19.06.1985
Neðri deild: 105. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6946 í B-deild Alþingistíðinda. (6274)

210. mál, selveiðar við Ísland

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Aðeins örstutt athugasemd.

Ég vil ekki draga úr því að menn nái sáttum um mál. En það er ekki nægilegt. Það verður að vera einhver stefna í málinu og það verður að vera ákveðið hvað gera skal. Nýjustu áætlanir um kostnað við ormatínslu frystihúsanna eru að hann er jafnvel áætlaður 500 millj. kr. Ég skal ekkert fullyrða um þá áætlun, en alla vega er sá kostnaður gífurlegur. Við skulum segja að hann sé 500 millj. kr. Þá er ótalinn allur annar kostnaður, bæði beinn og óbeinn. Þar má nefna nýtingu framleiðslutækjanna eða þær tafir sem ormatínslan veldur. Ormur í fiskholdi hefur mjög mikil áhrif á nýtingu fisksins. skv. nýlegri athugun heldur fiskurinn nokkurn veginn holdum þar til ormur hefur náð því að verða um það bil fjórir ormar í kílói af roðlausum flökum. Eftir það er fall nýtingarinnar mjög mikið þannig að um er að ræða 0.9 til 1% rýrnun fyrir hvern orm sem við bætist í hvert kíló. Þegar ormafjöldinn hefur náð 10 til 14 ormum í hvert kg flaka er fiskurinn í raun orðinn verðlaus. Þetta er hin alvarlega staðreynd málsins.

Vissulega má um það deila hvernig á þessu stendur, en allar líkur benda til þess að hér eigi selurinn verulegan hlut að máli. Það er alveg rétt að átt hefur sér stað veruleg barátta út af selaveiði. Það hefur að vísu ekki verið mikil barátta hér á landi, en það er mikil barátta í löndunum í kringum okkur, t. d. á Grænlandi og í Kanada. Fólk í Evrópu hefur afarlítinn skilning á þörfum fólks á norðlægum slóðum. Grænlendingar hafa orðið fyrir gífurlegum búsifjum í þessu sambandi. Það er nær grátlegt hvernig hefur verið veist að því fólki af aðilum í Evrópu sem kalla sig umhverfissinna. Það meinar vissulega allt gott, en hefur ekki nógu mikla þekkingu á lífsháttum þeirrar þjóðar til að standa í reynd undir nafni.

Ég tel að við Íslendingar séum umhverfisverndunarmenn sem þjóð. Vissulega leggja menn misjafnar áherslur í því sambandi, en sem þjóð erum við það. Ég vil gera athugasemd við það sem hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir sagði að það væri hafnað tillögurétti ýmissa samtaka. Þetta er beinlínis rangt. Það hefur verið gerð breyting á 3. gr. frv., það er rétt, og við höfum oft rætt það áður, en það stendur ekki á nokkurn hátt til að ganga fram hjá þeim samtökum sem þar eru nefnd. Það væri ekki verið að nefna þau þar ef það stæði til. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar að það rn. sem fer með yfirráð þessara mála verði að bera stjórnsýslulega ábyrgð á málinu, en ekki hin ýmsu samtök. Þannig verður að vinna að málum. Ákvörðunarvaldið má ekki færa frá rn. Það er það sem fer með ábyrgðina. Það er vissulega tilhneiging hér til að færa framkvæmdavaldið til og það á sjálfsagt við í einhverjum tilvikum, en ég sé ekki að það sé nein ástæða til þess í þessu sambandi og á alveg eins að vera hægt að hafa hið besta samstarf við þessa aðila með þeim hætti sem hér er lagt til.

Ég vildi út af orðum hv. þm. Friðjóns Þórðarsonar segja að það eru felld niður öll lagaákvæði um selveiðar sem í gildi eru og þar með um selaskot á Breiðafirði. Ég held að það detti ekki nokkrum manni í hug, eins og hann komst að orði, að fara að bruna á hraðbát um þarlægar slóðir og það viðkvæma lífríki sem er á Breiðafirði skjótandi í allar áttir. Ég held að hvergi sé hægt að finna þann anda í þessu frv. og mér þykir afar ólíklegt að nokkrum manni detti það í hug. Hér er verið að reyna að koma heildarstjórn á þessi mál og vinna að fækkun selsins með skipulegum hætti og reyna að gera það í sem bestri samvinnu víð þá aðila sem þar eiga hagsmuna að gæta, en alls ekki að fara um með þeim hætti sem hv. þm. nefndi hér. Ég vænti að engum detti það í hug.