19.06.1985
Neðri deild: 105. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6948 í B-deild Alþingistíðinda. (6281)

503. mál, getraunir Öryrkjabandalags Íslands

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Hér hefur verið tekið á dagskrá og til umr. frv. til l. um getraunir Öryrkjabandalags Íslands, mál Nd. nr. 503. Frv. þetta virðist í fljótu bragði vera ákaflega einfalt í sniðum og í sjálfu sér þarft málefni, en því er þannig farið að á þessu máli eru margar hliðar sem ég tel ástæðu til að fjalla nokkuð um og útskýra fyrir þingheimi.

Það er einkum tvennt sem skiptir meginmáli að því er varðar flutning þessa frv. Annars vegar er um það að ræða að fyrir eru í landinu lög frá árinu 1972 þar sem Íslenskum getraunum, sem er sjálfseignarstofnun íþróttasamtaka, er veittur réttur til að starfrækja getraunir af því tagi sem um er fjallað í þessu frv. Þetta þýðir þá að með samþykki á þessu frv. mundi vera gengið á þann rétt sem undanfarin 13 ár hefur verið í höndum íþróttasamtakanna, íþróttahreyfingarinnar. Hins vegar er um það að ræða að þetta frv. gerir ráð fyrir að Öryrkjabandalagið afli tekna til starfsemi sinnar og fjárfestinga með getraunum af því tagi sem um getur í frv.

Ég held því fram að þetta frv. sé því í fyrsta lagi aðför að íþróttahreyfingunni og í öðru lagi mikill bjarnargreiði við Öryrkjabandalagið og mun ég útskýra það frekar í máli mínu við þessa umr. og væntanlega við þá 3. einnig.

Þetta mál var lagt fram í þinginu um miðjan maímánuð og er, eins og ég gat um áðan, nr. 503 á málaskrá þingsins. Það gekk til nefndar eftir tiltölulega stuttar umræður og fékk einnig tiltölulega skjóta afgreiðslu frá hv. allshn. Ég hygg að allshn. hafi afgreitt málið frá sér um mánaðamótin. Síðan hefur frv. beðið 2. umr. án þess þó að því hafi komið þar til í s. l. nótt þegar klukkuna vantaði 20 mínútur í tvö, en þá var málið tekið á dagskrá og mér, sem hafði beðið um orðið, gefið orðið. Ég stóð þá upp og óskaði eftir því að umr. yrði frestað þar sem mjög væri áliðið nætur. Ljóst var að málið þyrfti ítarlega umr. af minni hálfu og að hæstv. landbrh. eða dómsmrh. sem leggur frv. fram var ekki til staðar. Þessi frestunarbeiðni mín þótti nokkrum hv. þm. ámælisverð og var hún túlkuð á þann hátt að ég væri að koma í veg fyrir að frv. fengist tekið til umr. Það er algerlega röng túlkun á viðbrögðum mínum í gærkvöld. Ég vildi gjarnan að málið yrði rætt, en ég er ekki hlynntur því að það fái afgreiðslu. Ég er hlynntur því að það verði rætt m. a. til að ég geti tekið til máls og tjáð mig um innihald þess og afleiðingar þess ef af samþykkt þess verður.

Þó að lítið fari fyrir frv. og það virðist einfalt í sniðum er það margslungið og er angi af stefnu eða stefnuleysi sem ríkir varðandi fjármögnun bandalaga og samtaka bæði á sviði líknar- og mannúðarmála sem og að því er varðar almenn félagasamtök í landinu, t. d. íþróttahreyfinguna. Sannleikurinn er sá að ef um einhver ámælisverð vinnubrögð er að ræða, þá kasta ég spjótinu til baka til Alþingis sjálfs og tel einmitt að vinnubrögðin í vetur hafi verið þannig vaxin að gagnrýna megi. Langtímum saman í vetur hefur þingið verið tiltölulega aðgerðarlaust og starfslítið. Hafa þá verið fá mál á dagskrá og fundir stuttir og óhætt er að fullyrða að hæstv. ríkisstj. var ákaflega síðbúin með fjölmörg mál sem hún bar fyrir brjósti og mjög síðbúin með þau mál sem hafa síðustu daga tafið þinglausnir og tekið mikinn tíma, langt fram á kvöld. Ég held að það væri æskilegra að þingstörf væru þannig að menn gætu gengið að þingfundum og þingstörfum á venjulegum dagvinnutíma og gætu afgreitt, a. m. k. tekið til umræðu, mál jafnt og þétt í stað þess að hafa þann háttinn á, sem verið hefur hér undanfarna daga og vikur, að hrúgað er inn hverju stórmálinu á fætur öðru síðustu dagana þannig að mönnum gefst varla kostur á eða tími til að fara vel og gaumgæfilega yfir þau. Þannig er einmitt með þetta mál, sem hér er á dagskrá, frv. til l. um getraunir Öryrkjabandalags Íslands, að því er kastað hingað inn í maí óundirbúnu og óathuguðu og nánast eins og skrattinn úr sauðarleggnum er það komið inn á borð til okkar.

Hv. allshn. gaf sér ekki mikinn tíma til að fara ofan í saumana á frv. Hún kallaði til sín, að mér skilst, nokkra einstaklinga, en sendi frv. ekki til umsagnar eins og venja er í þingnefndum og flýtti sér um of að afgreiða það frá sér. Ég segi að hún hafi flýtt sér um of vegna þess að frv. vekur vissulega upp margar spurningar.

Þrátt fyrir mótmæli nokkurra þm. s. l. nótt gegn frestunarbeiðni minni fór svo að hæstv. forseti tók hana til greina og frestaði umr. þangað til í dag og er ég þakklátur forseta fyrir þá tillitssemi sem hann sýndi þá. Því er hins vegar ekki að neita að nú er aftur komin nótt og enn er það svo að sá hæstv. ráðh. sem útbjó þetta frv. og flutti það er ekki viðstaddur, en mér hefur verið tjáð að hæstv. forsrh. sé staðgengill hans í dag. Vitaskuld benti ég á fjarveru hæstv. dómsmrh. í gær með það í huga að hann hefur haft veg og vanda af flutningi þessa máls og liggur væntanlega með fjölmargar upplýsingar um tilurð þess.

Vegna þessa atviks, sem hér átti sér stað í gærkvöld eða í nótt, þar sem deilur urðu um hvort þetta mál ætti að koma á dagskrá eða ekki, vildi ég segja að vitaskuld geri ég mér grein fyrir því að þegar svo er áliðið þings sem raun ber vitni þurfa stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar að koma sér saman um afgreiðslu mála og greiða fyrir þeim eftir atvikum og hef ég skilning á því. Hitt er annað mál að þingflokkarnir eiga ekki þingið. Hér sitjum við allir hv. þm. sem einstaklingar og höfum okkar málfrelsi. okkar rétt til tillöguflutnings og enginn þingflokkur getur bannað mönnum að sækja mál eða verja hvenær sem er og á hvaða tíma sólarhringsins sem er.

Ég tók fram í gær og endurtek það núna að enda þótt forustumenn stjórnar og stjórnarandstæðinga hafi gert með sér samkomulag um þinglausnir á ég ekki aðild að slíku samkomulagi. Það hefur ekki verið undir mig borið. Ég tel mig því hafa frjálsar hendur. óbundnar. til að ræða þetta mál og önnur, ef mér sýnist svo, það sem eftir er þings án þess að brjóta eitt eða neitt samkomulag. Með allri virðingu fyrir stjórnmátaflokkum og þingflokkum er það hafið yfir allan vafa að ef þm. bera mál fyrir brjósti og telja að þeir þurfi að verja rétt eða hagsmuni eða koma fram sjónarmiðum sínum, sem þeim finnst skipta miklu máli. þá eiga þeir og mega þeir tjá sig um þau mál og þá eiga þeir rétt á því að það sé gert á þeim fundatíma þegar búast má við því að þingheimur sé viðstaddur og hlýði á mál þeirra. Ég held því að sú venja, sem hér hefur skapast í þinginu, að láta þingfundi standa fram á nætur og menn tala yfir auðum stólum sé misnotkun á fundarstjórn og þinghaldi og það sé vanvirða gagnvart þm. sem vilja tjá sig og vilja láta orð falla þannig að aðrir hlusti og taki rökum eða séu þá til andsvara þegar því er að skipta. Mér finnst að þeir sem eru nú að fjalla um breytt þingsköp, þeir sem stjórna þinginu, ættu að hafa þetta í huga. Þegar menn vilja gera breytingar til bóta á þingsköpunum á náttúrlega ekki að bjóða upp á það að menn þurfi að standa hér uppi langt eftir miðnætti og ræða mikilvæg málefni yfir auðum stólum.

Hér hafa menn undanfarna daga verið mjög uppteknir af nokkrum málefnum og frumvörpum sem borin eru fram af hálfu ríkisstj. Þetta eru mál sem fjalla öll, eða a. m. k. flest þeirra. um opinbera sjóði og banka eða snerta lánsfjárlög. Það eru lög um stofnlánasjóði, það eru lög um Byggðasjóð og Framkvæmdasjóð, það eru lög um viðskiptabanka og lög um sparisjóði, það eru lánsfjárlög o. s. frv., o. s. frv. Það er gott og blessað að þm. séu uppteknir við að hagræða og laga til í opinberum sjóðum og vilji haga löggjöf um sjóði og banka á þann veg að hagsmunir þeirra sjálfra og umbjóðenda þeirra séu ekki fyrir borð bornir. En það eru fleiri sjóðir og önnur fjármál sem skipta máli í þessu þjóðfélagi en bara það sem snýr að hinu opinbera. Það eru fjármál hinna frjálsu samtaka. Það eru fjármál íþróttahreyfingar, líknar- og mannúðarsamtaka. Það er ekki alltaf sem stjórnvöld hafa mikinn skilning á stöðunni í þeim efnum. Menn eru í þessum efnum, því miður, of uppteknir af sjálfum sér til þess að gefa almenningi og almannasamtökum gaum sem verðugt er.

Hér er lagt fram frv. til l. um getraunir Öryrkjabandalags Íslands. Ég fullyrti áðan að þetta væri tiltölulega óundirbúið mál og ég endurtek það. Þetta frv. er að sjálfsögðu til þess flutt að styrkja fjárhagsstöðu Öryrkjabandalagsins og ég dreg ekki úr því að það sé mikil fjárþörf á þeim bæ. Ég held satt að segja að Öryrkjabandalagið þurfi að fá stórefldar tekjur til að standa undir þeirri mannúðarstarfsemi sem þar er rekin. Ég veit af eigin raun að víða er erfitt í þeim samtökum sem standa að Öryrkjabandalaginu og hjá því fólki sem í þeim samtökum er. Ég held að það sé verðugt verkefni fyrir þjóðfélagið að rétta þar hjálparhönd. Mér er vel kunnugt um að innan vébanda Öryrkjabandalagsins og í forustu þess eru menn sem hafa unnið aðdáunarvert starf fyrir land og þjóð, óeigingjarnt starf sem ástæða er til að bera mikið lof á. Ég vil gjarnan leita leiða til þess að Öryrkjabandalagið geti eflt sína stöðu og geti sinnt sínum skjólstæðingnum. Ég vil gjarnan stuðla að því á þingi og annars staðar að vakin sé athygli á því mikla mannúðarstarfi sem þar fer fram og vekja almenning til skilnings á að þar þurfi mjög að taka til hendi. Ég mundi gjarnan vilja reyna að hafa áhrif á stjórnvöld, að svo miklu leyti sem ég hef áhrif, til þess að ríkisvaldið láti meira fé af hendi rakna til Öryrkjabandalagsins. Það er sem sagt hafið yfir allan vafa að með þessu frv. er hreyft þörfu máli að því leyti að þarna er verið að gera tilraun til að efla fjármál og renna frekari stoðum undir starfsemi Öryrkjabandalags Íslands.

En á þessu máti, eins og ég sagði áðan, eru tvær hliðar a. m. k. Það verður ekki fram hjá þeirri staðreynd litið að í landinu eru lög um getraunir þar sem gert er ráð fyrir því og lögverndað að íþróttahreyfingin hafi rétt til að starfrækja getraunir. Þessi lög voru samin 1972 og ég mun fara frekar ofan í þau síðar. En þá var samstaða um það á þingi að íþróttahreyfingunni bæri að fá þennan rétt og menn voru sammála um það þá að íþróttahreyfingin ætti það skilið. Þar er um að ræða fjöldahreyfingu í landinu sem telur allt að ef ekki yfir 100 þús. virka félagsmenn, yfirleitt fólk á unga aldri, yfirleitt fólk sem stundar hið jákvæða í lífinu, fólk sem hefur skilning á heilbrigði og góðri heilsu, og þar er um að ræða hreyfingu sem elur af sér og þroskar menn til forustu ekki aðeins í þessum íþróttafélögum sjálfum heldur og í öðrum samtökum, í stjórnmálum, og fólk sem kemur til með í framtíðinni og hefur haft mikil áhrif á öllum sviðum þjóðlífsins. Íþróttahreyfingin hefur unnið mikið og veglegt starf í landinu og þess vegna er það ekkert undarlegt þó að Alþingi Íslendinga hafi viljað veita henni liðsinni og veita henni rétt til að starfrækja getraunir. En svo virðist sem íþróttahreyfingin eigi ekki lengur þá sömu bandamenn sem hún hafði áður. Hún virðist ekki lengur eiga talsmenn eða hauka í horni innan stjórnmálaflokkanna í innsta hring því að skyndilega og óvænt er lagt fram frv. þar sem gert er ráð fyrir að aðrir aðilar öðlist þann rétt sem íþróttahreyfingunni var úthlutað með lögunum frá 1972. Þetta hefur verið nefnt af íþróttahreyfingunni sjálfri aðför að hagsmunum hennar. Ég vil a. m. k. kalla það mikla hagsmunaárekstra á milli tveggja góðra bandalaga, annars vegar Öryrkjabandalagsins og hins vegar íþróttahreyfingarinnar. Mér finnst þarna hafa verið klaufalega að málum staðið, og að þarna sé verið að etja saman þeim sem síst skyldi og sé ekki gæfumerki á því frv. sem hér er nú til umr. að þessu leyti til.

Ég hefði gjarnan viljað varpa fram ýmsum spurningum í þessu sambandi. Ég hef gjarnan viljað fá upplýsingar um það frá hæstv. dómsmrh. Jóni Helgasyni hvaða áætlanir liggi fyrir um tekjur af þeim getraunum sem nú eiga að falla í skaut Öryrkjabandalagsins. Hafa einhverjir útreikningar verið gerðir á því hvað hægt er að hafa mikið fé út úr svona starfsemi? Hvaða samráð hefur verið haft við þá sem hafa rekið happdrætti eða getraunir í landinu fram að þessu til þess að forðast þá árekstra sem ég var að tala um áðan? Hvernig á að ráðstafa því fé sem vonandi fæst þannig af starfsemi getrauna? Má skilja þetta þannig að ríkisvaldið sé hér með að gera stefnubreytingu að því er varðar fjárstuðning við Öryrkjabandalagið þannig að nú eigi að gera ráð fyrir því í framtíðinni að fjármagn Öryrkjabandalagsins fáist af þessum getraunum og þá verði endurskoðuð og breytt þeim lögum sem hingað til hafa gilt um fjármögnun til allra þeirra samtaka sem innan Öryrkjabandalagsins eru? Á að breyta fjárveitingum og þeim reglum og hefðum sem myndast hafa um þessa málaflokka eða á að breyta reglugerðum sem lúta að opinberri aðstoð við öryrkja? Og ef ríkisvaldið stígur það spor að veita Öryrkjabandalaginu rétt til að reka getraunir við hliðina á íþróttahreyfingunni hlýtur mönnum að vera ljóst að þarna verða menn að kroppa augun hverjir úr öðrum, þarna verður það mikil samkeppni, og það verður til þess að fjármál íþróttahreyfingarinnar skerðast sem þessu nemur. Þá er auðvitað spurningin sú: Er þá gert ráð fyrir að fjármálum íþróttahreyfingarinnar að því er varðar ríkisvaldið verði hagað öðruvísi en hingað til hefur verið gert? Má þá búast við því t. d. að ríkisvaldið hyggist hækka verulega fjárveitingar til íþróttamála? Og er þessi frv.flutningur um getraunir til Öryrkjabandalagsins liður í einhverri stefnumörkun stjórnvalda gagnvart frjálsum félagasamtökum almennt?

Sú spurning vaknar líka hvort hér sé ekki skapað fordæmi um það að aðrir geti komið á eftir og happdrætti og getraunir séu öllum opin. Þær hugmyndir eru vissulega á ferðinni að það eigi að leggja niður öll lög sem varða þessa starfsemi, það eigi að hafa þetta frjálst, það eigi allir að hafa rétt til að reka getraunir og allir sem vilja megi reka happdrætti. Mér sýnist að það séu vissar flóðgáttir opnaðar í þeim efnum og þarna sé verið að ryðja brautina. Hafa menn velt því fyrir sér eða gert einhverjar rannsóknir á því hvernig staða happdrættismarkaðarins er? Á hverju ári efnir fjöldinn allur af samtökum og félögum til happdrættis til styrktar málefnum sínum. Hvernig hefur þessum happdrættum gengið? Er mikið pláss á þessum markaði eftir? Mér er sagt af fróðum mönnum, af þeim sem hafa stundað happdrættisstarfsemina um langan tíma, að tekjur fari mjög rýrnandi. Mér er sagt að það sé sífellt verra að fara af stað með happdrætti og það sé jafnvel svo að menn séu helst farnir að treysta á að vinningarnir gangi ekki út, hagnaðurinn sé fólginn í því að geta dregið vinninginn sjálfur. Ég held að þessar spurningar og margar aðrar komi upp í hugann þegar staðið er frammi fyrir frv. af þessu tagi.

Mér er líka spurn hvort rn. hafi borist vitneskja um hvort Öryrkjabandalagið hafi gert einhverja úttekt á því hvernig slíkar getraunir skuli reknar. Er búið að koma sér upp vélabúnaði? Er búið að undirbúa það hvernig selja á og dreifa miðum? Hvernig á skipting hagnaðar að vera og kostnaðar? Hvert á vinningshlutfallið að vera í þessari getraunastarfsemi? Hafa menn kynnt sér það starf sem verið hefur á vegum Íslenskra getrauna sem eru fyrst og fremst knattspyrnugetraunir, en eru getraunir engu að síður? Hér er verið að fara inn á þá braut að gefa öðrum kost á sams konar starfsemi. Skyldu menn hafa mikið hugsað um hvernig sú starfsemi fer fram og hvað miklu er til þess kostað og mörgum starfskröftum og starfstímum varið til að afla tekna til íþróttahreyfingarinnar gegnum getraunastarfsemi eða hafa menn bara rennt blint í sjóinn og verið að óska eftir getraunum og það verið fallist á að láta þá reka og fá rétt til getraunastarfsemi án þess að hafa nokkra hugmynd um hvernig slík starfsemi fer fram og hvað sé nauðsynlegt til þess að hún geti gengið?

Ég hefði haldið, herra forseti, að það væri mjög nauðsynlegt að hæstv. dómsmrh. Jón Helgason væri viðstaddur þessa umr. til að svara þessum atriðum, sem ég hef verið að nefna, og fjölmörgum öðrum og tæki þátt í þessari umr. því að þetta er vissulega stórt mál. Þetta snertir ekki aðeins Öryrkjabandalagið og einhverja tiltekna getraunastarfsemi. Þetta er liður í almennri fjáröflun til almennra samtaka fólksins í landinu. Og þetta er að nokkru leyti stefnumörkun sem ég tel mjög ranga. Ég hefði haldið að það væri verðugt að ráðh. sem leggur fram slíkt tímamótamál hefði verið viðstaddur umr. til að fjalla um málið og taka þátt í skoðanaskiptum og reyna að komast að skipulegum niðurstöðum og taka þá rökum gagnrýni eftir atvikum.

Það má vel vera að þetta mál sé ekki mjög stórt í augum margra þm. og þeim finnist þetta vera einfalt mál. Auðvitað er það rétt hjá þeim að tekjur sem af getraunum fást skipta kannske hundruðum þúsunda eða nokkrum milljónum, en hér er ekki verið að ræða um upphæðir upp á mörg hundruð millj. kr. eða milljarða eins og við höfum verið að fjalla um að því er varðar hina opinberu sjóði eða banka og lánsfjárlög sem hafa verið til umfjöllunar á þingi að undanförnu. En þetta er samt stórt mál fyrir þúsundir manna úti í þjóðfélaginu og það skiptir máli fyrir þetta fólk hvernig afgreiðslu mála á borð við þetta hlýtur. Hér er ekki bara um það að ræða að ég standi hér einn með mínar sérskoðanir. (HBl: Það er fullur þingsalurinn.) Ég er bara einn í ræðupúlti, hv. þm. — Ég er að segja frá því að ég sé ekki einn að tala út frá eigin hjarta af einhverri sérvisku eða túlka sjónarmið og skoðanir sem séu mínar prívat og persónulega. Ég er hér að fjalla um þetta mál vegna þess að í máli mínu endurspeglast vonandi viðhorf íþróttaforustunnar, íþróttamanna og alls þess stóra hóps sem sinnir íþróttastarfinu og æskunni í þessu landi. Það varðar þetta fólk miklu hvernig með þetta mál er farið og hver örlög þess verða. Það eru ekki einungis formenn í félögum eða samböndum sem kynna sér svona mál og fylgjast með því þegar þau eru flutt. Formenn, gjaldkerar, stjórnarmenn, þjálfarar, unglingaleiðtogar, ekki bara hér í Reykjavík heldur um alla hina íslensku byggð, í kaupstöðum og kauptúnum þar sem æskan er að leik, allt þetta fólk fylgist með því hvað hér er á ferðinni og hefur áhyggjur af því ef nú á að fara að taka ákvarðanir um að skerða hlut íþróttahreyfingarinnar sem ekki var þó mikill fyrir.

Ég sagði áðan að ég hefði fullan skilning á stöðu Öryrkjabandalagsins og ég endurtek það enn og ítreka að af heilum hug vildi ég gjarnan að meira fjármagni væri veitt til Öryrkjabandalagsins. Ég skil vel vandamál þess og styð viðleitni þess til að efla starfsemi sína og ég veit um vandamál þess, en ég held að það fólk og sú starfsemi sem er innan vébanda Öryrkjabandalagsins sé hluti af velferðarkerfinu í þjóðfélaginu. Lítilmagnarnir, sem búa við örorku og heilsuleysi, elli eða vanþroska af einum eða öðrum toga, eru auðvitað það fólk sem samfélagið í heild sinni á að rétta hjálparhönd í gegnum það velferðarkerfi sem við höfum útbúið og eflt eftir atvikum. Hér hafa verið almannatryggingar, bótakerfi. Við höfum mjög öfluga samhjálp í þjóðfélaginu. Ég veit ekki betur, og leyfi mér að fullyrða það, en að Íslendingar hafi sinnt þessum hópi, öryrkjunum, af bestu getu og þeir vilji að það sé gert í gegnum hið almenna velferðarkerfi. Þeir vilja að skattar sínir gangi til þessarar samhjálpar. Það er beinlínis skylda þjóðfélagsins að ef einhverjum á að rétta hjálparhönd, ef einhvers staðar á að vera samhjálp í gangi, ef einhvers staðar á að nýta það fé sem fer til almennra trygginga til bóta og til aðstoðar því fólki sem á við bágindi að stríða, þá er það einmitt í gegnum Öryrkjabandalagið. Með sköttum ríkisins á að standa undir því að þetta fólk líði ekki skort og það geti unað sér eftir atvikum í þjóðfélaginu. Ég hygg þess vegna að það sé rangt að láta Öryrkjabandalagið treysta á happdrætti í framtíðinni. Ég held að það sé mjög áhættusöm leið, það sé röng og vafasöm aðferð til að efla Öryrkjabandalagið og fjármál þess. Getraunir eru vonarpeningar, lotterí. Er eðlilegt, skynsamlegt eða réttlátt að bandalag sem hefur slíka mannúðar- og líknarstarfsemi á sinni könnu þurfi að afla fjár til sinnar starfsemi með happdrætti, með því að selja happdrættismiða á götum úti eða ganga í hús og selja lottó, talnagetraunir, og treysta á að fá einhverja peninga með þeim hætti? (HBl: Hvar eru þeir peningar betur komnir?) Ég held að ríkisvaldið eigi að standa undir þessari starfsemi og það sé krafa þjóðfélagsins að stjórnvöld sinni því og reki ekki bandalag á borð við Öryrkjabandalagið út í þá nauðvörn að þurfa að standa í getraunastarfsemi.

Það er ljóst mál að með þessari aðferð, sem hér hefur verið valin, getur komið til árekstra. Það er beinlínis ætlast til þess að menn kroppi augun hverjir úr öðrum. Ég er ekki í neinum vafa um að getraunir hér og getraunir þar munu skemma fyrir hverjum þeim sem fer af stað með slíka starfsemi. Vegna þessara árekstra og vegna þess að mér er ljóst að alþm. hafa ekki gert sér nándar nærri grein fyrir afleiðingum þess að frv. verði samþykkt tel ég að nauðsynlegt sé við þessa umr. að þingheimur sé upplýstur um þau grundvallaratriði sem fram koma og skipta máli við þennan frumvarpsflutning. Það er ekki nauðsynlegt að horfa á þetta mál einangrað. Það verður að fá heildarsýn yfir það. Þess vegna mun ég nú fara yfir þau skjöl sem hér hafa verið lögð fram svo að það fari ekki á milli mála í þingtíðindum hvað hér er á ferðinni og hvað ég er að tala um.

Í fyrsta lagi er um að ræða frv. til l. um getraunir Öryrkjabandalags Íslands, en í 1. gr. þess segir: „Dómsmálaráðherra er heimilt að veita Öryrkjabandalagi Íslands leyfi til þess að starfrækja getraunir er fram fara með þeim hætti að á þar til gerða miða er skráð eða valin röð bókstafa.

Heimild þessi gildir til ársloka 1990.“

Í 2. gr. frv. segir:

„Gjald fyrir þátttöku í getraunum Öryrkjabandalagsins (miðaverð) ákveður dómsmálaráðherra að fengnum tillögum frá stjórn Öryrkjabandalags Íslands.“

3. gr.: „Helmingi af heildsöluverði miða hverju sinni skal varið til vinninga.

Vinningar getrauna eru undanþegnir hvers konar opinberum gjöldum, öðrum en eignarskatti, á því ári sem þeir falla.“

4. gr.: „Óheimilt er öðrum en Öryrkjabandalagi Íslands að starfrækja getraunir með þeim hætti sem um ræðir í 1. gr.

5. gr.: „Ágóða af getraunastarfseminni skal varið til að greiða stofnkostnað við íbúðarhúsnæði fyrir öryrkja á vegum Öryrkjabandalags Íslands.“

6. gr.: „Dómsmrh. setur í reglugerð nánari ákvæði um starfsemi getraunanna, að fengnum tillögum frá stjórn Öryrkjabandalags Íslands.“

Í 7. gr. er kveðið á um að brot gegn lögum þessum varði sektum og 8. gr. gerir ráð fyrir að lögin öðlist þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrv. þetta eru ákaflega stuttar og þykir mér rétt að lesa þær upp hér svo að frv. í heild sinni komist til skila:

„Öryrkjabandalag Íslands hefur farið fram á leyfi til happdrættis (getrauna), er fram fari með þeim hætti að þátttakendur skrá eða velja röð bókstafa. Gert er ráð fyrir því að miðaútgáfa fari fyrst og fremst fram með aðstoð tölvukerfis og að vinningar í happdrætti þessu (getraunum) verði greiddir út í peningum.

Skv. lögum um happdrætti (lotterí) og hlutaveltur (tombólur), nr. 6/1926, er óheimilt án lagaheimildar að setja á stofn peningahappdrætti eða önnur þvílík happaspil.

Frv. felur í sér heimild til dómsmrh. til þess að leyfa Öryrkjabandalaginu að reka slíka getraunastarfsemi til að afla fjár til að greiða stofnkostnað við íbúðarhúsnæði fyrir öryrkja. Að öðru leyti en því, sem greinir í frv., er gert ráð fyrir því að sett verði nánari ákvæði um starfsemina í reglugerð.“

Eins og ljóst er af þessum upplestri eru upplýsingarnar með þessu frv. fáar og smáar.

Hér er um að ræða, eins og ég gat um áðan, frv. sem skerðir hagsmuni annarra, sem gengur inn á rétt sem er lögvarinn, sem hefur mikla hagsmuni bæði fyrir þá sem hér er kveðið á um að eigi að fá réttinn og eins fyrir þá sem hafa átt hann áður og hér er um að ræða starfsemi sem er allflókin, en hefur þó fengið nokkra reynslu hérlendis og erlendis. Því hef ég talið nauðsynlegt og eðlilegt að fyllri og ítarlegri upplýsingar kæmu fram með þessu frv. og ég gagnrýni það mjög hversu kastað hefur verið til höndum við gerð frv. og grg. með því.

Mér hefur að vísu borist í hendur afrit af bréfi sem á að heita greinargerð vegna happdrættis Öryrkjabandalags Íslands og er stílað til hæstv. dómsmrh. Það er athyglisvert að þetta bréf er dagsett 8. maí sem er aðeins örfáum dögum áður en frv. er lagt hér fram og flutt. Það rökstyður enn einu sinni þá skoðun mína að hér hafi verið fljótfærnislega staðið að málum og hrapað að þessum frumvarpsflutningi.

Í bréfi Öryrkjabandalagsins segir, með leyfi forseta: „Öryrkjabandalag Íslands var stofnað í ágúst 1961. Stofnfélögin voru sex, en nú samanstendur bandalagið af neðangreindum 13 öryrkjafélögum og styrktarfélögum öryrkja: Blindrafélagið, Blindravinafélagið, Félag heyrnarlausra, Foreldra- og styrktarfélag heyrnardaufra, Geðhjálp, Geðverndarfélag Íslands, Gigtarfélag Íslands, Heyrnarhjálp, Samband ísl. berklasjúklinga, Sjálfsbjörg, Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra, Styrktarfélag vangefinna, MS-félagið.“ Eru þá upptalin styrktarfélögin og öryrkjafélögin innan bandalagsins, en áfram segir í bréfinu, með leyfi forseta:

„Markmið bandalagsins er að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum öryrkja, svo sem húsnæðismálum, atvinnumálum og almennum félagsmálum, en enn fremur að koma fram fyrir hönd öryrkjahópanna gagnvart stjórnvöldum.

Nokkru áður en Öryrkjabandalagið var stofnað hafði verið gerð könnun á húsnæðisaðstöðu öryrkja á Reykjavíkursvæðinu. Sú könnun leiddi í ljós að öryrkjar bjuggu gjarnan í lélegasta húsnæðinu, svo sem í kjöllurum, bröggum og rakaíbúðum sem þeir er meiri fjárráð höfðu vildu ekki búa í.

Árið 1964 samþykkti stjórn Öryrkjabandalagsins að einbeita kröftum sínum að umbótum í húsnæðismálum öryrkja með það í huga að stofna sjálfseignarstofnun, hússjóð Öryrkjabandalagsins, er skyldi byggja og reka leiguíbúðir fyrir öryrkja. Skipulagsskrá sjóðsins var samþykkt 1. nóv. 1965. Ákveðið var að byggja 250 leiguíbúðir á lóð er Reykjavíkurborg hafði úthlutað bandalaginu við Hátún 10. Þó að þessar íbúðir hafi verið byggðar er enn biðlisti eftir húsnæði með 300–400 manns. Eru það að mestu einstaklingar sem ekki eiga greiðan aðgang að íbúðum á félagslegum grundvelli. Öryrkjabandalagið stefnir að því að útvega 40–50 íbúðir á ári um land allt. Reynslan sýnir að 8–10 íbúðir losna árlega undan þannig að nýjar íbúðir þyrftu að vera 40–42. Gera má ráð fyrir að fjárþörf fylgi að nokkru framangreindri áætlun eða samsvarandi 40–45 millj. á ári.

Vert er að vekja athygli á því að nú eru 3/5 íbúanna hjá hússjóði Öryrkjabandalagsins aldraðir öryrkjar og eru líkur til að áfram verði stór hluti íbúanna aldraðir þar sem allir fá að búa í sínum íbúðum eins lengi og kostur er. Það er því þjóðhagslega hagkvæmt að aldraðir öryrkjar hafi aðstöðu til húsnæðis í jafnríkum mæli og á hagstæðu verði. Öryrkjabandalagið vill stuðla að því að öryrkjar eigi þess kost að búa í sinni heimabyggð þegar árin færast yfir og mun í því sambandi beita sér fyrir samstarfi við viðkomandi sveitarfélög.

Öryrkjabandalagið rekur einnig þrjár verndaðar vinnustofur, en ljóst er að efla þarf þá starfsemi. Þá hefur Öryrkjabandalagið með höndum lögfræðilega þjónustu fyrir fatlaða þeim að kostnaðarlausu og einnig er veitt margháttuð félagsleg aðstoð, sérstaklega þeim einstaklingum sem búa í húsnæði bandalagsins.

Mikið er um að Alþingi og fleiri opinberir aðilar leiti eftir faglegu mati bandalagsins um mál er snerta hagsmuni öryrkja. Er þessi þjónusta vaxandi þáttur í starfseminni, en þörf er á verulegu auknu starfi á þessu sviði.

Með framangreindu yfirliti er í stuttu máli gerð grein fyrir fjárhagslegri þörf Öryrkjabandalagsins. Áætlað verð á fyrirhuguðum happdrættiseiningum er 50 kr. og er þess vænst að með happdrætti bandalagsins verði hagur öryrkja bættur verulega.

Að lokum viljum vér benda á að hin ýmsu félagssamtök, sem vinna að velferðarmálum, hafa lyft grettistaki í íslensku þjóðlífi. Mörg verkefni hafa verið framkvæmd fyrir forgöngu þeirra.“

Þetta er bréf frá Öryrkjabandalagi Íslands, stílað til Jóns Helgasonar, hæstv. dómsmrh., og dags. 8. maí. Ég geri ráð fyrir að Öryrkjabandalagið hafi skrifað tugi slíkra bréfa, ekki síst til fjvn., í gegnum tíðina þannig að þessar upplýsingar eru ekki nýjar af nálinni. Þó að þær séu allar brýnar og réttmætar hefur ekki verið tekið meira tillit til málefna Öryrkjabandalagsins en svo að fjárveitingar til bandalagsins í gegnum sjóði og lögbundnar leiðir hafa verið skornar við nögl og jafnvel skertar á undanförnum árum. En þegar erindi berst um að það fái leyfi til að starfrækja getraunir hleypur ríkisvaldið til. Hæstv. dómsmrh. kastar hér inn frv., væntanlega guðs lifandi feginn yfir því að geta þarna séð útgönguleið fyrir Öryrkjabandalagið og þá um leið kannske fyrir ríkiskassann þannig að í framtíðinni er hægt að segja við Öryrkjabandalagið: Gerið svo vel. Þið hafið getraunastarfsemina. Nú þurfið þið ekki meiri peninga í gegnum fjárlögin.

Nú er ég kannske ekki að öllu leyti sanngjarn gagnvart hæstv. dómsmrh. með því að gera honum upp þessar hugleiðingar, en hvernig á ég að geta verið sanngjarn eða hagað málflutningi mínum þannig að tekið sé fullt tillit til ráðh. þegar hann er alls ekki viðstaddur og engin leið er til þess að átta sig á því í hvaða tilgangi og hvað vakir fyrir hæstv. ráðh. með því að velja þessa leið til að láta fé ganga til Öryrkjabandalagsins? Er hér um að ræða, eins og ég spurði fyrr í kvöld, stefnubreytingu af hálfu hins opinbera? Ég kem kannske betur að þessu bréfi síðar, en ég vildi þessu næst kynna það að frá meiri hl. allshn. barst nál. og annað frá minni hl.

Í meirihlutaálitinu segir:

„Nefndin hefur rætt frv. á fimm fundum. Til viðræðna við nefndina um efni frv. hafa komið fulltrúar Öryrkjabandalagsins, Íþróttasambands Íslands, getrauna íþróttahreyfingarinnar og Háskóla Íslands.

Meiri hl. nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem hún ber fram á sérstöku þskj.

Friðjón Þórðarson og Ólafur Þ. Þórðarson áskilja sér rétt til þess að flytja brtt. við frv. eða fylgja þeim sem fram kunna að koma.“

Ég gat þess áðan að ég hefði talið að allshn. hefði staðið illa að athugun og afgreiðslu þessa máls. Formaður nefndarinnar kallaði þá fram í og sagði að nefndin hefði rætt málið á fimm fundum. Það út af fyrir sig er gott og blessað. En ljóst er að á þessa fundi hafa verið til kvaddir, auk fulltrúa Öryrkjabandalagsins, fulltrúar frá Íþróttasambandi Íslands, frá Íslenskum getraunum og frá Háskóla Íslands og frá öllum þessum þremur aðilum fékk nefndin neikvæðar umsagnir þar sem mælt var eindregið gegn því að málið fengi afgreiðslu og yrði afgreitt sem lög.

Minni hl., skipaður hv. þm. Páli Dagbjartssyni og Stefáni Guðmundssyni, segir svo í sínu nál.:

„Nefndin tók þetta mál fyrst á dagskrá 22. maí, en frv. var þó ekki rætt þá. Þann 29. maí komu fulltrúar frá Íþróttasambandi Íslands á fund nefndarinnar, þeir Sveinn Björnsson, Valdimar Örnólfsson og Jón Ármann Héðinsson. Háskólarektor Guðmundur Magnússon kom einnig á þennan fund, svo og fulltrúar frá Öryrkjabandalagi Íslands, þeir Oddur Ólafsson og Vilhjálmur Vilhjálmsson.

Við endurskoðun laga um getraunir árið 1972 var komið inn í 2. gr. laganna viðbótarákvæði um talnagetraunir. Þar segir m. a. að með getraunum sé átt við að „á þar til gerða miða — getraunaseðla, sem félagið eitt (þ. e. Íslenskar getraunir) hefur rétt til þess að gefa út og selja, eru merkt úrslit kappleikja (íþróttagetraunir) eða skráð niðurröðun ákveðins fjölda talna (talnagetraunir).

Í nágrannalöndum hefur þetta getraunaform hlotið nafnið Lotto.

Í nokkur ár hefur þetta kerfi verið til ítarlegrar athugunar hjá íþróttahreyfingunni og með bréfi dags. 21. okt. 1983 til dómsmrh. er skýrt frá því að Íslenskar getraunir hafi ákveðið að hefja starfrækslu talnagetrauna skv. ákvæði í 2. gr. laga um getraunir, nr. 59 frá 29. maí 1972. Síðan þetta bréf var ritað hafa fulltrúar frá Íþróttasambandi Íslands kynnt sér þessa starfsemi í Svíþjóð, Finnlandi, Þýskalandi og víðar. Íþróttahreyfingin hefur nú tryggt sér tækjabúnað til þessarar starfsemi og áætlað er að starfsemin geti hafist síðar á þessu ári.

Stefnt er að því að rekstur íþróttahreyfingarinnar muni á þessu ári kosta um 250 millj. kr. Íþróttahreyfingin hefur hingað til fjármagnað sína starfsemi að mestu með eigin fjáröflun og sjálfboðavinnu og verður að teljast ákjósanlegt að slíkt geti haldist áfram.

Þetta frv., ef samþykkt verður, getur haft veruleg áhrif á fjáröflunarmöguleika íþróttahreyfingarinnar og annarra sem hafa tekjur af rekstri happaspila. Það er álit minni hl. nefndarinnar að mál þetta þarfnist frekari athugunar og leggur því til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.“

Í bréfi sem lagt hefur verið fram hér í þinginu, dags. 7. júní, frá Íþróttasambandi Íslands, sem barst öllum hv. alþm., segir með leyfi forseta:

„Í tilefni frv. til laga, sem nú liggur fyrir Alþingi, um getraunastarfsemi á vegum Öryrkjabandalags Íslands óska stjórnir Íþróttasambands Íslands, Ungmennafélags Íslands og íþróttanefndar ríkisins að vekja athygli yðar á eftirfarandi:

Skv. lögum nr. 59/1972 hafa Íslenskar getraunir einkaleyfi til starfrækslu getrauna, bæði íþróttagetrauna og talnagetrauna. Enda þótt hið nýja lagafrv. geri ráð fyrir notkun bókstafa í stað talna má öllum vera ljóst að með samþykkt þess væri spillt svo þeirri hugsun og grundvelli sem liggur að baki starfsemi Íslenskra getrauna að jaðrar við afnám þess réttar sem íþróttahreyfingunni var veittur með lögunum frá 1972.

Fram að þessu hafa Íslenskar getraunir afmarkað starfsemi sína við íþróttagetraunir, þ. e. úrslit kappleikja, en undanfarin ár hefur verið í undirbúningi að koma jafnframt á fót talnagetraunum eins og lög heimila. Hefur í þeim tilgangi verið aflað víðtækrar vitneskju um reynslu íþróttahreyfinga annarra landa á þessu sviði. Undirbúningurinn er nú á því stigi að síðla sumars er áformað að talnagetraunir hefji starfsemi sína, framkvæmdastjóri hefur verið ráðinn og unnið er að því að undirbúa starfsaðstöðu og daglegan rekstur.

Öllum er ljós erfið fjárhagsaðstaða íþróttahreyfingarinnar og á það jafnt við um einstök félög sem heildarsamtök, en með lögunum um Íslenskar getraunir var skapaður ákveðinn réttur til að afla fjár til stuðnings íþróttastarfseminni í landinu. Tilkoma annarrar getraunastarfsemi, þótt bókstafakerfi væri notað, verður því nánast að skoða sem aðför að þeirri starfsemi sem fyrir er og verið er að undirbúa. Við viljum því eindregið vara við samþykkt þessa nýja frv. og förum þess eindregið á leit við hv. alþm. að ekki verði rasað um ráð fram í þessu máli. Allir viðurkenna vandamál öryrkja og þarfir þeirra fyrir bætta aðstöðu. Eitt vandamál er þó ekki farsælt að leysa með því að spilla svo fyrir öðru að ekki sjái fyrir afleiðingar þess.

Það eru því ákveðin og samhljóða tilmæli okkar að margnefnt frv. verði lagt til hliðar í núverandi mynd og lausnir fundnar á vandamálum öryrkja án þess að valda þeirri röskun og ófyrirsjáanlegu tjóni sem hér hefur verið gert að umtalsefni.

Virðingarfyllst

f. h. Íþróttasambands Íslands

Sveinn Björnsson,

f. h. Ungmennafélags Íslands

Pálmi Gíslason,

f. h. Íþróttanefndar ríkisins

Valdimar Örnólfsson,

f. h. Íslenskra getrauna

Jón Ármann Héðinsson.“

Eitt álitið enn hefur borist í tilefni af þessu frv. og væntanlega í kjölfar á því að háskólarektor, Guðmundur Magnússon, var kvaddur til fundar við nefndina. Það álit er frá Happdrætti Háskóla Íslands og dags. 23. maí 1985. Með leyfi forseta hljóðar það svo:

„Vegna frv. til l. um getraunir Öryrkjabandalags Íslands, sem lagt hefur verið fram á Alþingi, vill stjórn Happdrættis Háskóla Íslands gera svofelldar athugasemdir:

1. Happdrætti Háskóla Íslands hefur nú einkarétt á rekstri peningahappdrættis hér á landi skv. lögum nr. 13/1973. Hefur svo verið í 51 ár. Einkarétturinn hefur verið mjög þýðingarmikill í rekstri happdrættisins og væri það mikill hnekkir ef hann yrði skertur.

2. Byggingar Háskóla Íslands og tækjakaup hafa að mjög verulegu leyti verið greiddar af happdrættisfé. Hins vegar hrekkur það hvergi nærri til nauðsynlegra framkvæmda í fyrirsjáanlegri framtíð. Stjórn Happdrættis Háskóla Íslands hefur í undirbúningi tillögur um aukna starfsemi happdrættisins og hefur þegar verið gerð grein fyrir sumum þeirra. Nánari tillagna er að vænta áður en langt um líður.

3. Skv. lögum nr. 59/1972 hafa Íslenskar getraunir heimild til að reka talnagetraunir, lottó, og mun þeim verða hleypt af stokkunum á næstunni. Kemur þar til sögunnar nýr samkeppnisaðili á happdrættismarkaðinum.

4. Markaðurinn fyrir happdrættið er auðvitað ekki ótakmarkaður. Í athugunum sínum á nýjungum í rekstri hefur Happdrætti Háskóla Íslands gert ráð fyrir að nýjungar yrðu að hluta á kostnað núverandi reksturs og yrðu að réttlætast af því að með þeim næðist einnig til viðskiptavina sem ekki eru það nú þannig að heildartekjur ykjust.

5. Stjórn Happdrættis Háskóla Íslands telur sem fyrr segir og styðst þar við reynslu erlendis að stofnun nýs happdrættis af þeirri stærð sem ætlunin virðist vera muni leiða til samdráttar og þar með tekjutaps þeirra sem fyrir eru. Eigi ekki að skerða fé til uppbyggingar Háskóla Íslands og rannsóknastofnana atvinnuveganna yrði að bæta tekjutapið með einhverjum hætti og þá væntanlega með auknu framlagi ríkissjóðs. Stjórn Happdrættis Háskóla Íslands hefur fullan skilning á starfsemi Öryrkjabandalags Íslands og tekjuþörf þess. Stjórnin telur hins vegar að upphaflegar forsendur fyrir veitingu einkaleyfis til Háskóla Íslands til reksturs peningahappdrættis séu óbreyttar og eigi ekki að skerða rétt þennan.

F. h. stjórnar Happdrættis Háskóla Íslands

Guðmundur Magnússon.“

Hér hef ég rakið með vísan til þessara skjala nokkrar þær athugasemdir sem fram hafa komið við frv. Þessar athugasemdir eru settar fram af háskólarektor Guðmundi Magnússyni f. h. Happdrættis Háskóla Íslands og fyrir hönd Háskólans sem slíks annars vegar og hins vegar athugasemdir frá Íþróttasambandi Íslands, Ungmennafélagi Íslands, frá Íþróttanefnd ríkisins og frá stjórn Íslenskra getrauna. Í báðum þessum tilvikum er mjög eindregið lagst gegn samþykkt frv. og varað mjög við því. Ég trúi ekki fyrr en ég tek á því að stjórnvöld og flm. þessa frv. taki ekki tillit til þessarar gagnrýni og þessara athugasemda og fallist á að nauðsynlegt sé að fresta þessu máli og skoða það betur eins og minni hl. allshn. leggur til. Fram koma í þessum greinargerðum ýmis þau sjónarmið og atriði sem ég hefði talið fulla ástæða til að staldra við og fá viss svör áður en lengra yrði haldið. Enn og einu sinni kem ég þess vegna að því að ég hefði óskað mjög eindregið eftir því að þessi umr. gæti farið fram þannig að hæstv. dómsmrh. Jón Helgason væri viðstaddur. Nú vildi ég leyfa mér að spyrja hæstv. forseta hvort hæstv. ráðh. Jón Helgason sé í landinu eða ekki. Eru tök á því að hann verði viðstaddur hér á morgun og taki þátt í umr. og svari þeim spurningum sem ég hef borið fram og mun bera hér fram? (Forseti: Hæstv. ráðh. er erlendis og mér er ekki kunnugt um hvenær hann kemur heim. Hæstv. forsrh. gegnir hans störfum á meðan.) Þá er spurningin sú: Er hæstv. forsrh. viðlátinn þessa stundina? Nú er ekki að sjá að margir séu í salnum. Ég hef ekki komið auga á neinn eins og er. Ég er ekki að gera sérstaka kröfu til þess að hæstv. forsrh. sitji inni yfir þessari þulu minni frekar en aðrir þm. Hins vegar er spurningin hvort hann gæfi sér tíma til þess, ef hann er í húsinu enn þá, að koma hingað og svara því hvort hann treystir sér til að svara fsp. mínum í umr. á morgun. (Forseti: Hæstv. forsrh. er farinn úr húsinu, en verður væntanlega viðstaddur þegar 3. umr. fer fram og vonast ég þá til að hann geti svarað þeim spurningum sem í hans valdi stendur að svara.) Ég mundi gjarnan fara fram á að fá þessari umr. frestað þangað til það liggur fyrir. Ég get þá haldið áfram máli mínu á morgun og þá yrðu þessar fsp. fram bornar. Ég tel það vera í hæsta máta óeðlilegt hvernig að málum er staðið. Ég kom hér í gærkvöld og í nótt og gerði kröfu um að ráðh. væri viðstaddur og vegna þeirrar kröfu var ákveðið að fresta umr., en hér er ég aftur kominn núna og búinn að bíða samviskusamlega í allan dag eftir þessari umr. en þegar að henni kemur lætur sá ráðh. sem er staðgengill ekki svo lítið að vera viðstaddur. Mér finnst þetta vera hreinn dónaskapur gagnvart mér sem var búinn að tilkynna þennan ræðuflutning. Öllum var ljóst að ég mundi taka hér til máls og beinlínis var til þess ætlast að ég tæki til máls um miðja nótt. Það er eindregin ósk mín að þessari umr. verði frestað þangað til það liggur fyrir annaðhvort að ráðh. geti verið við til að svara fsp. eða þá að þeir geti sagt til um það hvort þeir vilji yfirleitt svara þeim fsp. sem hér eru fram bornar. (Forseti: Ég vek athygli á því að þetta er 2. umr. um málið og 3. umr. fer væntanlega fram á morgun. Þá verður hæstv. forsrh. viðstaddur. Ég tel því rétt að þessi umr. fari nú fram og henni ljúki. Að því hefur verið stefnt.) Hvað á hæstv. forseti með því að henni ljúki? Verður þá gengið til atkvgr. núna? (Forseti: Nei, það stendur ekki til að greiða atkv., heldur að umr. ljúki, en atkvgr. verði frestað.) Þá ætla ég að gera hlé á máli mínu og áskil mér rétt til að taka frekar þátt í þessari umr. þegar svör fást við fsp. og þegar fleiri eru til viðtals úr hæstv. ríkisstj.