19.06.1985
Neðri deild: 105. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6947 í B-deild Alþingistíðinda. (6275)

210. mál, selveiðar við Ísland

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Nei, þó að ég léti þessi orð falla datt mér ekki í hug að slíkur hernaður yrði rekinn af sjútvrn. a. m. k. En ýmsir hafa nú gaman af að skjóta úti í náttúrunni, bæði á sjó og þurru landi, og eru nú æðióprúttnir við þá hluti ef þeir fara frjálsir ferða sinna.

Ég vil svo taka það fram að mér er fyllilega ljóst hvað hér er um gífurlega mikið vandamál að ræða fyrir sjávarútveginn, ormatínslan er dýr og kostnaðarsöm úr hófi fram. Þetta er hin alvarlega staðreynd málsins, eins og hæstv. sjútvrh. nefndi, og þarna er a. m. k. talið að selurinn eigi verulegan hlut að máli.

En sannleikurinn er sá að þetta mál hefur oft komið upp í huga minn í vetur sökum mikilvægis þess og ég hef hvað eftir annað verið kominn á fremsta hlunn með að hefja viðræður m. a. við hæstv. sjútvrh. um málið að fyrra bragði. En ég var satt að segja orðinn úrkula vonar um að því yrði hreyft frekar á þessu þingi. Þess vegna hrökk ég nokkuð við áðan þegar það er allt í einu tekið á dagskrá undir miðnætti þegar tveir dagar eru eftir af þinginu. Þetta finnst mér afskaplega einkennilegt í svona máli sem vissulega þarf að athuga og reyna að ná sáttum, taka höndum saman sem allra flestir góðir menn til þess að fá einhverja heilbrigða heildarstjórn á þessi mál. Það er tvímælalaust það sem þarf að gera. Ég veit ekki hvort okkur auðnast að koma því í kring á þessum tveim dögum sem eftir eru af þinginu. Ef það yrði hægt, hv. þm. Garðar Sigurðsson, þá yrði ég manna fegnastur ef okkur tækist það.