19.06.1985
Efri deild: 105. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6961 í B-deild Alþingistíðinda. (6284)

456. mál, Byggðastofnun

Frsm. 2. minni hl. (Ragnar Arnalds):

Virðulegi forseti. Það er álitamál hvort þess þarf sérstaklega að geta héðan úr ræðustól að ég flytji till. til breytinga á þessu frv. um staðsetningu Byggðastofnunar á Akureyri þar sem því hefur verið rækilega lýst úr forsetastól að sú till. sé flutt við 3. umr. eftir að hafa verið dregin til baka við 2. umr. til að ekki þyrfti að vera neitt álitamál.

Ég vil kynna till. þar sem henni hefur ekki verið útbýtt með nafni eins flm., en hann er sá sem hér stendur. Till. er svohljóðandi:

„Við ákvæði til bráðabirgða bætist ný mgr. svohljóðandi:

Stjórn Byggðastofnunar er heimilt að ákveða að aðsetur stofnunarinnar skuli vera á Akureyri og skal stjórnin láta fara fram ítarlega athugun á því máli.“

Þessi till. þarfnast ekki skýringa, svo augljós sem hún er, sanngjörn og eðlileg.