19.06.1985
Neðri deild: 105. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6932 í B-deild Alþingistíðinda. (6258)

119. mál, lögverndun á starfsheiti kennara

Páll Dagbjartsson:

Herra forseti. Ég sé mig tilknúinn til að leiðrétta misskilning og rangtúlkun hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni á orðum mínum áðan. Það mátti skilja málflutning hans þannig að ég hefði lagst gegn bættum kjörum kennarastéttarinnar. Það er alrangt. Ég lagði áherslu á að ég vildi skapa þær aðstæður að vel menntaðir og hæfir kennarar, þeir bestu sem völ er á, sæki í kennslustörf. Til þess að það mætti gerast þyrfti að bæta launin, gera breytingar á vinnuskylduákvæðum. Jafnframt efaðist ég um að lögverndun starfsheitisins kennari eða lögverndun á starfsréttindum kæmi þar nokkuð nálægt eða hefði nokkuð með það að gera að bæta kjörin sem slík.