19.06.1985
Neðri deild: 105. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6901 í B-deild Alþingistíðinda. (6242)

398. mál, grunnskólar

Frsm. meiri hl. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Eins og fram kemur á nál. á þskj. 1218 leggur meiri hl. n. til að frv. verði fellt. Undir nál. skrifa ásamt mér Hjörleifur Guttormsson, Kristín S. Kvaran, Ólafur G. Einarsson og Birgir Ísl. Gunnarsson. Einn nm., Ólafur Þ. Þórðarson, hefur flutt brtt. við frv. sem hann mun gera grein fyrir.

Það er að vísu rétt að þetta mál er nokkuð umdeilt. Ýmsir halda því fram að það séu sterk rök fyrir því að lengja ekki skólaskylduna upp til 9. bekkjar og færa þau rök fyrir því að á þeim aldri séu ýmsir unglingar þess sinnis að frekari skólaganga verði þeim hvorki til góðs né til mikils þroska og af þeim sökum sé heilbrigðara að stíga ekki það skref til fulls að lengja skólaskylduna eins og gert er ráð fyrir í grunnskólalögum. Ég vil af þessu tilefni vitna til 49. gr. grunnskólalaga, en þar segir m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Fræðslustjóri getur, að höfðu samráði við foreldra eða forráðamenn auk skólastjóra, heimilað nemanda að hverfa frá grunnskólanámi að loknum 8. bekk í allt að eitt ár vegna þátttöku í atvinnulífi, og lýkur nemandi þá grunnskólanámi þeim mun síðar. Heimilt skal að meta þessa þátttöku nemandans í atvinnulífi til jafns við nám í tilteknum valgreinum 9. bekkjar.“

Ég álít að þessi heimild sé alveg nægileg til að tryggja að þeir nemendur sem fráhverfir eru frekari skólagöngu að sinni eigi þess kost að hverfa frá námi og geti þá tekið upp þráðinn að nýju.

Ég vil undirstrika að það hefur mörgum unglingnum orðið hált á því hér áður fyrr að ljúka ekki gagnfræðaskólanámi og nú að ljúka ekki grunnskólanámi þar sem grunnskólaprófið eins og gagnfræðaskólaprófið áður er lykill að ýmsu framhaldsnámi. Ég held af þeim sökum að nauðsynlegt sé að láta á það reyna hversu skólaskyldan reynist, hvort það muni ekki koma í ljós að ýmsir þeir unglingar sem ella hyrfu frá námi setjist á skólabekk og ljúki sínum síðasta vetri með sóma. Ég vil í þessu sambandi vitna til þeirrar reynslu minnar sem kennari að oft varð mikill munur á nemendum einmitt í síðasta bekknum, efsta bekk skólans. Einmitt þegar þangað var komið var það mín reynsla að ýmsir þeir sem kannske voru óstýrilátir áður tóku námið alvarlega og skildu að þeir voru komnir svo langt áleiðis í skólagöngunni að ástæða væri til að söðla um og gefa skólanum meiri gaum en áður. Ég var að vísu á sínum tíma andsnúinn því að taka þá nýbreytni upp að sameina gamla 3. og 4. bekk. Ég hélt því fram að gagnfræðaskólinn hefði þróast til góðs, gagnfræðaprófið nyti meiri virðingar en áður og það hefði komið í ljós á þeim tíma að ýmsir þeir sem dregist höfðu aftur úr notuðu þessa tvo síðustu vetur gagnfræðaskólans mjög vel og næðu ótrúlega miklum þroska á þeim tíma.

Herra forseti. Af þessum sökum er ég þeirrar skoðunar að tími sé kominn til að láta reyna á hversu það gefst að taka upp skólaskylduna allt til 9. bekkjar. Ég vil líka minna á að það er jafnréttismál að nemendur 9. bekkjar fái greiddan kostnað við nám sitt með sama hætti og nemendur í fyrri bekkjum grunnskólans.

Við sem skipum meiri hl. leggjum til að þetta frv. verði fellt.