19.06.1985
Neðri deild: 105. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6903 í B-deild Alþingistíðinda. (6244)

398. mál, grunnskólar

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Hér er mikilsvert mál til umr. Meiri hl. menntmn., sem ég á sæti í, lagði til að frv. það sem hér er rætt yrði fellt, en minni hl., sem hér mælti áðan fyrir sinni till., leggur til að framlengt verði undanþáguákvæði, sem gilt hefur frá ári til árs síðan 1980, um að skólaskylda takmarkist við átta ár í stað níu sem gert var ráð fyrir að yrði meginregla grunnskólalaga eða a. m. k. var það hin upphaflega stefna þegar grunnskólalög voru á undirbúningsstigi.

Ég er eindregið þeirrar skoðunar að tímabært sé og það raunar fyrir alllöngu að taka upp níu ára skólaskyldu. Ég geri mér grein fyrir að um þetta eru deildar meiningar í þjóðfélaginu og meðal skólamanna að einhverju leyti. Hins vegar held ég að það standist ekki, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að það séu nokkuð einhliða viðhorf hjá skólamönnum í þessu efni, en hann gaf til kynna að þeir væru hlynntir aðeins átta ára skólaskyldu.

Ég held að það sé rétt fyrir menn að hafa í huga ákveðið meginatriði í sambandi við þetta mál. Níu ára skólasókn er lögð til grundvallar framhaldsnámi. Þar verða skil á milli skólastiga. Þeir sem ekki hafa lokið níu ára námi eiga ekki inngöngurétt að jafnaði í framhaldsskóla þó að einstaka skólar hafi hleypt nemendum til framhaldsnáms eftir að þeir hafa náð tilteknum aldri. Það hlýtur að vera markmið í hinum almenna grunnskóla að skila nemendum út úr honum þannig að þeir eigi þess kost að taka upp nám á framhaldsskólastigi. Ýmsir skólamenn hafa mælt með því að ekki yrðu settar sérstakar takmarkanir í sambandi við það að hefja framhaldsnám.

Þeir sem andmælt hafa níu ára skólaskyldu, þ. e. að meginregla í sambandi við starf grunnskólans sé níu ára skólaskylda, hafa borið við ýmsum rökum og sum voru tíunduð hér áðan. Ég spyr á móti: Hver telur sig geta dæmt um það að einmitt sé farsælt að draga skil á milli skólaskyldu og sjálfræðis nemenda að loknu átta ára námi og það sé þetta níunda ár sem skeri svo mjög úr í þessum efnum? Ég tel að það sé fjarstæða í rauninni. Það er engin sú breyting á högum nemenda eða aðstæðum sem gerir það eðlilegt að draga skilin þarna. Ég hef ekki heyrt þau rök. Og ég spyr þá sem mæla með þeim: Hvers vegna vilja þeir ekki afnema skólaskylduna sem slíka og aðeins halda uppi fræðsluskyldu? Sá sem flutti þetta frv. inn á Alþingi vildi að vísu stíga þar skref niður á við með skólaskylduna og lækka hana og ég er algerlega andvígur slíkum sjónarmiðum.

Ég færi fram til viðbótar sem rök í þessu máli að það er ekki farsælt fyrir nemendur að standa frammi fyrir því vali, sem löggjafinn hefur veitt til þessa, að hætta grunnskólanámi að átta árum liðnum. Tölur sýna okkur það að það eru nemendur á landsbyggðinni mun frekar en hér á höfuðborgarsvæðinu sem hætta grunnskólanámi að átta árum liðnum af augljósum ástæðum. Ástæðurnar eru meiri freistingar í umhverfinu og minni hvatning í umhverfinu víða úti um landið til þess að ljúka grunnskólanáminu. Það eru freistingar atvinnulífsins og þess að verða fjárhagslega sjálfráða og yfirgefa skólann af þeim sökum og það er að einhverju leyti, geri ég ráð fyrir, minni hvatning frá heimilum gagnvart nemendunum að ljúka grunnskólanáminu og tryggja þar með tengslin við framhaldsskólastigið. Ég þekki mörg dæmi um nemendur, og hef sjálfur verið kennari um árabil úti á landi, sem hafa látið undan þessum freistingum, hafa talið sig hafa ástæður til þess og bera oft við skólaleiða, en sem síðar á lífsleiðinni og það kannske mjög fljótlega taka að naga sig í handarbökin vegna þessarar ákvörðunar þar sem þeir hafa ekki trygg tengst við framhaldsskólann og hika við að setjast á skólabekk eða afla sér þeirrar þekkingar sem á vantar til þess að geta haldið í framhaldsnám sem hugur þeirra kann að stefna að síðar.

Enn eitt atriði í þessu sambandi er kostnaðarhliðin, þ. e. kostnaðarauki fyrir nemendur. Núverandi skipan mála veldur kostnaðarauka fyrir nemendur sem þurfa að leita heiman frá sér til náms og það er nokkuð um það úti um landið að menn eigi ekki völ á að sækja 9. bekk í heimabyggð og þurfa þá að greiða bæði fæðiskostnað og húsnæðiskostnað þar sem þeir stunda nám, og þó að þar komi nokkur styrkur á móti, svonefndur fæðisstyrkur og húsnæðisstyrkur, er langt frá því að hann hrökkvi til að standa undir þessum kostnaði. Einnig þetta atriði hvetur eindregið til þess að ákvæði um níu ára skólaskyldu taki gildi.

Ég gæti nefnt tölur í þessu sambandi varðandi áætlaðan fæðiskostnað og húsnæðiskostnað. Ég nefni hér aðeins dæmi varðandi skólaárið 1982–1983. Miðað við einn mánuð var áætlaður fæðiskostnaður 2700 kr., en fæðisstyrkur í skólum aðeins 525 kr. Þarna munaði um 2200 kr., eins og sjá má, sem nemandi í 9. bekk þurfti að greiða. Áætlaður húsnæðiskostnaður var 1000 kr. á þessu skólaári á mánuði, en húsnæðisstyrkur utan Reykjavíkur 225 kr., í Reykjavík 325 kr. á mánuði, og sér hver sem vill hve langt það nær til að standa undir þessum kostnaði.

Þá vil ég nefna, og skal stytta mál mitt, herra forseti, þó að hér væri ástæða til að tíunda margt í þessu samhengi, hvernig þessum málum er háttað í öðrum löndum. Níu ára skólaskylda er regla á öllum hinum Norðurtöndunum, má ég fullyrða. Ég tel upp lönd með níu ára skólaskyldu. Það eru Danmörk, Finnland, Noregur, Svíþjóð, Vestur-Þýskaland, Írland, Holland, Lúxemborg, Austurríki, Ísrael, Japan og Nýja-Sjáland. Tíu ára skólaskylda: Bandaríkin, Skotland, Frakkland, Kanada, Ástralía, Sovétríkin, Rúmenía. Ellefu ára skólaskylda: Bretland.

Og hvar er svo Ísland statt? Í hópi með hvaða löndum er Ísland statt með átta ára skólaskyldu eins og hér hefur verið undanfarin ár? Það er rétt að menn heyri þann hóp landa. Ísland er þar í hópi efst á blaði og síðan Ítalía, Belgía, Ungverjaland, Portúgal, Spánn og Júgóslavía. Þetta er sá flokkur sem hv. minni hl. menntmn. vill að Íslendingar fylli áfram hvað skólaskyldu snertir. Það eru Miðjarðarhafslöndin nokkur fyrst og fremst sem í þessum hópi eru ásamt Ungverjalandi. Ég er út af fyrir sig ekki að gera lítið úr þessum löndum, sem hafa flest hver verið að reyna að sækja fram í sambandi við almannafræðslu, en þetta segir allt sína sögu.

Og ef menn vilja virða fyrir sér tölur í þessum efnum sjá þeir að það eru fyrst og fremst unglingar á landsbyggðinni sem verða fyrir þeim freistingum sem ákvæðið um aðeins átta ára skólaskyldu hefur veitt. Þó að menn tali hér um frelsi og hlunnindi þeim til handa sem geta tekið slíka ákvörðun er það ákvörðun tekin af ungmennum sem flest hver og mörg hver iðrast þess fyrr en seinna að hafa ekki notið þess sem skólinn hefur að bjóða.

Að lokum þetta, herra forseti: Auðvitað er það svo að fjölmörg atriði varðandi grunnskólann hafa ekki komið til þeirra framkvæmda sem skyldi og lögin gerðu ráð fyrir, því miður. Og það ber vissulega að leggja ríka áherslu á að ákvæði í sambandi við skólastarf, ekki síst á efri hluta grunnskólans, nái fram að ganga eins og lögin gerðu ráð fyrir þegar þau voru sett. Það er m. a. ein ástæða þess að ekki er námsframboð og starf innan skólans við allra hæfi eins og þyrfti að vera. Á þessu þarf að gera leiðréttingu. Ég geri mér grein fyrir því að lögfesting níu ára skólaskyldu er ákveðinn kostnaður, en þar sem ég hef vitneskju um að hæstv. menntmrh. er því fylgjandi að þetta ákvæði nái nú fram að ganga tel ég víst að hæstv. ráðh. hafi stuðning ríkisstj. fyrir því að sá kostnaður sem af gildistökunni leiðir verði ekki hindrun í framkvæmd og bitni jafnt á þeim stofnunum og aðilum, sem þurfa að sjá nemendum jafnt fyrir námsgögnum, sem og þeirri fyrirgreiðslu gagnvart nemendum í sambandi við fæði og húsnæði sem af þessu hlytist.