08.11.1984
Sameinað þing: 17. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 932 í B-deild Alþingistíðinda. (626)

55. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar hefur nú setið að völdum í rúma 17 mánuði og á þessum 17 mánuðum hefur henni tekist að gera slíkan usla í ríkinu með vanhugsuðum og óréttlátum stjórnaraðgerðum að menn vita ekki lengur sitt rjúkandi ráð, einkum þeir sem í ríkisstj. sitja. Á ríkisstjórnarheimilinu er daglega spurt margra spurninga, eins og: Eigum við að halda áfram að vera saman í stjórn eða eigum við að stokka upp í stjórninni? Eigum við að halda áfram með sömu stjórnarstefnu eða eigum við að reyna eitthvað annað? Hefðum við kannske átt að leggja meiri áherslu á skattalækkunarleiðina í samningunum eða hvað? Og hvað eigum við að gera núna í kjölfar samninganna? Eigum við að fella gengið, hækka eða lækka vexti o.s.frv., o.s.frv.?

Þannig er nú spurt í hæstv. ríkisstj., eins og menn geta lesið um í blöðum og heyrt í fjölmiðlum. Spurningarnar eru óteljandi, en svörin engin enn sem komið er þótt hæstv. iðnrh. tali hér stórkarlalega eins og hans er vandi til.

Þótt ráðaleysi hæstv. ríkisstj. hafi e.t.v. aldrei verið meira en nú á þessum haustdögum er það síður en svo nýtt af nálinni. Fyrir réttu ári var alþjóð birt svokölluð svört skýrsla um ástand íslenska þorskstofnsins og þá þegar var ljóst að undir eins yrði að leita nýrra leiða í íslenskum atvinnumálum. Fyrirsjáanlegur var gríðarlegur samdráttur í undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar, sjávarútvegnum. Þetta var okkur öllum ljóst fyrir heilu ári. Og hvað gerir ríkisstj.? Hún tekur sér tíu mánaða umhugsunarfrest um málið og loksins 6. sept. s.l. sendir hún frá sér plagg sem hún nefndi: Samkomulag stjórnarflokkanna um aðgerðir í efnahags- og atvinnumálum.

Þær tilögur sem þar var að finna voru ákaflega lauslegar og á þeim var ekki nokkur leið að sjá hvernig ríkisstj. hugsaði sér að láta atvinnu- og efnahagsmáladæmi þjóðarinnar ganga upp, enda hefur þessu samkomulagi ekki verið flíkað síðan, heldur hefur það legið í þagnargildi í ráðaleysiskistu ríkisstj.

Eitt var þó alveg ljóst af þessu samkomulagi og það var að launafólki í landinu var ætlað að halda áfram að greiða niður verðbólguna. En í grein 2.6. í skjalinu segir, með leyfi forseta:

„Í fjárlagafrv. verður miðað við að kauptaxtar verði að meðaltali um 5% hærri en þeir verða nú í árslok.“ Þótt nýsköpun atvinnuveganna hafi verið óljós lá ljóst fyrir að halda átti áfram með þá launaskerðingarstefnu sem þessi ríkisstj. hefur rekið ótrauð allan sinn valdaferil. Allt tal hennar um að láta skattalækkanir koma á móti áframhaldandi kjaraskerðingu var hjóm eitt því ríkisstj. lagði aldrei fram neinar tillögur um hvernig hún ætlaði að mæta því tekjutapi sem ríkissjóður yrði fyrir ef þessi leið væri farin.

Og svo urðu menn hissa þegar verkföll skullu á. Og hæstv. fjmrh. fór á kostum eins og menn vita og heimsfrægt er orðið. Hann lét eftir sér hafa hverja yfirlýsinguna á fætur annarri sem ekki var hægt að skilja nema á þann veg að það fólk sem fór í verkfall til að krefjast mannsæmandi launa væri helstu óvinir lands og þjóðar, virti ekki lög og reglur og hygðist rústa íslenskt lýðræði. Sá hinn sami fjmrh. greiddi hins vegar ekki opinberum starfsmönnum laun sín eins og lög gera ráð fyrir og hefur sjálfur viðurkennt hér á Alþingi að hafa hindrað lögregluna í að sinna skyldustörfum sínum og rannsaka meint lögbrot vegna útvarpsreksturs svo sem henni er skylt að gera samkv. lögum.

Það er ekki fólkið í landinu sem stendur fyrir því að rústa íslenskt lýðræði. Það er ríkisstj. sem það gerir með þessari framkomu sinni. Og það er ríkisstj. sem ber ábyrgð á því langa verkfalli sem opinberir starfsmenn stóðu í. Það gerir hún vegna stefnu sinnar í launamálum, vegna þeirra þungu byrða sem hún hefur lagt á herðar þeirra sem síst mega við því og vegna þess að hún hefur ekkert gert til að stöðva þá peningasöfnun sem á sér stað annars staðar í þjóðfélaginu — annars staðar en hjá launafólki.

Ríkisstj. hafði í upphafi ferils síns töluvert fylgi við stefnu sína. Landsmenn voru tilbúnir til að leggja nokkuð á sig til að ná niður verðbólgunni. En það er þetta blóðuga misrétti, þessi hrapallega misskipting þeirra verðmæta sem til skiptanna eru og úrræðaleysi ríkisstj. í atvinnu- og efnahagsmálum sem gerir það að verkum að hún nýtur ekki lengur fylgis meiri hluta landsmanna.

Herra forseti. Góðir hlustendur. Þessi ríkisstj. hefur talað hátt um frelsi; frelsi í útvarpsmálum, frelsi þess sterkari til að gera það sem honum best líkar. En hverjar eru hugmyndir hennar um frelsi í launamálum? Þær eru dálítið aðrar.

Í tíð þessarar ríkisstj. hafa mönnum verið skömmtuð laun með lögum og ekki spurt um frelsi í þeim efnum, t.d. frelsi til að hafa fyrir nauðþurftum með því að vinna fulla vinnu. Ekki hefur verið spurt um frelsi til að lífa mannsæmandi lífi af ávöxtum vinnu sinnar. Og hvað hyggst ríkisstj. nú gera í kjölfar samninga sem ganga þvert á efnahagsstefnu hennar? Við því hafa ekki enn fundist nein svör. Við hlustuðum á hæstv. forsrh. hér áðan og í máli hans var engar tillögur til úrbóta að finna, enda ekki um auðugan garð að gresja í úrræðasmiðju ríkisstj.

En þótt engin úrræði séu sýnileg hjá ríkisstj. er margt sem er og hefði verið hægt að gera. Það hefði t.d. verið hægt að leggja áherslu á krónutöluhækkun launa í stefnumarkandi samningum við opinbera starfsmenn í stað prósentuhækkunar, eins og við Kvennalistakonur höfum þráfaldlega bent á. Þannig hefðum við getað tryggt töluverða hækkun lægstu launa sem var lífsspursmál fyrir þá sem ekki gátu séð sér og sínum farborða af vinnulaunum sínum.

Það var og er enn hægt að dreifa byrðunum réttlátar með því að skattleggja þá sem í dag maka krókinn og engan speking þarf til að sjá að gera það býsna gott og vel það í skjóli þessarar ríkisstj. Þannig er hægt að afla fjár til félagslegra úrbóta og nýrrar atvinnuuppbyggingar sem tryggja bættar aðstæður landsmanna allra.

Það er einnig hægt að spara ríkisfé og fjárfesta það á margvíslegan annan máta en nú er gert og afla þannig landsmönnum öllum aukinna tekna. Svo eitthvað sé nefnt má t.d. verja því fé sem nú fer í að byggja Blönduvirkjun fyrir svissneska auðhringinn Alusuisse — og þar er ekki um smáar upphæðir að ræða — til að byggja upp nýjar atvinnugreinar byggðar á innlendu hráefni og innlendri þekkingu á þeim stöðum þar sem atvinna er nú að leggjast niður sökum margvíslegra erfiðleika í sjávarútvegi.

Það má gera ótalmargt til að tryggja hag lands og þjóðar, en það er einfaldlega ekki gert. Stefna þessarar ríkisstj. leyfir það ekki. Stefna þessarar ríkisstj. leyfir ekki að jafnt sé látið yfir alla landsmenn ganga í baráttunni við verðbólguna. Hún leyfir ekki að tryggð sé afkoma og félagslegt öryggi allra landsmanna. Hún leyfir ekki skattlagningu milliliða og annarra sem hagnast af núverandi efnahagsástandi. Hún leyfir ekki að allir landsmenn sitji við sama borð án tillits til kynferðis, aldurs eða hvar þeir búa á landinu. Hún leyfir ekki að nýrra leiða sé leitað í atvinnuuppbyggingu og látið af gamla stóriðjudraumnum sem fyrir löngu er orðinn að martröð. Og núna síðustu vikurnar virðist hún ekki leyfa svo óyggjandi sé að lög séu haldin í landinu. Slík ríkisstjórnarstefna á ekki rétt á sér og því lýsa Samtök um kvennalista yfir vantrausti á hendur ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.