19.06.1985
Efri deild: 105. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6963 í B-deild Alþingistíðinda. (6299)

404. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Valdimar Indriðason:

Virðulegi forseti. Hér er frv. til l. um viðauka við lög nr. 44 25. maí 1976, um Fiskveiðasjóð Íslands, sem við höfðum gengið frá í þessari deild fyrir allnokkru. Þetta er búið að vera nokkuð lengi á ferðinni í Nd. Þar er gerð breyting á þessu frv. frá því sem við gengum frá því, þ. e. settur í það viðauki á eftir 2. gr. Hana ætla ég að lesa, með leyfi forseta:

„Við kaup á skuldabréfum skv. 1. gr. er stjórn sjóðsins óbundin af ákvæðum 11. og 12. gr. laga nr. 44/1976, en skuldabréf þessi skulu vera tryggð með veði í fiskiskipum og/eða fasteignum og á þann hátt sem stjórn Fiskveiðasjóðs Íslands metur fullnægjandi.“

Viðbótin sem Nd. leggur til að bætt verði við þessa grein hljóðar svo:

„Fiskveiðasjóði er heimilt að veita lán eða ábyrgðir vegna stofnframkvæmda við fiskeldisstöðvar með veði í fasteignum eða gegn ábyrgðum sem stjórn Fiskveiðasjóðs metur fullnægjandi og er hún í þeim efnum óbundin af ákvæðum 11. og 12. gr. laga nr. 44/1976.“

Við höfum spjallað um þetta í sjútvn. Ed. og n. er sammála því að mæla með því að þessi viðauki komi inn í frv. Hún leggur til að það verði samþykkt eins og það kemur þannig breytt frá Nd.

Eins og við vitum öll hafa þeir fjöldamörgu aðilar sem hafa stofnað til fiskeldis, bæði í smáum og stórum stíl, verið í miklum vandræðum með hvar þeir njóti fyrirgreiðslu. Talið er mjög eðlilegt að fiskeldi geti komið til afgreiðslu hjá Fiskveiðasjóði eins og öðrum sjóðum ef þar verða peningar fyrir hendi. Við teljum þetta því eiga fullan rétt á sér. Það er getið þarna um 11. og 12. gr. laga nr. 44 frá 1976, en þær eru um veðheimildir Fiskveiðasjóðs varðandi eingöngu fiskiskip og annað. Auðvitað er ekki hægt að binda þessa lánastarfsemi við slíkt heldur verður að miða við þau veð sem stjórn Fiskveiðasjóðs metur gild.

Nefndin leggur til að þessi breyting verði hér samþykkt og að frv. verði samþykkt eins og það kemur þannig breytt frá Nd.