20.06.1985
Sameinað þing: 99. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6965 í B-deild Alþingistíðinda. (6312)

473. mál, söluskattur af bókum

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég vil skýra frá því að þessari fsp. hefur ekki verið unnt að svara með viðhlítandi hætti á þeim tíma sem verið hefur til stefnu og skal ég skýra af hverju það er. Fyrirspurnin hljóðaði svona, með leyfi hæstv. forseta:

„Hverju nam innheimtur söluskattur á árinu 1984 af: a. bókum íslenskra rithöfunda, b. þýðingum á bókum erlendra rithöfunda?“

Þessari fyrirspurn er beint til menntmrh. enda þótt menntmrn. hafi ekkert með söluskattsmál að gera. Söluskattur og innheimta hans heyra undir fjmrh. og því mætti kannske ætla að þangað hefði borið að beina fyrirspurninni. En hvað sem um það er þá var starfsmönnum menntmrn. falið að reyna að afla upplýsinga eftir föngum um þetta mál. Það var leitað til ýmissa aðila í þjóðfélaginu sem þetta mál varðar svo sem til fjmrn., skattstofunnar í Reykjavík, embættis ríkisskattstjóra, Félags bókaútgefenda og Félags bóksala. En þrátt fyrir þessa eftirgrennslan hefur ekki fengist uppgefið hver söluskattsinnheimtan hefur verið af þeirri bóksölu sem fyrirspurnin fjallar um.

Menntmrn. barst 4. júní svohljóðandi bréf frá fjmrn., með leyfi forseta:

„Fjmrn. vísar til erindis menntmrn. dags. 3. þ. m. þar sem þess er farið á leit að fjmrn. upplýsi fyrir 4. þ. m. hverju innheimtur söluskattur á árinu 1985 nam af bókum íslenskra rithöfunda annars vegar og hins vegar af þýddum bókum erlendra rithöfunda.“

Ég vil gera hlé á lestrinum, herra forseti, og skýra frá því að strax og fsp. hafði verið borin fram hafði verið munnlega leitað til fjmrn. en það erindi var staðfest með þessu bréflega erindi. Þess vegna eru dagsetningarnar þær sem um getur hér. En þetta hafði þá verið kannað. Ég held áfram lestrinum.

„Til svars erindinu tekur fjmrn. fram að skattkerfið getur ekki upplýst hver söluskattsinnheimtan af ofannefndri bókasölu nam á síðastliðnu ári enda er söluskattsskyld velta bóka- og ritfangaverslana ekki sundurgreind á söluskattsskýrslum með þessum hætti. Af þessum sökum hljóta allar fjárhæðir sem nefndar eru í þessu sambandi ætíð að byggjast á mati eða ágiskunum hverju sinni. Fjmrn. treystir sér hins vegar ekki til þess að geta sér til um fjárhæðir þessar með þeim skamma fyrirvara sem því er veittur til verkefnisins í tilvitnuðu erindi menntmrn.

f. h. ráðherra Höskuldur Jónsson.

Lárus Ögmundsson.“

Það er ljóst að til þess að unnt sé að svara þessu af nokkurri nákvæmni þarf að haga öðruvísi söluskattsskýrslu um bóksölu. Og það þarf þess vegna miklu lengri fyrirvara til þess. Það er þó ljóst að tekjur íslenska ríkisins af sölu íslenskra bóka hljóta að skipta tugum milljóna. Á árinu 1983 var áætlað að þessar tekjur væru á bilinu 60 til 70 millj. kr. það ár. Ef þessi upphæð er framreiknuð til ársins í ár kæmi ekki á óvart að tekjur ríkisins af bóksölu væru um 100 millj. En það er rétt að undirstrika að þetta eru einungis ágiskanir á þessu stigi. Fjmrn. hefur, eins og ég sagði, ekki treyst sér að svo komnu máli til að gefa um þetta nákvæmari upplýsingar og þess vegna ekki á þann hátt sem fyrirspyrjendur ætlast til.

Þetta eru þær upplýsingar sem menntmrn. hefur tekist að fá og er ljóst að það þarf vissa skipulagsbreytingu til þess að unnt sé að svara þessari fsp. af nákvæmni.