19.06.1985
Efri deild: 105. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6963 í B-deild Alþingistíðinda. (6296)

247. mál, flutningsjöfnunarsjóður olíu og bensíns

Valdimar Indriðason:

Virðulegi forseti. Það er gerð ein breyting á frv. til l. um flutningsjöfnunarsjóð og innkaupajöfnun olíu og bensíns frá því sem við afgreiddum þetta mál héðan úr þessari deild. Nd. samþykkir eina breytingu sem er afar veigalítil, en þó er hún samþykkt þar.

Það er í 6. gr. Í niðurlagi hennar segir: „Undanþegið innkaupajöfnun er flugbensín og flugsteinolía, sem ætluð er til nota í utanlandsflugi.“

Setningin „sem ætluð er til nota í utanlandsflugi“ falli niður, það sé ekki innkaupajöfnun á flugbensíni og flugsteinolíu í utanlandsflugi. Ég hef rætt þetta við þá í viðskrn. síðan brtt. kom fram og þetta veldur engri breytingu. Þetta er framkvæmdaatriði hjá þeim. Þeir sjá því ekkert athugavert við að framkvæma frv. þó felld séu út þessi orð þarna. Þess vegna leggur fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar til að frv. verði samþykkt eins og það kemur hér frá Nd.