08.11.1984
Sameinað þing: 17. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 929 í B-deild Alþingistíðinda. (625)

55. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Fjölfróður maður, Stefán Benediksson, en ekki óskeikull.

Ósköp hafði það undarleg áhrif og dapurleg á mig að heyra Kjartan Jóhannsson, núv. formann Alþfl., tala um að einhverjir aðrir séu gjörsamlega trausti rúnir. Svavar Gestsson ber fram vantraust á ríkisstj. á ýmsum forsendum sem hann býr sér til og þuldi hér upp áðan fyrir hlustendur. Það er sama hvenær Svavar formaður Alþb. gerir gagnrýnishróp að öðrum. Allt hittir það hann sjálfan fyrir.

Hann,gagnrýnir núv. ríkisstj. fyrir erlenda skuldasöfnun. í ríkisstjórnartíð hans hækkaði hlutfall erlendra skulda úr 30% af þjóðarframleiðslu í 60% og má heita óbreytt síðan formaðurinn hraktist úr stjórn.

Alþb.-formaðurinn minntist á skattaálögur núv. ríkisstj. Í hans stjórnartíð hækkuðu skattar um 11 þús. kr. á hvert mannsbarn sem lífsanda dró í landinu.

Heyrði ég rétt að verðbólgupostuli Alþb. minntist á skort á jafnvægi í peningamálum nú? Tölur eru til um það að í hans stjórnartíð hafi erlendur gjaldeyrir hækkað fimmfalt.

Var Svavar formaður Alþb. að ræða um að núv. ríkisstj. rændi launþega kaupmætti þeirra? Hvernig tókst honum til þegar hann stjórnaði landinu með Hjörleifi og Ragnari Arnalds? Fjórtán sinnum krukkuðu þeir í kaup launþega, þrisvar sinnum 1979, fjórum sinnum 1980, þrisvar sinnum 1981 og fjórum sinnum 1982. Samtals skertu þessir herrar kaup launþega um nær 50% með þessum aðgerðum sínum.

Var Svavar Gestsson að tala um háa vexti? Hvernig lék hann og félagi hans Ragnar Arnalds sparifjáreigendur í landsstjórnartíð sinni? Ég hef ekki tölur fyrir ríkisstjórnarár þeirra út af fyrir sig, en á tímabilinu 1972–1980 er talið að sparifjáreigendur hafi verið rændir um 2 340 millj. kr. með þeirri vaxtapólitík sem þá var rekin.

Hvert var það stefnuskráratriði sem allir flokkar og flokksbrot settu öllu öðru ofar í síðustu alþingiskosningum? Allir sem einn lýstu þeir yfir því sem grundvallarstefnu að vinna bug á verðbólgunni, ella væri allt annað unnið fyrir gýg. Hvað er orðið um þessi kosningaloforð stjórnarandstöðustóðsins, Kvennalista, BJ, Alþfl. og Alþb.? Nú eru þeir svardagar allir grafnir og gleymdir.

Alþb.-formaðurinn taldi að landið hefði rétt einu sinni verið selt með gerðum samningum um álverið í Straumsvík. Í Ed. kom í dag til 1. umr. nýr samningur við Svisslendinga um álverið í Straumsvík. Með þeim samningi er ákveðið að orkuverð hækki tvöfalt að lágmarki og þrefalt að hámarki. Sérfræðingar telja að samningurinn muni gefa í aðra hönd að meðaltali 500 millj. kr. á ári eða 2 500 millj. kr. á næstu fimm árum. Ef þessi samningur hefði gilt fimm ár Alþb. í ríkisstj., sem fór með forsvar í orkumálum, hefði hann gefið okkur 1 800 millj. kr. aukalega. 1 800 millj. kr. fyrir utan vexti er reikningurinn sem íslenska þjóðin þarf að senda Alþb. fyrir hina körgu kreddumennsku sem það beitti í málinu og stefndi í algjöra sjálfheldu.

Bráðabirgðasamningurinn um orkuverð til stóriðjunnar frá því í sept. í fyrra gjörbreytti orkuverðsmyndun til almennings. Orkuverð hefur haldist óbreytt frá 1. ágúst 1983. Hinn 1. ágúst 1984 hafði raungildi orkuverðsins skv. framfærsluvísitölu lækkað um tæp 16%. Áfram verður stefnt að lækkun orkuverðsins til almennings og markið sett á lækkun um fjórðung þótt hinir nýju verðbólgusamningar Alþb. séu vissulega ljón á veginum. Að endurskipulagningu orkumála er nú unnið í hagkvæmni- og sparnaðarskyni svo og úttekt á rekstri ríkisfyrirtækja og lætur árangur ekki á sér standa.

Í tíð fyrrv. ríkisstj. voru öll fyrirtæki sem heyra undir iðnrn. rekin með bullandi tapi. T.d. stefndi Landsvirkjun í 400 millj. kr. taprekstur á síðasta ári, og öllu var alltaf mætt með erlendum lántökum, svo og vegna ýmissa verkefna sem hér verða ekki talin upp, þar sem beisla átti íslenska hugvitið, eins og það þá var nefnt. Öllu slíku verður miskunnarlaust hætt ef úttektir sýna að ekki skili arði. Það er meginstefna að ríkið sé ekki að vasast í atvinnurekstri nema tímabundið til að hindra atvinnuleysi. Þess vegna er unnið fullum fetum að sölu ríkisfyrirtækja með góðum árangri.

Um stöðu iðnaðar er það að segja að hagur hans hefur farið batnandi hin síðari misseri, framleiðsla og framleiðni aukist, atvinnutækifærum fjölgað og framfarir orðið á flestum sviðum. Í undirbúningi er stórátak í markaðsmálum og vöruþróun og til þess ætlaðir fjármunir í mjög auknum mæli. Ríkisstj. vinnur nú að því að skoða allar aðstæður eftir gerð nýrra kjarasamninga. Enn einu sinni hafa verið gerðir verðbólgusamningar. Flestir hefðu eftir á sjálfsagt kosið að samningagerðin hefði verið með öðrum hætti og leið skattalækkana valin í stað stórfelldra launahækkana, sem menn óttast nú að muni síður en svo leiða til varanlegra kjarabóta, nema ríkisvaldið geti fundið leiðir til að draga úr verðlagshækkunum og tryggja með þeim hætti kaupmátt launa.

Víst skal það játað að það voru djarfar ráðstafanir sem ríkisstj. gerði í fyrrasumar. En hitt verða menn líka að játa að þær báru þann tilætlaða árangur að ná tökum á verðbólguþróuninni. Nú skal ég gera þá játningu að ríkisstj. varð of sein til á þessu ári að átta sig á því að boginn var of þaninn. Hitt játa ég hins vegar ekki, að allur árangurinn í slagnum við verðbólguna sé runninn út í sandinn. Þvert á móti er enn unnt að tryggja í senn velfarnað og stöðugleika í fjármálum og atvinnumálum, en þó því aðeins að stjórnvöld sýni þá dirfsku sem til þarf. En um þau úrræði er nú einmitt fjallað í ríkisstj. og stjórnarflokkum.

Þessar hugmyndir eru ekki alveg nýjar þótt þær séu djarfar. Þannig markaði þingflokkur Sjálfstfl. mjög ítarlega stefnu í efnahags- og atvinnumálum í febrúarmánuði 1981 eftir brbl. frægu þá, um áramótin. Menn komust að þeirri niðurstöðu að ríkið yrði að vera þátttakandi í baráttu gegn verðbólgu því að atvinnuvegirnir og alþýða gæti ekki án aðstoðar ríkisins tekið á sig þær byrðar sem væru samfara því að koma verðbólgunni á viðunandi stig.

Við sjálfstæðismenn sögðum þá að ríkið yrði að slaka á klónni, það yrði að létta skattheimtu bæði að því er varðaði beina skatta og ekki síður neysluskattana, sem ætíð hefði verið úrræðið til þess að rétta við fjárhag ríkisins, og rýra þau kjör sem samið hafði verið um í frjálsum samningum, að ógleymdri allri vísitölufölsuninni þar sem allar þær vörur voru teknar út sem ekki voru þungar í vísitölugrunninum og á þær hlaðið stanslausum sköttum.

Við stjórnarmyndunina í fyrra var ákveðið að fyrsti liður í svokölluðum mildandi aðgerðum ætti að vera sá að lækka verulega tolla og skatta á brýnustu lífsnauðsynjar heimilanna til að vega upp að nokkru óhjákvæmilegar kjaraskerðingar. Því miður var þetta aðeins gert í litlum mæli, allt of litlum skal ég játa, því að nú fyrr á þessu ári hefði einmitt átt að grípa til þessa úrræðis í samráði við launþegasamtökin til að hindra að knúðar yrðu fram allt of miklar launahækkanir.

Sjálfsagt þýðir ekkert að loka augunum fyrir því að gengi krónunnar er fallið, og það verulega, ef ekki verða gerðar víðtækar ráðstafanir til að hindra að kauphækkanir fari viðstöðulaust út í verðlagið. En áhrif nauðsynlegrar gengisbreytingar má að sjálfsögðu vega upp að verulegu leyti með niðurfellingu vörugjalda og lækkun tolla, þannig að innflutt vara þurfi lítið að hækka, og þá einkum brýnustu nauðsynjavörur sem nú eru mjög hátt tollaðar. Mjög æskilegt væri að þessi breyting gæti tekið gildi fljótt, t.a.m. um næstu áramót, og jafnframt yrði af fremsta megni spyrnt við hækkunum á þjónustu og vöruverði til þess tíma þegar lækkanir yrðu að veruleika.

Ekki yrði komist hjá því að vextir yrðu hér á landi eitthvað sambærilegir við það sem gerist í nágrannalöndunum, enda ber brýnustu nauðsyn til að auka innlendan sparnað. Og auðvitað ljá menn ekki fjármuni sína til annarra án þess að fá sanngjarnt endurgjald fyrir.

Nú segja menn sjálfsagt að veruleg hækkun á neyslusköttum til að hamla gegn verðhækkunum mundi leiða til halla á fjárlögum og vera má að hann yrði einhver. En ég hygg þó að of mikið sé úr þessu gert. En jafnvel þótt einhver halli yrði á fjárlögum er það engin goðgá þegar verið er að vinna bug á þeim skaðvænlega sjúkdómi sem verðbólgan er. Þennan halla á að vega upp með inniendum lántökum og það ætti að reynast auðvelt þegar sparnaður eykst og hagur atvinnuvega og heimilanna batnar.

Enn er þess að gæta að nú er ákveðið að taka upp virðisaukaskatt í stað söluskatts. Það er með virðisaukaskattinn eins og önnur mannanna verk að hann hefur vissulega sína ágalla. Kostirnir eru þó miklu meiri, enda er hann nú fyrir alllöngu kominn í stað söluskatts í nágrannalöndum okkar. Virðisaukaskattur mundi leggjast á fleiri vörutegundir og þjónustu en söluskatturinn gerir, en verða miklum mun lægri prósentutala. En þar að auki er um að ræða að vissu marki sjálfvirkt aðhald að skattgreiðslunum því að einn skattgreiðandinn gætir annars, ef svo má að orði kveða. þar sem skatturinn leggst einungis á verðmætisaukningu á hverju vinnslu- og þróunarstigi.

Gegn hvers konar skattsvikum verður snúist af alefli. Eins og ég sagði áðan eru öll þessi atriði nú rædd í stjórnarflokkunum og má vænta þess að ekki muni líða á löngu þar til heilsteyptar tillögur koma fram. Vissulega er hér um djarfar áætlanir að ræða. en fyllsta ástæða er til að ætla að þær beri þann tilætlaða árangur að varðveita kaupmátt launa eins og frekast er unnt, samhliða því sem hagur atvinnuveganna batnar og nýtt átak mun verða gert í atvinnumálum almennt, sérstaklega þó í nýjum greinum, t.a.m. fiskiræktinni, en enginn efi er á því að þar eru gífurleg tækifæri og þar er hægt að byggja upp öflugan atvinnurekstur á skömmum tíma, sem gæti farið að skila þjóðinni mjög miklum verðmætum innan nokkurra ára, enda ekki vansalaust að við skulum hafa dregist langt aftur úr nágrannalöndum okkar þótt aðstæður séu betri til fiskiræktar hér en þar, og miklu betri.

En til þess að árangur náist svo unnt verði að efla nýja og eldri atvinnuvegi og tryggja fjárhagslegt öryggi heimilanna og einstaklinga þarf að verða breyting í peningamálum. Hér hafa menn trúað því að unnt væri að ráða við verðbólgu með því að takmarka seðlamagn í umferð. Raunin hefur orðið öll önnur eins og hver einn veit nú og skilur. Þess vegna er unnið að því í bankakerfinu að aflétta skömmtunarstjórninni og koma á svipuðum háttum á lánamarkaði og er í öðrum löndum og var hér raunar allt fram á síðasta áratug. Peningamagnskenningin svonefnda hefur alls staðar beðið skipbrot, bæði hér og erlendis.

Það er mikill misskilningur, sem við höfum heyrt utan að okkur síðustu vikurnar og hér í kvöld, að stjórnarflokkarnir væru að gefast upp á því verkefni sínu að kveða verðbólguna í kútinn og efla atvinnuvegi sem síðan gætu staðið undir sífellt batnandi lífskjörum. Þvert á móti er nú kappsamlega að þessu unnið og hygg ég að ég hafi í fáum orðum gert mönnum nokkra grein fyrir þeim kostum sem fyrir hendi eru. En væntanlega er öllum ljóst að ríkisstj. er ekki ráðalaus. Þvert á móti ræðir hún þau úrræði sem til bjargar munu verða. Menn skulu því ekki halda að nein kreppa eða afturför sé fram undan í íslensku þjóðlífi. Þvert á móti höfum við öll skilyrði til þess að efla bæði atvinnuvegi vora og bæta hag landsmanna allra. — Góða nótt.