08.11.1984
Sameinað þing: 17. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 926 í B-deild Alþingistíðinda. (624)

55. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Ég vil byrja orð mín á því að taka undir orð hæstv. fjmrh., þau skáldlegu orð þegar hann sagði: Látum ekki fámenna hópa sá óánægju meðal vor. Ég er sammála. Þessi ríkisstj. hefur þegar sáð nægilega mikilli óánægju í þessu þjóðfélagi.

Ráðherrar eru loforðaglaðir í kvöld. En halda þeir virkilega að þjóðin viti ekki að stjórnartími þeirra er ekki að hefjast? Hann hófst fyrir rúmu einu og hálfu ári síðan og hann er á góðri leið með að renna út.

Ræða hæstv. forsrh. var táknræn fyrir störf þessarar ríkisstj. Forsrh. hefur engar skoðanir sjálfur að flytja. Nei, hann flytur eingöngu tölur og niðurstöður frá Seðlabanka, Hagstofu og Þjóðhagsstofnun. Þetta eru að vísu merkar upplýsingar en þetta er ekki pólitík.

Herra forseti. Það þótti að vísu létt verk og löðurmannlegt að berja á veslingnum honum Katli skræk. Og það er líklega hverjum manni ljóst að það er í senn létt verk og þá líklega næsta löðurmannlegt fyrir þann vaxandi fjölda stjórnarandstöðumanna, sem hér sitja þing, að lýsa vantrausti sínu á þessari ríkisstjórn, ríkisstjórn sem á skemmri tíma en áður þekkist á dögum lýðveldisins hefur rúið sig trausti almennings og bakað sér óvinsældir sem ná langt út fyrir öll landamæri flokkanna. Það er ekki erfitt að lýsa vantrausti á forsrh., sem segir eitt í dag og annað á morgun eða þýtur til útlanda þegar mest ríður á. Það er ekki erfitt að lýsa vantrausti á fjmrh. sem sýnir þvermóðsku og mannfyrirlitningu í samningamálum og opinberar jafn ljóslega vanþekkingu sína eins og raun ber vitni. Það er ekki erfitt að lýsa vantrausti á félmrh. sem leikur húsbyggjendur og aðra lántaka svo grátt að hundruð heimila standa nú frammi fyrir gjaldþroti. Það er ekki erfitt að lýsa vantrausti á menntmrh. sem ætlar að tengja atvinnulíf, heimili og skóla með þeim hætti að gera fólki ógerlegt að stunda nám, þannig að nemendur verði annaðhvort að fara heim eða út að vinna. Það er ekki erfitt að lýsa vantrausti á heilbr.- og trmrh., sem ætlar að bæta heilbrigði landsmanna með því að gera þeim ókleift, sérstaklega þeim öldruðu, að standa undir læknis- og lyfjakostnaði. En það er engin ástæða til að hafa þessa rullu yfir því að þjóðin veit þetta allt saman mætavel. Og þjóðin hefur þegar fellt sinn dóm. Við erum ekki hér til þess að lýsa yfir vantrausti á íslenska þjóð, heldur til þess að lýsa yfir vantrausti á þá kollsigldu ríkisstjórn sem enn lafir í stjórnartaumunum. Það eru ekki einstakir ráðherrar sem okkur ber að lýsa vantrausti á, heldur ríkisstjórnin öll. Ríkisstjórnin sjálf er reyndar búin að gefa út yfirlýsingu um eigið vantraust. En ríkisstjórnin gengur þeirrar trúar að hún geti bætt sig með því að skipta um ráðherra. Ég fullyrði að það er allt annar vandi sem þessi ríkisstjórn á að glíma við. Íslensk þjóð gerir kröfu til þess að ráðamenn hennar, þing og ríkisstjórn, glími við þann vanda sem þjóðin sjálf býr við.

Þessi ríkisstjórn hefur enn engan vanda leyst. Þótt verðbólgan hafi lækkað hafa atburðir undanfarandi vikna sýnt okkur að stjórnarhættir hennar hafa þvert á móti aukið á vandann. Þegar þessi ríkisstjórn tók við embætti fór enginn í grafgötur um þann efnahagsvanda sem við blasti. Hún leyfði sér samt að stjórna landinu í eitt og hálft ár án þess að hafa neina efnahagsstefnu, ekki einu sinni á pappírnum. Hún gekk á rétt launafólks með valdi og borgaði niður verðbólguna með launum þess. En það fylgdu engar aðgerðir í kjölfarið, engar ráðstafanir til þess að réttlæta þær fórnir sem voru færðar. Þessi ríkisstjórn er eins og aðrar enn að sólunda almannafé í fjárfestingarslys. Þessi ríkisstjórn er enn eins og aðrar að hygla skjólstæðingum sínum. Þessi ríkisstjórn hefur opinberað sig sem andstæðingur þjóðarinnar í kjaramálum. Þessi ríkisstjórn rekur enn þá óbyggðastefnu í landbúnaði, sem ríkt hefur hér í fjölda ára. og stundar enn þá niðurgreiðslur á útflutningi á ofbeit. Þessi ríkisstjórn lítur á verðbólguna sem náttúruöfl. Hvað er að þessari ríkisstjórn? Þessa ríkisstjórn skortir hugmyndaflug, áræði og framkvæmdavilja.

Þeir vinna og þeir tala í raun eins og bókhaldarar í steinrunnu stjórnkerfi, stjórnkerfi sem þekkir ekki eða viðurkennir ekki nema tvenns konar efnahagsaðgerðir, þ.e. sjóðasukk og gengisfellingu. Það hlýtur hverjum manni að vera orðið ljóst að meðan þessu stjórnkerfi verður ekki breytt, þá verða allir, sem við völdum taka, að bókhöldurum og kontóristum þessa kerfis. Stjórnmál eru ekki skrifstofustörf. Stjórnmál eru ekki heldur vísindi. Stjórnmál eru barátta fyrir framkvæmdum og hugsjónum og stjórnmál þarfnast áræðis.

Stjórnarflokkana skortir áræði. Þeir ætla ekki að leggja niður sjóðakerfið. Nei. þeir ætla að steypa öllum sjóðunum í einn. Það er auðveldara að stjórna, það er auðveldara að sinna skrifstofustörfunum þannig. Þeir ætla ekki að selja ríkisbankana. Nei, þeir ætla að sameina þá. Þannig er auðveldara að stjórna þeim úr skrifstofustólnum. Þeir ætla ekki að dreifa valdi til sveitarfélaga. Nei, þeir vildu helst að landið væri allt saman eitt sveitarfélag. Þá væri hægt að stjórna því úr einum skrifstofustól.

Þessi ríkisstjórn starfar ekki á grundvelli hugmynda og hugsjóna. Nei, hún er á kafi í snarreddingum og kemst aldrei til að stjórna. Hvernig er hægt annað en að vantreysta ríkisstjórn sem kemur fram við fólk, talandi eins og kontóristaklíka? Kassinn er tómur. segja þeir. Halda þeir að almenningur viti það ekki að ríkissjóður er aldrei tómur? Halda þeir að almenningur viti það ekki að mestur hluti peninga í þessu þjóðfélagi rennur í gegnum þennan ríkiskassa? Halda þessir menn virkilega að hægt sé að mæla efnahag og efnahagsvanda á tommustokk? Við hverja halda þessir menn að þeir séu að tala?

Herra forseti. Hverjir styðja þessa ríkisstjórn? Eru það stjórnarflokkarnir? Er það Sjálfstæðisflokkurinn? Hvar er þá flokkurinn sem ætlaði að spara og draga saman? Hvar er flokkurinn sem ætlaði að hagræða og spara í rekstri? Hvar er flokkurinn sem ætlaði að draga úr erlendum lántökum? Hvar er flokkurinn sem var kosinn út á þessi mál í síðustu kosningum? Er þessi flokkur enn þá stjórnarflokkur? Styður þessi flokkur enn þá þessa ríkisstjórn? Ég þarf ekki að spyrja að því hvort Framsóknarflokkurinn styðji þessa ríkisstjórn því að flestallir þingmenn hans eru búnir að koma hér í stól á undanförnum vikum og lýsa yfir vantrausti á þessa ríkisstjórn. Þeir hafa gagnrýnt og fordæmt hverja einustu aðgerð hennar síðan í vor.

Verkefni þessarar ríkisstjórnar liggja í hrönnum fyrir fótum hennar. Hvenær ætlar hún að snerta við einhverju þessara verkefna? Það er sama hvert litið er. Alls staðar er hægt að taka til hendinni.

Skattamál hafa mikið verið til umræðu núna á undanförnum vikum og því liggur náttúrlega beint við að benda ríkisstjórninni á það sem verkefni. því að hún virðist ekki hafa séð það. Hvernig væri nú að einfalda skattheimtu, spara í skattheimtu, gera hana einfaldari og ódýrari, t.d. bara með því að afnema þá 15 gjaldaliði sem nú eru greiddir af launum fólks? Þá á ég við tekjuskatt, útsvar. kirkjugarðsgjald, sjúkratryggingagjald, sóknargjald, gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra, slysatryggingagjald atvinnurekenda, lífeyristryggingagjald, atvinnuleysistryggingagjald, launaskatt og vinnueftirlitsgjald. Einnig lífeyrissjóðsiðgjald, stéttarfélagsgjald og framlag í sjúkra- og orlofssjóði. Leggja mætti eitt gjald á öll laun, eitt álagshlutfall. Taka mætti upp staðgreiðslu. Lífeyrisréttindi, áunnin starfsréttindi og réttindi til sjúkragjalds og orlofs og réttur til atvinnuleysisbóta gætu tengst þessu greidda gjaldi, en tilfærslur eins og barnabætur og húsnæðishjálp vegna launþega færu síðan í gegnum tryggingakerfið. Með þessu hyrfu tekjutryggingarvandkvæði og grundvöllur gæti skapast til þess að hafa fast hlutfall milli hæstu og lægstu launa. Heildarinnheimta gæti lækkað sem næmi mismun tilkostnaðar við rekstur gamla og nýja kerfisins.

Fámenn þjóð hefur ekki efni á flóknum leikreglum í fábrotnu efnahagslífi. Við erum ekki að biðja um að þessi ríkisstj. skipti sér meira af hlutunum, heldur minna. Það er ærið verkefni. Það er hart að þurfa að benda þessum mönnum á að stjórnartími er til að stjórna. Úrræðin, sem beita á. eiga að vera tilbúin áður en stjórnarstarf hefst. Það er enginn tími að leita lausna þegar starfið er hafið.

Ég veit að þessi orð eru töluð fyrir daufum eyrum. Ég veit að þessi ríkisstj. mun engu breyta í þessum málum frekar en svo mörgum öðrum sem henni var falið að leysa. Ég veit að þessi ríkisstj. hefur ekki kjark til þess að reyna nýjar leiðir í stjórn efnahagsmála hér á landi. Ég veit að hún þorir ekki að ráðast á skattsvindlið. Ég veit að hún þorir ekki að draga úr íhlutun sinni í líf og hagi fólks. Ég veit að hún þorir ekki að afnema sjóðakerfið. Ég veit að hún þorir ekki að lækka tolla, aðflutningsgjöld eða skatta og reyna þannig einu sinni í sögu íslenskrar þjóðar hvernig íslensk þjóð bregst við bættum kjörum og auknum umráðum yfir eigin fé. Og af því ég veit þetta og af því ég veit að íslensk þjóð veit þetta líka, þá vantreysti ég þessari ríkisstj. Ég styð þessa tillögu um vantraust vegna þess að ég veit að það er hægt að gera betur. Og ég vil að þessi þjóð eignist betri kjör og betra mannlíf en hún býr við nú.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.