Undur og stórmerki hafa gerst á Alþingi. Sú sundurlausasta stjórnarandstaða sem hér hefur setið hefur orðið sammála um eitt einasta mál: að flytja vantraust á ríkisstj.

Það er vissulega ástæða til að hvetja áheyrendur til að leggja eyrun við málflutningi stjórnarandstöðunnar af þessu tilefni. Þið hafið nú þegar heyrt gagnrýnina og brigslyrðin í garð ríkisstj. og þeirra flokka sem að henni standa. En það fer minna fyrir útlistunum á þeim ráðum sem stjórnarandstöðuflokkarnir þykjast hafa til lausnar þeim mikla vanda sem við blasir.

En vel að merkja, kemur það nokkuð á óvart? Hver býst í raun og veru við því að Alþb. t.d. geti sett fram heilsteypta stefnu í efnahags- og atvinnumálum? Bandalag þar sem allir logar í illdeilum á milli þeirra sem aðhyllast forsjá ríkisins á öllum sviðum, þjóðnýtingu og samyrkjubú, og hinna sem telja sig lýðræðisjafnaðarmenn. Á milli þessara hópa er hyldýpisgjá sem forusta Alþb. vill ekki og þorir ekki að brúa vegna þess að þá þurfa þeir heiðursmenn að svara spurningum um það hvort Alþb. er kommúnistaflokkur eða bara venjulegur krataflokkur. Þessari grundvallarspurningu þora forustumenn Alþb. ekki að svara vegna þess að ef þeir gera það leysist þetta bandalag, sem ranglega er kennt við alþýðuna, upp í frumeindir sínar og eftir standa sértrúarhópar sem dýrka þá Lenín, Stalín og Trotski. Þetta er ástæðan fyrir því að okkur framsóknarmönnum gekk svo illa að fá Alþb.-menn til að takast á við efnahagsvandann í ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens.

En það eru fleiri sem þykjast hafa góð ráð og telja sig hafa efni á að standa að þessu vantrausti. Við framsóknarmenn áttum hér á árum áður ágæta vopnabræður. Með þeim lögðum við grundvöllinn að því velferðarþjóðfélagi sem Íslendingar búa nú í. Þetta voru baráttuglaðir hugsjónamenn sem vildu að alþýða þessa lands, bændur og verkamenn, tækju höndum saman við að byggja upp atvinnuvegina, vinna bug á atvinnuleysi, gefa börnum alþýðuheimilanna kost á góðri menntun og búa þannig um hnútana að réttur þeirra, sem hefðu lokið langri starfsævi, eða fatlaðra væri ekki fyrir borð borinn. Þessir menn kölluðu sig Alþfl.-menn og voru í flokki sem hét Alþfl. Að mati okkar framsóknarmanna var það allt annar flokkur en sá sem nú flaggar því nafni. Alþfl. dagsins í dag er stefnulaus flokkur óánægjuafla í þjóðfélaginu sem nærist á neikvæðu umtali um menn og málefni. Eru forustumenn slíks flokks líklegir til átaka þegar á reynir? Ég þarf ekki að svara þeirri spurningu. Þjóðin hefur reynsluna frá haustdögunum 1979, þegar Alþfl. hljóp úr ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar.

En það eru fleiri en Alþb. og Alþfl. sem telja sig hafa ráð undir rifi hverju í efnahags- og atvinnumálum. Til sögunnar má telja flokka sem hvor um sig voru stofnaðir í kringum eitt mál og eru í raun og veru ekki stjórnmálaflokkar í venjulegum skilningi þess orðs, þ.e. þeir hafa ekki fullmótaða stefnu í helstu málaflokkum sem komu til kasta Alþingis.

Það var því ekki fýsilegur valkostur fyrir Framsfl. að eiga samvinnu við núv. stjórnarandstöðu um landsstjórnina að afloknum kosningum á seinasta ári. En eftir margra vikna árangurslaust þref við tilraunir til að mynda starfshæfa ríkisstj. hafði hæstv. forsrh., Steingrímur Hermannsson, forgöngu um að mynda samstjórn Framsfl. og Sjálfstfl. Við framsóknarmenn höfum reynslu af samstarfi við Sjálfstfl. og vissum að slíkt samstarf hefur ekki verið vinsælt meðal okkar kjósenda. Svo mikið ber á milli flokkanna. En þegar þjóðarhagur býður og hættuástand er þjóðfélaginu, eins og var vorið 1983, þá erum við framsóknarmenn reiðubúnir að taka þær ákvarðanir og gera þær ráðstafanir sem þarf til varnar því velferðarþjóðfélagi sem við höfum átt stóran þátt í að byggja upp þótt slíkt kynni að valda flokknum tímabundnum óvinsældum. Ástandinu vorið 1983 hefur margoft verið lýst, en sannleikurinn er sá að fólk er furðufljótt að gleyma, eins og nýgerðir kjarasamningar bera með sér. Þess vegna er ástæða til að minna enn þá einu sinni á það hvert stefndi þetta vor.

Stefnuleysi Alþb., neikvæð stjórnarandstaða veturinn 1982–83, kom í veg fyrir að hægt væri að takast á við þann efnahagsvanda, sem upp kom á seinni hluta árs 1982. Afleiðingin varð óðaverðbólga sem náði 130% árshraða á tímabilinu frá febr. til maí 1983. Atvinnuvegir landsmanna stefndu hraðbyri í strand með fjöldaatvinnuleysi sem afleiðingu. Það var undir þessum kringumstæðum sem framsóknarmenn sáu sig knúða að taka höndum saman við Sjálfstfl. og koma í veg fyrir þá hrollvekju sem var í augsýn. Eins og alltaf þegar um samsteypustjórn er að ræða þurfa aðilar að slá af. En það voru þó tvö málefni sem við settum á oddinn: Að verðbólgan yrði kveðin niður og að tryggð yrði full atvinna í landinu. Frá þessu hefur ekki verið hvikað. Verðbólga síðustu 12 mánuði er um 13–14% og atvinnuleysið í ágúst var 0.7% eða það langlægsta í allri Vestur-Evrópu. Þessi árangur ríkisstj. hefur vakið mikla og verðskuldaða athygli heima og heiman.

Á næstu árum er meiri þörf fyrir átak í atvinnumálum en nokkru sinni fyrr. Stærri árgangar ungs fólks koma inn á vinnumarkaðinn en áður. Endurskipuleggja verður atvinnureksturinn til þess að ná fram meiri hagkvæmni þannig að atvinnulífið geti staðið undir launahækkunum án þess að velja þeim út í verðlagið. Við venjulegar aðstæður skapast jafnan mörg ný atvinnutækifæri vegna framtakssemi einstaklinga og fyrir samvinnu þeirra. Svo mun einnig verða nú. Hins vegar þarf að gera svo stórt átak nú að það er engin von að það verði gert án forustu eða þátttöku ríkisvaldsins, ef nauðsynlegur árangur á að nást. Nýjum atvinnugreinum þarf að ýta úr vör og það gerist ekki án margvíslegrar aðstoðar og aðgangs að fjármagni. Til þess að ná þeim lífskjörum, sem Framsfl. telur nauðsynlegt að keppa að, verður mikill hluti nýrra starfa að vera á framleiðslusviðinu.

Við framsóknarmenn vörum við þeirri skoðun að hefðbundnir atvinnuvegir þjóðarinnar bjóði ekki upp á frekari möguleika í sókn til bættra lífskjara. Við Íslendingar erum fyrst og fremst matvælaframleiðendur og höfum sérstöðu á því sviði, bæði hvað varðar hráefni og reynslu. Stórkostlegir möguleikar eru fyrir hendi í vinnslu og markaðsmálum, t.d. með útflutningi í neytendaumbúðum og sölu á ferskum fiski. Stórátak í vinnslu- og sölumálum í matvælaiðnaði ætti að geta orðið álíka lyftistöng fyrir þjóðarbúið og útfærsla landhelginnar á sínum tíma. Þess vegna ber að leggja áherslu á að tengdar greinar. svo sem líftækniiðnaður. þróist samhliða matvælaiðnaði eins og gerst hefur í nágrannalöndum okkar.

Eitt af þeim atriðum í sambandi við nýsköpun í atvinnulífinu, sem nauðsyn ber að athuga sérstaklega að mínu mati, er að afla framleiðsluleyfa fyrir fjölmargar vörutegundir sem nú er fluttar tilbúnar til landsins. Á sama hátt verði kannaðir möguleikar á uppbyggingu samsetningarverksmiðja hér á landi, t.d. í rafeindaiðnaði og jafnvel í bílaiðnaði. Á vegum félmrn. vinnur starfshópur. Honum er ætlað gera úttekt á áhrifum nýrrar tækni á atvinnuvegi landsmanna og leggja á ráðin um það hvernig bregðast eigi við þeim gífurlegu þjóðfélagsbreytingum sem örtölvutæknin leiðir af sér. Við framsóknarmenn erum þeirrar skoðunar að þessi nýja tækni opni smáþjóð eins og okkur margvíslega möguleika sem áður voru lokaðir. Þess vegna eigum við Íslendingar að leggja höfuðáherslu á hagnýtingu þessarar nýju tækni.

Stjórnarandstaðan hefur jafnan upp þann áróður að núv. ríkisstj. hafi það markmið að brjóta niður félagslegar umbætur í landinu. Þessu er slegið fram án þess að rökstuðningur fylgi. Ríkisstj. hefur stóraukið framlög til félagsmála langt umfram það sem áður hefur þekkst. Þetta eru staðreyndir. Ég nefni húsnæðismálin sem hafa verið mikið til umr. hér á Alþingi. Hv. 3. þm. Reykv. Svavar Gestsson skildi þannig við þann málaflokk í fyrrv. ríkisstj. að húsbyggjendur í landinu voru ráðþrota. Vísa ég þar til hins fræga Sigtúnsfundar.

Núv. ríkisstj. varð að byrja á því á miðju ári 1983 að gera sérstakar ráðstafanir til að rétta hlut húsbyggjenda. Milli 500 og 600 millj. kr. var bætt við húsnæðiskerfið 1983 í þessu skyni einu. Ég tel rétt að gefa hér smá sýnishorn af því hvernig þessi mál hafa þróast í samanburði við stjórnarár hv. 3. þm. Reykv., Svavars Gestssonar. Heildarútlán byggingarsjóðanna voru sem hér segir: 1981 398 millj. kr., 1982 633 millj., 1983 1 milljarður 101 millj. og 1984 miðað við 1. okt. s.l. 1 milljarður 315 millj. kr. Hámarkslán til fjögurra manna fjölskyldu 1981 var 129 þús. kr., 1982 205 þús., 1983 583 þús. og 1984 667 þús.

Hver skyldi samanburður á hlutfalli tekna byggingarsjóðanna af ráðstöfunarfé hafa verið, sem talsmenn stjórnarandstöðunnar hafa hrópað að núv ríkisstj. hafi sett í rúst? Ég tek árið 1982, síðasta stjórnarár hv. þm. Svavars Gestssonar. sem dæmi. Framlag ríkissjóðs árið 1982 var 19.2%. 1983 43.4%, tekin lán til sjóðanna 1982 50.8%. 1983 39%. Næsta ár, 1985, hækkar framlag ríkissjóðs um 100% úr 400 millj. í 800 millj. Ráðstöfunarfé sjóðanna 1985 er áætlað 2.2 milljarðar kr. Þessa dagana stendur yfir útborgun lána að fjárhæð 180 millj. kr. og nú er unnið að fjármögnun útlána fyrir desembermánuð n.k.

Annar mikilvægur flokkur félagsmála er málefni fatlaðra. Á allra síðustu árum hafa orðið miklar framfarir í málefnum þeirra. Á þessu ári verða opnaðar 14 nýjar stofnanir fyrir fatlaða og á næsta ári, 1985. koma í rekstur átta nýjar stofnanir til viðbótar. Hér er um að ræða sambýli, þjónustumiðstöðvar, verndaðir vinnustaðir og skammtíma vistun. Ég legg áherslu á þá stefnu að þjónusta og stofnanir fyrir fatlaða verði byggð upp sem næst þeim sem þurfa á þeim að halda. Ríkisstj. er sammála um forgang þessara mála. Fjármagn til málefna fatlaðra hefur margfaldast sem gleggst sést á því að 1982 eru útgjöld félmrn. 7 millj. kr. til þessa málaflokks. Í ár 1984 verða til rekstrar 151 millj. auk þess hefur Framkvæmdasjóður 60 millj. til umráða.

Í fjárlagafrv. ársins 1985 er gert ráð fyrir að til málefna fatlaðra renni 217 millj. til rekstrar og 60 millj. til Framkvæmdasjóðs. Þrátt fyrir þessar staðreyndir segir stjórnarandstaðan að ríkisstj. sýni fötluðum fjandskap og taki ekkert tillit til þeirra sem minnst mega sín í þjóðfélaginu.

Verkefnum Vinnumálaskrifstofunnar hefur fjölgað mjög mikið síðustu misseri, t.d. samfara aðild Íslands að sameiginlegum vinnumarkaði Norðurlanda. Ljóst er því að hana verður að efla enn frekar svo að hún geti sinnt því þjóðfélagslega hlutverki sem henni er ætlað, en það er að stuðla að betri nýtingu mannafla og atvinnutækja í þjóðfélaginu.

Nýafstaðnar kjaradeilur leiða hugann að öðru vinnumarkaðsmáli sem aðilar vinnumarkaðarins verða að hafa frumkvæði og forustu um að ræða og leysa. Það er endurskoðun laga um stéttarfélög og vinnudeildur sem eru frá árinu 1938. Í nútíma þjóðfélagi, sem býr yfir svo mikilli þekkingu á öllum sviðum, hlýtur að vera hægt að koma sér saman um aðrar leiðir til að skipta þjóðartekjunum en með verkföllum sem valda öllum aðilum tjóni. Galli núverandi fyrirkomulags er að mínu mati sá helstur að það leiðir til þess að þeir aðilar, sem eru í betri aðstöðu til að þvinga fram kröfur sínar, fá mest, en hinir, sem eru í raun verst settir í þjóðfélaginu, bera minnst úr býtum og sitja alltaf eftir. Um þetta eru allir sammála. En enginn gerir neitt, í að breyta þessu vitlausa skipulagi. Það er mitt mat að farsælast sé að aðilar vinnumarkaðarins annist sjálfir umbætur á þessari löggjöf sem er svo mikilvæg fyrir heildina.

Herra forseti. Í byrjun sept. s.l. var endurnýjað samkomulag stjórnarflokkanna um aðgerðir í efnahagsog atvinnumálum og um breytingar á stjórnkerfinu. Stefnan var þannig ákveðin og sköpuð umgjörð efnahagsmála fyrir árið 1985 þar sem miðað er við að verðbólga í lok ársins verði ekki yfir 10%, atvinnuöryggi verði tryggt, svigrúm verði skapað til aukinnar framleiðslu, framleiðni og nýsköpunar í atvinnulífinu, m.a. með sérstöku fjármagni, 500 millj., á árinu 1985. Ríkisstj. vinnur að uppstokkun í aðalatvinnugreinum þjóðarinnar, sjávarútvegi og landbúnaði, sem miði að því að styrkja stöðu þeirra, m.a. breytingu á sjóðakerfi þessara atvinnugreina. Uppsafnaður söluskattur í rekstrargjöldum verður endurgreiddur frá næstu áramótum og olíuverð lækkað. Aukin verði fjölbreytni í framleiðslu sjávarútvegs og nýtingu fiskistofna og úrvinnslu aukaafurða í fiskiðnaði. Markaðsleit og markaðsstarfsemi verði stóraukin og samræmd.

Ísland án atvinnuleysis, Ísland án verðbólgu eru tvö mikilvæg verkefni sem ríkisstj. og þjóðin öll þurfa að sameinast um að vinna að. Núv. ríkisstj. hefur sannað það á stuttum valdatíma sínum að hægt er að framkvæma þessi tvö markmið. Þess vegna er fram komin vantrauststillaga tímaskekkja og hrein rökleysa.

Góðir áheyrendur. Ég þakka áheyrnina. Góðar stundir.