19.06.1985
Neðri deild: 105. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6933 í B-deild Alþingistíðinda. (6260)

119. mál, lögverndun á starfsheiti kennara

Frsm. minni hl. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Það fór nú ekki svo að það væri sama þrenningin sem kom upp í ræðustólinn og áðan. Það vantaði að hæstv. menntmrh. fylgdi á eftir hv. þm. Halldóri Blöndal og Páli Dagbjartssyni. En kannske á eftir að rakna úr því þó að ég vilji út af fyrir sig ekki hafa sérstök áhrif á það. En hér var málum bjargað með því að hv. 3. þm. Vestf. bættist við sem hinn þriðji í þennan kór þó ekki væri það til að ræða það frv. sem hér liggur fyrir eða tjá sig um það. Ég treysti því að hann sem aðrir góðir menn styðji það mál sem hér liggur fyrir og við hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson stöndum að nál. um og mælum með að samþykkt verði ásamt hv. þm. Kristínu Kvaran.

Ég ætla ekki hér að víkja frekar að máli hv. þm. Sjálfstfl. sem ég nefndi hér áðan. Ég tel að þeirra mál sé best geymt í ræðuhluta Alþingistíðinda. Þar geta menn kynnt sér hvernig þeir taka á þessu efni. Ég ætla ekki að vera að gera hv. þm. Páli Dagbjartssyni upp neinar skoðanir í sambandi við þetta, en hann hefur komið hér ákveðnum áréttingum af sinni hálfu á framfæri. Ég ætla ekki heldur að hefja hér almennar umræður um efnahagsmál sem hv. frsm. meiri hl. menntmn. gaf tilefni til með því að fara að ræða um kjaramál. Það væri vissulega full ástæða til að ræða þau mál á síðustu dögum Alþingis, en ég ætla að láta það eiga sig að þessu sinni og ekki efna til almenns málþings af því tagi.

Erindi mitt hingað er að svara þeirri fsp. hv. þm. Karvels Pálmasonar hvenær ég hafi sett fram sjónarmið af því tagi að eðlilegt væri að vernda kjör fiskverkafólks á Íslandi og þeirra sem í grunnframleiðslunni starfa. Ég gæti sýnt honum ýmsar ályktanir þar að lútandi, sem frá mínum flokki hafa komið, og hv. þm. ætti að vera kunnugt um marga þætti sem lögleiddir voru og hlutu nafnið „félagsmálapakkar“ í tíð fyrrv. ríkisstj. sem Alþb. átti aðild að og í einni þeirra með Alþfl. sællar minningar. Þar var m. a. tekið á ýmsum réttindamálum fiskvinnslufólks, réttindi þeirra tryggð og aukin í ýmsum greinum. Eitt þeirra atriða varðaði uppsagnarrétt þessa fólks, en það býr við lakari kost að því leyti en flestir ef ekki allir aðrir í landinu sem selja vinnuafl sitt. Ég man ekki laganúmerið eða nákvæmlega hvenær lög voru sett en í vetur kom fram frv. um breytingu á þeim sem hv. 3. þm. Vestf. var meðflm. að og hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson 1. flm. Það laut að því að auka rétt þessa fólks. Það var til að útfæra frekar og tryggja ákvæði sem atvinnurekendur hafa túlkað sér í hag í sambandi við fyrri lög sem viðkomandi þm. voru að leggja til breytingar á. Ég studdi að sjálfsögðu þetta frv., en það var stjórnarliðið hér á Alþingi sem kom því fyrir kattarnef, sem felldi það hér, eins og er í minnum haft og verður væntanlega lengi.

Hv. þm. kann að segja að þetta séu almenn orð og yfirlýsingar. Ég skal bæta við, hv. þm. Karvel Pálmason. Sem iðnrh. beitti ég mér fyrir því að starfsfólk í iðnaði fengi aukna möguleika á starfsþjálfun og eftirmenntun og komið var í kring í minni ráðherratíð svonefndri fræðslumiðstöð iðnaðarins, sem hv. þm. Karvel Pálmasyni ætti að vera kunnugt um sem fjvn.manni á undanförnum árum, þar sem skipulagt var fræðslu- og eftirmenntunarstarf fyrir fólk sem ekki hefur hlotið neina löggilta iðnmenntun í almennum iðnaði og þar sem starfsfólk í tengslum við fiskiðnað er ekki heldur útilokað. Þessi starfsemi er enn í gangi, að ég best veit, en hefur ekki hlotið lögfestingu, þ. e. starf þessarar fræðslumiðstöðvar iðnaðarins, eins og stefnt var að af fyrrv. ríkisstj. og sérstakt frv. var flutt um hér á Alþingi veturinn 1982–1983, ef ég man rétt, en hlaut þá ekki samþykki.

Ég get líka rifjað það upp fyrir hv. þm. og öðrum sem á mál mitt hlýða að það var enginn flóðafriður um þessa viðleitni að auka möguleika iðnverkafólks til að afla sér starfsréttinda og þjálfunar. Það hlaut ramma andstöðu málsvara atvinnurekendamegin, þ. á m. formanns Félags ísl. iðnrekenda sem hafði þessa starfsemi alveg sérstaklega á hornum sér. Kannske það hafi nú verið buddunnar lífæð sem að einhverju leyti hafi slegið og komið fram í hans orðum og afstöðu til þessa máls. Ég á þar við formann Félags ísl. iðnrekenda á sinni tíð.

Ég get látið þetta nægja þó margs væri fleira að minnast í þessum efnum og ef hv. þm. efast um mín viðhorf í þessu efni og stuðning að þessu leyti skal hann einfaldlega koma fram með mál á Alþingi og við skulum sjá hvar leiðir okkar geta legið saman að þessu leyti.

Ég vænti þess að hv. þm. taki undir það mál sem hér er flutt, sýni þann skilning á málefnum kennarastéttarinnar. Ég er honum alveg sammála um það efni og fleirum sem hér hafa talað að það mætti hugsa sér þjóðfélag á allt öðru spori en það sem okkar þjóðfélag og önnur iðnvædd þjóðfélög eru nú á í sambandi við hólfun á samfélaginu í starfsréttindi og aðrar slíkar kröfur. Það má hugsa sér það. En ég hygg að við þurfum að ganga þessa götu talsvert lengra og ná fram ýmsum grundvallarbreytingum á þjóðfélaginu áður en við hverfum af þessu spori, sem við nú erum á, að gera skilgreindar kröfur til einstakra starfshópa í þjóðfélaginu og veita þeim þá réttindi samfara því.