19.06.1985
Neðri deild: 105. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6924 í B-deild Alþingistíðinda. (6255)

119. mál, lögverndun á starfsheiti kennara

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Frv. um löggildingu starfsheita hafa verið flutt allmörg á síðari árum hér á hv. Alþingi. Sum þeirra hafa einnig fjallað um takmörkun starfsréttinda við starfsheiti ellegar löggildingu starfsréttinda sem starfsheitinu fylgdu. Að því er þetta mál varðar, þá er þetta ekki nýtt því að ályktanir hafa verið nokkrar á þingum kennarasamtakanna um að mikill hagur væri að því að löggilt yrði starfsheiti kennara. Slíkt telja margar stéttir ávinning. Það að löggilda starfsheitið eitt sér hefur fyrst og fremst í för með sér að þeir menn sem starfsheitið hafa fullnægja þá tilteknum menntunarskilyrðum þannig að viðskiptamaður veit hvaða menntun stendur á bak við það starfsheiti sem látið er uppi. Slíkt frv. var t. d. samþykkt á síðasta ári um bókasafnsfræðinga og veit ég að sú stétt manna hefur talið sér mikinn hag í því. Fleiri stéttir hafa sótt á um þetta í vetur. Þeim till. hefur ekki verið komið í þann búning að fært þyki að leggja frv. fram á Alþingi, enda hafa menn í þeim stéttum þá ekki verið á eitt sáttir um hvernig haga bæri slíkri löggjöf.

Það kom fljótlega í ljós, þegar skipuð hafði verið nefnd starfsmanna menntmrn. og fulltrúa Bandalags kennarafélaga, að löggilding starfsheitis fullnægði ekki hugmyndum þeirra sem í nefndinni sátu. Í starfi þessarar nefndar hefur komið í ljós að óskin um að takmarka aðgang að kennarastarfinu var í raun og veru miklu þyngri á metunum en óskin um að fá löggilt starfsheiti. Ég lýsti því yfir strax á haustdögum að ég væri fús til að vinna að frv. um löggildingu starfsheitis og að fylgja því fram. Þegar í ljós kom að fulltrúar kennaranna lögðu enn meiri áherslu á löggildingu starfsréttindanna eða m. ö. o. þrengingu aðgangsins að kennarastarfinu varð miklu vandasamara að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Þess vegna m. a. hefur starf nefndarinnar tekið lengri tíma en ég hugði í upphafi.

Ég gerði mér vissulega vonir um það á fyrstu dögum þings í haust að það tækist á mjög skömmum tíma að fullbúa frv. til að leggja fram sem stjfrv. Því miður tók það lengri tíma af þessum ástæðum en ég hugði. Auk þess kom sú ástæða til í marsmánuði, sem öllum er í fersku minni, að drjúgur hluti félagsmanna í Bandalagi kennarafélaga var ekki að störfum sínum þrátt fyrir starfsskyldu. Þegar svo stóð á í þrjár vikur skilja menn væntanlega að það var nokkuð snúið að vinna að löggildingu réttinda til að sinna því starfi sem menn neituðu að sinna þegar þeir höfðu lögbundna skyldu til þess. Þetta held ég að flestir skilji að var mjög erfitt við þessar aðstæður. Ég veit að fulltrúar kennaranna í þessari nefnd skildu þetta manna best sjálfir.

Hitt vil ég leiðrétta, sem fram kom hjá hv. flm. þessa frv., hv. 5. þm. Austurl., að ekki hafi verið unnið í nefndinni frá því 22. febr. Þó að fundir lægju niðri þennan sérkennilega tíma í marsmánuði hefur verið unnið í nefndinni í vor. Það hafa aldrei í sögunni. að ég held, verið sérkennilegri tímar í hópi kennara vegna kjarabaráttu en í vetur. Þetta hlaut að hafa sín áhrif á starf nefndar sem þessarar.

Þegar hv. þm. vitnaði til bréfs frá Kennarasambandi Íslands, sem var með fordæmingum og bannfæringum, lýst skóggangssök eða ég veit ekki hverju, a. m. k. voru ekki spöruð orðin og yfirlýsingarnar þar, er þar nokkuð á misskilningi byggt. Þar er fullyrt að samkomulag hafi verið um frumvarpsdrög og fordæmt að þessi frumvarpsdrög skyldu ekki hafa verið lögð fram. Slíkt væri náttúrlega alveg með ólíkindum því að þetta var óafgreitt vinnuplagg. Það er því alrangt að frv. hafi verið fullbúið. Nefndin var í miðri vinnu sinni. Það er mjög sérkennilegt að fordæmt sé að ekki sé lagt fram ófullgert vinnuplagg. Slíkt er vitaskuld alveg fráleitt, enda hefur nefndin komið saman og ákveðið að gera hlé á störfum sínum til hausts, vegna þess hve sérkennilegt ástand var í málum kennara í vetur, og reyna til þrautar að komast að sameiginlegri niðurstöðu í haust.

Ég hygg að það sé ekki ótítt að mál geti reynst erfiðari úrlausnar þegar um er að tefla atriði sem varða mjög kjaramál manna og svo stendur á í þessu tilviki. En það atriði sem einkum veldur ágreiningi er að fulltrúar kennaranna í nefndinni hafa til skamms tíma lagt á það áherslu að svo verði þrengdur aðgangur að kennarastarfinu að rn. taldi það geta haft í för með sér hættu á því að ekki yrði unnt að starfrækja einhverja skólana úti um landið. Við vitum að það er skortur á réttindamönnum víða, en okkar fyrsta skylda er vitanlega að halda uppi fræðslunni, jafnvel þótt réttindafólk fáist ekki. Við verðum fyrst og fremst að sinna þeim nemendum sem á skólaskyldualdri eru. Auðvitað verður því haldið áfram, eins og verið hefur, að réttindamenn ganga fyrir um ráðningu skv. lögum um embættisgengi. Svo hefur alla jafna verið um nýráðningar og verður sú meginregla að sjálfsögðu nú látin gilda. En vel má vera að unnt sé enn að finna einhvern meðalveg þarna á milli þess sem var hugmynd rn. í upphafi og snerti einvörðungu starfsheiti og hugmynda fulltrúa kennaranna sem gera málið um of að lokuðu stéttarmáli, ef ég má svo segja, að annaðhvort séu menn með full réttindi í uppeldis- og kennslufræði ellegar að ekki megi ráða eða setja mann í starfið. Þarna tel ég að verði að finna meðalveg. Ég hef trú á að það geti tekist. Vonandi verður meira jafnvægi í þessum málum á hausti komanda en verið hefur oft í vetur svo að þetta áhugamál kennara geti náð fram að ganga á þann veg að Alþingi veiti því brautargengi.