19.06.1985
Neðri deild: 105. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6915 í B-deild Alþingistíðinda. (6248)

398. mál, grunnskólar

Kristín S. Kvaran:

Virðulegi forseti. Við erum nú að ræða svo mikilvægt mál, sem varðar það hvers lags framtíðarþjóðfélag við byggjum, að ég vildi óska þess að við værum að ræða það að degi til þegar fleiri þm. væru hér þannig að þeir gætu af máli þeirra sem hér taka til máls tekið afstöðu — e. t. v. frekar út frá því. En við því verður ekki gert.

Tilgangur þessa frv. er eins og segir í grg. með frv., með leyfi forseta, „að ákveða skýrt í lögum hver skuli vera skólaskylda barna á Íslandi.“ Það vill svo til, að nú þegar er kveðið skýrt á um það í gildandi lögum að níu ára skólaskylda barna skuli vera hér á landi. Gildistökuákvæði þar að lútandi hefur því miður hins vegar æ ofan í æ verið frestað. Þrátt fyrir það get ég ekki orðið sammála þeim rökum sem fram eru borin með þessu frv. um ágæti þess að fækka skólaskylduárunum niður í sjö. Þar er því hreinlega haldið fram að með því verði það auðveldara fyrir öll börn að fá þörfum og óskum sínum fullnægt og að skólinn verði fyrir öll börn. Ég vil leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa það sem segir um þetta atriði í grg. með frv.:

„Í 1. gr. laga um grunnskóla, svo og þessa frv., er skýrt tekið fram að grunnskólinn skuli vera fyrir öll börn. Með þeirri breytingu sem þetta frv. felur í sér, þ. e. að stytta skólaskyldu um eitt ár frá því sem nú gildir, er gert ráð fyrir að auðveldara verði að nálgast þetta markmið og skapa aukið svigrúm í tveim efstu bekkjum grunnskólans til að koma til móts við þarfir og óskir hvers einstaklings.“

Ég vek athygli á þessu vegna þess að mér finnst nánast að með því að fækka skólaskylduárunum niður í sjö sé verið að halda því fram að það verði auðveldara fyrir öll börn að fá óskum og þörfum sínum fullnægt. Því er ég alls ekki sammála.

Hv. flm. heldur því fram að með því að stytta skólaskylduna en jafnframt að lengja fræðsluskylduna náist fram aukin gæði menntunar með námsframboði við allra hæfi. Ég get ekki skilið hvers vegna ekki megi auka gæði menntunar í skólaskyldunni með því að hafa aukna skólaskyldu alveg eins og aukna fræðsluskyldu. Það er mér alveg fyrirmunað að skilja. Þar fyrir utan skilst mér að þetta gildi þá helst um síðustu tvö árin eða í tveim efstu bekkjum grunnskólans.

Það er áhugavert í þessu sambandi að vekja á því athygli — það er að vísu búið að vitna til þess áður í ræðu annars hv. þm. — að samkvæmt árbók OECD frá 1974 eru aðeins sex önnur lönd í heiminum sem þá eru enn þá með átta ára skólaskyldu. Þau hafa verið talin upp hér og ætla ég ekki að gera það aftur. Fimm lönd hafa þá skylduna styttri en þetta, þ. e. frá fjórum og að sex árum. Frv. miðar sem sagt þá að því að færa okkur nær þessum fimm löndum hvað varðar skólaskyldu. Þessi lönd eru: Thailand með fjögur ár, Indland með fimm ár, Tyrkland með fimm ár, Grikkland með sex ár og Chile með fimm ár.

Öll þau lönd sem við teljum okkur skyldust og eigum hvað mest samskipti við, bæði viðskiptalega og svo eins hvað varðar það að fólk sæki þangað framhaldsnám, hafa níu, tíu og jafnvel ellefu ára skólaskyldu. Þetta finnst mér vera mjög mikilvægt atriði, sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að flestir sem þurfa að sækja framhaldsnám og geta ekki stundað það hér á landi eru háðir því að samræming sé í þessu efni milli heimalands og þess lands sem sækja skal nám í hvað varðar þann grunn sem byggt hefur verið á.

Í mínum huga er ekki að finna neina spurningu um kosti þess að skólaskylda verði níu ár. Í því sambandi nægir að nefna ýmsar skýrslur þar að lútandi. Það er t. d. að nefna hvað tekið er fram þegar um er að ræða hvatningu. Þar sem hvatningu vantar og aðstæður hvetja fremur til þess að nemendur fari út í atvinnulífið, eins og t. d. er sums staðar um að ræða í dreifbýlinu, þá eru það mun fleiri nemendur sem hætta námi að afloknum 8. bekk en gerist á þéttbýlissvæðum þar sem hvatning til náms er oft og tíðum meiri og möguleiki á atvinnuþátttöku er alls ekki jafnríkur.

Þar að auki er þetta lágmarksmenntun sem til þarf fyrir allt framhaldsnám í landinu og því ber brýna nauðsyn til þess að sem flestir ljúki 9. bekk. Ég álít það vera grundvallar- og undirstöðuatriði að unglingar séu á þennan hátt hvattir til náms og ég vil tala um það fremur sem hvatningu en þvingun, eins og sumir hv. þm. kjósa að nefna það, þegar sett er á skólaskylda fram yfir 9. bekk, vegna þess að ég tel að með því jöfnum við aðstæður sem m. a. eru mjög ójafnar og skapast vegna búsetu. Þær ástæður hafa verið raktar hér af öðrum og skal ég ekki fjölyrða um þær. Auk þess fer atvinnutækifærum mjög fækkandi í því framtíðarþjóðfélagi sem við stefnum hraðbyri inn í, sérstaklega fyrir þá sem litla og fábrotna menntun hafa. Ég vil sérstaklega taka fram að í þessu framtíðarþjóðfélagi sem alltaf er verið að tala um er alveg ljóst að þarf þekkingu og færni sem fæst með aukinni menntun þó vissulega komi þar einnig til reynsla í atvinnulífi.

Ég tel ekki að nemendur séu neitt færari um að taka ákvörðun né að þeir séu meira eða minna þvingaðri hvort sem það er árinu fyrr eða seinna sem skólaskyldu lýkur. Og ég get ekki ímyndað mér að það besta eða versta í hverjum nemanda laðist fremur fram, eins og mátti skilja á máli hv. flm., við það að hafa sjö ára skólaskyldu, eins og helst var að heyra.

Að mínu mati er það samræmingin við önnur lönd sem gildir og vegur hvað mest í þessu máli. Og ég verð að segja að ég er fegin að fregna að menntmrh. ætli sér að hrinda níu ára skólaskyldu í framkvæmd. Það má vera að það megi að einhverju leyti finna að því hvernig að var staðið að tilkynna að til stæði að hrinda níu ára skólaskyldu í framkvæmd, eins og kom fram í máli hv. flm., en ég verð að segja að ég er sammála hæstv. ráðh. um að það væri virkilegt spor aftur á bak að samþykkja þetta frv. eins og það liggur hér fyrir. Ég vil hvetja til þess að fjárveiting verði, ef hún reynist ekki vera næg nú þegar í fjárlagafrv., stórlega efld og veitt strax fé til þessa verkefnis.

Ég vil að endingu vitna, með leyfi forseta, í orð Rósu Eggertsdóttur, sem um þessi mál hefur skrifað, og gera þau að orðum mínum. En hún segir:

„Ég ítreka þá skoðun mína að 9. bekk eigi að gera að skólaskyldu, að kennarar og skólastjórnendur eigi og verði að endurmeta starf sitt og það markmið sem starfið á að beinast að, að við breytum skólunum í þá veru að áhersla verði fyrst og síðast lögð á mannræki, að við látum okkur alla nemendur skipta, hvaðan sem þeir koma, hvernig sem þeir eru og hvert sem þeir kunna að stefna.“